132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Jarðalög.

739. mál
[21:31]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil á margan hátt áhyggjur hv. þingmanns sem er að velta því fyrir sér hvaða jarðir þetta eru. Ég hef nú ekki tölu yfir það en það væri fróðlegt að fara yfir það.

Ég hygg samt sem áður að flestar þær jarðir sem undir önnur ráðuneyti heyra séu sérstakar jarðir sem heyra t.d. undir kirkjumálaráðherra, dóms- og kirkjumálaráðuneytið og Biskupsstofu. Undir menntamálaráðuneyti heyra margar jarðir og einhverjar undir fleiri aðila og svo eru það auðvitað þjóðgarðar, Þingvellir og fleiri, sem eru annars staðar. Fæstar þessar jarðir munu vera til sölu nema þá hjá Biskupsstofu og kirkjumálaráðuneytinu. Ég hygg að það sé nú með flestar þessar jarðir að komi þær til sölu þá koma þær einnig hér til umfjöllunar, það þarf heimild Alþingis til sölunnar í fjárlagafrumvarpi. Ef ég man þetta rétt þá held ég að kirkjujarðirnar séu háðar því ákvæði einnig.

En því miður, hv. þingmaður, ég hef ekki tölur yfir þessar jarðir en býst nú við að þær séu til og skal útvega þær og koma þeim í hendur hv. þingmanni. En þetta er nú svona þar sem við teljum eðlilegt að hver beri ábyrgð á því sem undir hann heyri og fari með það eftir þeim lögum sem gilda. Þess vegna sjái landbúnaðarráðuneytið um það sem þess er og dóms- og kirkjumálaráðuneytið um það sem þess er og menntamálaráðuneytið um þær jarðir sem því tilheyra o.s.frv. Það eru ýmsar jarðir — ég hygg að Laugarvatn, Reykholt og fleiri skólastaðir séu undir menntamálaráðuneyti.

En ég held að það sé ekkert í þessu gert fremur en hjá okkur nema jarðir sem heyra undir 38. gr. og bændurnir eiga kauprétt að sem seljast beint en hvað allar aðrar jarðir varðar þarf leyfi frá þinginu til að selja þær