132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Tóbaksvarnalög – eftirlaunafrumvarp – starfsáætlun þingsins.

[12:09]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Í hv. heilbrigðisnefnd er til meðferðar frumvarp um breytingar á tóbaksvarnalögunum þar sem aðallega er fjallað um bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum. Ég hef ekki orðið vör við annað en að í nefndinni sé mikill einhugur um að afgreiða frumvarpið óbreytt úr þeirri nefnd og vil ég árétta það vegna orða hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar.

Hins vegar hafa gengið núna tveir dómar Hæstaréttar og má segja sem svo að dómarnir hafi staðfest það að löggjafanum sé heimilt að setja skorður við því að heilsuspillandi vörur á borð við tóbak séu í augsýn annarra viðskiptavina en þeirra sem vilja kaupa það. Hæstiréttur segir jafnframt í öðrum dómnum að hann telji gengið of langt með því og farið þá út fyrir mörk 73. og 75. gr. stjórnarskrárinnar, ákvæðanna um tjáningarfrelsi og atvinnufrelsi, með því að þetta bann sé einhlítt og nái líka til sérverslana með tóbak. Það mun vera ein slíkrar tegundar í landinu eftir því sem ég best veit. Mér finnst sjálfsagt að hv. heilbrigðisnefnd taki málið til skoðunar í nefndinni og fari yfir dóminn og hugi að því hvort ástæða sé til að breyta lögunum þannig að sú verslun sé þá undanskilin þessu einhlíta banni.