132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Tóbaksvarnalög – eftirlaunafrumvarp – starfsáætlun þingsins.

[12:17]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér kennir ýmissa grasa í umræðu um störf þingsins, nú síðast hugmyndir um að gera einhvers konar lýtalækningar á makalausu lífeyrisfrumvarpi þeirra hæstv. forsætisráðherra, núverandi og fyrrverandi. Þetta frumvarp var flutt á ábyrgð þeirra og á þeirra vegum. Ég vil ítreka það sem áður hefur komið fram frá mér við umræðuna að ég mun ekki taka þátt í einhverjum málamyndagerningi til að lappa upp á þetta frumvarp. Það á að rífa þessi makalausu lífeyrislög upp með rótum og setja alla þá sem undir lögin heyra inn í almenna lífeyrissjóði þar sem þeir eiga heima. Ég mun beita mér fyrir slíku hvort sem frumvarpið kemur nú á síðustu dögum þingsins inn í þingið eða ekki.

Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til að lýsa vonbrigðum yfir því að þinghaldið skuli nú komið í fullkomið uppnám. Það er búið að henda fyrri starfsáætlun þingsins og án samkomulags og án tilraunar til samráðs við stjórnarandstöðuna er sett niður dagskrá m.a. með umdeildum málum í dag um Ríkisútvarpið. Og á færibandi ríkisstjórnarinnar bíða fjölmörg mál sem eru umdeild, ekki aðeins innan þings heldur í þjóðfélaginu almennt. Ég segi, ef framlengja á þinghaldið í vor á að virða þær reglur sem eru og eiga að vera við lýði. Ég spyr hæstv. forseta: Hvernig stendur á því að hér er ekki venjulegur fyrirspurnatími í dag? Það bíða afgreiðslu og svara fjöldi fyrirspurna frá þingmönnum. Hvernig stendur á því að þessu hefur nú öllu verið vikið til hliðar? Ég hvet til samkomulags og samráðs við stjórnarandstöðuna því að þingið er núna komið í fullkomið uppnám. (Gripið fram í.)