132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Tóbaksvarnalög – eftirlaunafrumvarp – starfsáætlun þingsins.

[12:28]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á því í upphafi ræðu minnar að lýsa yfir vanþóknun á því hvernig hæstv. forseti stýrir þinghaldinu, að fella niður fyrirspurnatíma og setja fundi á laugardögum án þess að hafa nokkuð samráð við stjórnarandstöðuna. Ég er á því að miklu nær hefði verið að fara í vinnu hvernig ætti að haga þinghaldinu áfram. Ég átta mig í rauninni ekki á hvað hæstv. forseta gengur til nema það að hún sé að egna stjórnarandstöðuna, og ræða sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson flutti virðist vera í sömu átt, í stað þess að reyna að ljúka þingstörfum. Eða þá eins og ég mæli með að gert verði hlé á þinghaldi í byrjun næsta mánaðar og síðan verði þráðurinn tekinn upp að nýju í júní. Mér finnst það vel koma til greina.

En það er annað sem ég vildi vekja athygli á. Það er þessi grátbroslega umræða sjálfstæðismanna um atvinnufrelsi út af sérverslun með tóbak. Mér finnst þetta vera ömurlegur málflutningur eða grátbroslegur réttara sagt, sérstaklega í ljósi þess að þessir sömu menn hafa svipt heilu þorpin á landsbyggðinni atvinnuréttindum sínum og þá eru þeir ekki mættir í ræðustól, heldur má jafnvel heyra núverandi hæstv. forsætisráðherra í kjölfar dóms um atvinnufrelsi í sjávarútvegi tala um að það þyrfti að breyta stjórnarskránni, það þyrfti jafnvel að tryggja það að þessi þorp fengju aldrei atvinnuréttinn á ný. Þá var hann mættur í fjölmiðla að ræða um það. Ég er þess vegna á því að menn ættu að hugsa sinn gang og forgangsraða. Hvað eru virkilega þörf mál að taka upp á þingi? Er það sérverslun með tóbak eða eru það þorpin á landsbyggðinni sem hafa verið svipt atvinnuréttindum sínum?