132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Fundarstjórn.

[12:31]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er góðra gjalda vert að efna til fundar á föstudagsmorgun um þinghaldið. Ég tel hins vegar að sá fundur eigi að vera í dag. Við þurfum sameiginlega að taka ákvörðun um þinghaldið. Hér hefur verið talað um málatilbúnað af hálfu stjórnarandstöðunnar sem málþóf. Það er alrangt enda sagt af mönnum sem væntanlega hafa ekki kynnt sér þær ræður sem hér hafa verið fluttar um Ríkisútvarpið, um vatnalögin eða annað sem mikill ágreiningur er um í þjóðfélaginu — og mönnum liggur mikið á hjarta.

Hæstv. forseti. Nú þarf að upplýsa um það hve lengi þessi þingfundur eigi að standa. Ég vek athygli á því að þegar langar ræður hafa verið fluttar, oft langt fram á morgun, eins og gerðist hér fyrir páska, var það í bland vegna þess að stjórnandi þingsins, hæstv. forseti, neitaði að svara öllum spurningum sem fram voru bornar um þinghaldið og hve lengi stæði til að halda þingfundi áfram. Stjórn þingsins verður því að líta í eigin barm og axla sína ábyrgð í því efni.

Ég held að við eigum að komast að samkomulagi um það núna hve lengi þessi þingfundur eigi að standa. Það er búið að tilkynna okkur einhliða að þingfundi verði framhaldið eftir þingflokksfund sem lýkur kl. 6, en hversu lengi? Hversu lengi á þessi þingfundur yfirleitt að standa? Forsenda þess að menn nái saman, nái samkomulagi um þinghaldið, er að menn tali hreint út um þessi efni. Hvað vakir fyrir framkvæmdarvaldinu? Hvað vakir fyrir stjórn þingsins? Það getur ekki verið ásetningur manna að halda til streitu öllum þeim fjölda mála, tugum þingmála, sumum mjög umdeildum, sem umturna ýmissi veigamikilli starfsemi hér á landi. Það getur ekki verið ásetningur stjórnvalda, framkvæmdarvaldsins, stjórnar þingsins, að koma þessum málum öllum í lög fyrir vorið.

Við auglýsum eftir því að ríkisstjórnin geri hreint fyrir sínum dyrum og stjórn þingsins boði til raunverulegs samráðs um lok þingsins í vor.