132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[20:05]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (frh.):

Frú forseti. Ég ræddi í ræðu minni áðan töluvert um þá skoðun sem formaður Sjálfstæðisflokksins gamall, Þorsteinn Pálsson, hefur á því hvernig á að skilja á milli annars vegar þeirra fyrirtækja sem eru í opinberum rekstri og eru rekin af eigin aflafé og hinna sem fjármögnuð eru algerlega eða að mestu leyti af skattfé.

Ég var kominn þar að ég var að skýra sjónarmið mín varðandi það hvernig best eigi að veita slíkum fyrirtækjum aðhald, þannig að ljóst sé að skattpeningur almennings sé ekki misnotaður. Þar skiptir meginmáli að virk upplýsingaskylda sé af hálfu þeirra sem stjórna þessum fyrirtækjum, þannig að almenningur í landinu eða fulltrúar hans eigi glöggan kost á að fylgjast með öllu. Í upplýsingasamfélagi okkar skiptir það öllu máli til að aðhaldið sé í lagi og ljóst sé að vel sé farið með almannafé.

Ég hjó eftir því að einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sagði í ræðu í dag að það væri gert ráð fyrir að almenningur hefði þennan upplýsingarétt með breytingum sem á að gera á frumvarpi sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur lagt fram um opinber hlutafélög. Nú er það svo, frú forseti, að Samfylkingin gekk alveg sérstaklega eftir því fyrr í vetur hvort ekki ætti að leggja fram frumvarp um opinber hlutafélög. Það var sérstaklega gengið eftir því af hálfu hv. þm. Marðar Árnasonar sem innti þann ráðherra sem fer með þau mál, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerði Sverrisdóttur. Þingmaðurinn spurði hvort ekki væri rétt miðað við það mikla háeffunaræði sem ríkir í garði ríkisstjórnarinnar að breyta almennum hlutafélagalögum með þeim hætti að sérstaklega væri gert ráð fyrir að hlutafélög sem væru í opinberri eigu þyrftu líka að sæta þessari upplýsingaskyldu og sömuleiðis ættu stjórnsýslulög einnig að gilda um þau.

Ég minnist þess ákaflega vel að heldur fátt var um svör hjá hæstv. ráðherra. Þó tilkynnti hún síðar að það væri eitt af þeim málum sem á skrá hennar væri fyrir veturinn að leggja fram slíkt frumvarp. Ég minnist þess að ráðherrann sagði þá að hún hefði ekki hugleitt það sérstaklega að skjóta slíkum ákvörðunum um opinber hlutafélög inn í lögin. En ég man líka að hún sagði að ef tilefni gæfist og upp kæmu sterk rök fyrir því þá mundi hún skoða það með tiltölulega opnum huga.

Síðan kom það frumvarp. Það frumvarp var heiftarlega gagnrýnt af okkur. Það frumvarp var ekki fararinnar virði. Í því var nefnilega ekki gert ráð fyrir einu eða neinu sem gerir að verkum að almenningur í landinu, eða fulltrúar hans, ættu með einhverju móti kost á að fá slíkar upplýsingar. Hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem hér kom upp í dag, ég held að það hafi verið Kjartan Ólafsson eða annar álíka vænn yfirlitum, spurði hvort við þingmenn Samfylkingarinnar gerðum okkur ekki grein fyrir að það væri verið að breyta þessu frumvarpi hæstv. viðskiptaráðherra þannig að gengið væri til móts við óskir okkar og kröfur í þessum efnum. Það kom í ljós þegar ég fór að skoða málið, því þetta hafði nú farið fram hjá mér, að sú lítilvæga breyting sem verið er að gera á frumvarpi viðskiptaráðherra felst í að alþingismenn mega fyrir náð guðs og miskunn stjórnvalda skjóta fram fyrir aðalfund skriflegri spurningu. Líkast til var það hv. þm. Pétur H. Blöndal sem gat þessa í dag en ekki hv. þm. Kjartan Ólafsson. En hvorugur er verri fyrir það.

Ég hins vegar gef ákaflega lítið fyrir þessa breytingu. Hún felur það ekki í sér að alþingismaður, sem er óánægður með þau skriflegu svör sem hann fær á aðalfundi opinbers hlutafélags, geti gengið eftir því á fundinum sjálfum. Það sem hann getur gert er í besta falli það að senda aftur inn skriflega fyrirspurn sem þá verður væntanlega svarað á aðalfundi eftir ár. Þetta er nú ekki mikil miskunn af hálfu stjórnvalda. Ég get ekki sagt að í þessu felist mikil gæska og alls ekkert tilefni til að halda því fram að þarna sé verið að innleiða inn í hlutafélagalögin ákvæði sem tryggi upplýsingaskyldu eigenda og stjórnenda félagsins. Síður en svo.

Það frumvarp sem kemur hér við sögu og hæstv. viðskiptaráðherra hefur flutt er að öllu leyti þannig að það er ekki viðunandi og alls ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að um það gildi þau lög og þær reglur sem við teljum að séu algerlega nauðsynlegar til að hægt sé að tryggja að slík félög sem rekin eru fyrir skattpening almennings séu rekin þannig að tryggt sé að ekki sé úr hófi gáleysislega farið með fé.

Það er líka margt í því frumvarpi sem er verulega úr takti við þróun tímans. Reyndar er það svo, frú forseti, og vert að upplýsa þingheim um það, rifja það upp fyrir honum, að Samfylkingin lagði einmitt fram frumvarp eftir að hafa séð frumvarp hæstv. viðskiptaráðherra sem var í ýmsum meginatriðum algerlega frábrugðið þessari hugmynd stjórnarliðsins sem það telur að sé nægilega vel úr garði gerð til að fullnægja þeim kröfum sem við viljum að félag eins og hlutafélag um Ríkisútvarpið yrði að sætta sig við. Ég vil því nota þetta tækifæri til að lýsa því alveg sérstaklega hvað ég varð fyrir miklum vonbrigðum með það frumvarp og hvað mér þótti það vera rýrt að innihaldi. Ég átti satt að segja von á allt öðru því að ég er í hópi þeirra þingmanna sem hafa, ég segi nú kannski ekki pólitískt dálæti á hæstv. viðskiptaráðherra, en ég hef virt hana fyrir þrek og dugnað, ekki síst fyrir það hvernig hún hefur tekið hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og lagt þá á kné sér og flengt eins og lítil börn ef henni hefur þótt svo við horfa. Sannarlega hafa gefist tilefni til þess á ríkisstjórnarheimilinu á hinum síðustu og verstu dögum þess, að hirta litlu angana í Sjálfstæðisflokknum sem gerast nú æ uppvöðslusamari, að vísu undir forustu hins vitra lappa hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem hefur eiginlega leitt herförina á hendur hæstv. viðskipta- og byggðamálaráðherra með þeim árangri að ég hef stundum af mildi hjarta míns fundið til samúðar gagnvart henni.

En eins og ég sagði, frú forseti, ég hef virt þann ágæta ráðherra fyrir þann kjark og hugrekki sem hún hefur til að ráðast á erfið mál. Það sem hún gerir og hefur ástríðu fyrir finnst mér hún oft gera vel. Í þessu tilviki er ekki hægt að halda því fram að mikill hugur hafi fylgt máli hjá ráðherranum. Eins og hún sagði í upphaflegu svari sínu við hv. þm. Mörð Árnason hafði hún ekki hugleitt að leggja fram slíkt frumvarp. Það var ekki fyrr en stjórnarandstaðan stappaði niður fæti sínum og skók að henni hramminn þegar hér kom fram frumvarp á frumvarp ofan um háeffun og hugsanleg einkavæðingaráform um ríkisfyrirtæki, sem hún loksins hengslaðist til að leggja fram eitthvað sem hægt var að kalla drög að almennilegu frumvarpi. En það er ekki hægt að kalla það meira en drög.

Ég minnist þess úr umræðunni sem hér var að strax í 1. gr. þess frumvarps var skafanki sem við í Samfylkingunni töldum að væri nú alls ekki í takt við þá þróun sem hefur verið varðandi hlutafélagavæðingu og breytt rekstrarform á ríkisfyrirtækjum.

Í 1. gr. þessa frumvarps iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir, með leyfi forseta:

„Opinbert hlutafélag merkir í lögum þessum félag sem hið opinbera á að öllu leyti.“

Þetta er að okkar dómi síður en svo nægilega sveigjanlegt og alls ekki að því er varðar t.d. sum af þeim fyrirtækjum sem hér liggja undir í umræðu þó að ekki sé það á dagskrá þessa fundar. Ég er hér, virðulegi forseti, að vísa til t.d. frumvarps um háeffun Matvælarannsóknastofnunar sem hæstv. forsætisráðherra lagði fram með þeim orðum að það ætti að selja hlut af hlutafé þess.

Við í Samfylkingunni lögðum hins vegar fram frumvarp sem segir það alveg klárt og kvitt að samkvæmt okkar skilgreiningu er opinbert hlutafélag félag sem íslenska ríkið eða sveitarfélag hefur sömu tengsl við og ríkið hefur við dótturfélög. Þetta þýðir á mannamáli að hlutafélög sem ríki eða sveitarfélög fara með meiri hluta atkvæða í eru seld undir slík lög en það er ekki þannig að sveitarfélögin eða ríkið þurfi að eiga þau að öllu leyti, heldur er nægilegt að þau fari með meiri hluta atkvæða í slíkum félögum. Auðvitað er mikill munur á nálgun okkar annars vegar og hins vegar stjórnarliðsins, ekki bara gagnvart RÚV hf. heldur gagnvart opinberum hlutafélögum almennt. Við höfum líka talið að í samþykktum um slík félög megi jafnframt áskilja að það þurfi, jafnt í sveitarstjórnum sem og á Alþingi, að áskilja meiri hluta atkvæða í viðkomandi stjórn eða þá í tilviki sumra félaga á Alþingi, til þess að það væri hægt að samþykkja sölu. Við höfum farið að þessu leyti eftir því fordæmi sem hefur komið fram í frábærri stjórnun Reykjavíkurlistans á sínum fyrirtækjum. Reykjavíkurlistinn hefur t.d. sett slíkt ákvæði inn í samþykktir sínar um Félagsbústaði.

Það er athyglisvert að hinn ágæti ungi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Birgir Ármannsson, virðist ekki fremur en ýmsir af hinum ungu tyrkjum Sjálfstæðisflokksins skilja muninn á opinberu fyrirtæki sem er rekið af sjálfsaflafé og hins vegar fyrirtæki sem er rekið að öllu leyti fyrir peninga almennings. (MÁ: Hann hefur þá ekki lesið Þorstein Pálsson.) Hv. þm. Birgir Ármannsson hefur örugglega ekki lesið Þorstein Pálsson, hvorki leiðara hans né hinar ágætu greinar hans þegar hann var á sama aldri og þingmaðurinn er núna og var einmitt að vígjast til þeirrar frjálslyndu íhaldsmennsku sem einkennir glæstan feril þess ágæta stjórnmálamanns. En Birgir Ármannsson, minnist ég, kom einmitt hér upp í andsvari til þess að spyrja formann Samfylkingarinnar, (Gripið fram í.) já, formann Samfylkingarinnar hvernig í ósköpunum stæði á því að hún og sá flokkur sem hún tilheyrir andæfði hér hlutafélagsvæðingu Ríkisútvarpsins en hefði sjálf staðið fyrir því að háeffa Félagsbústaðina í Reykjavíkurborg.

Frú forseti. Á þessum tveimur fyrirtækjum er sá augljósi munur að Félagsbústaðir er fyrirtæki, var borgarstofnun, sem malar eigendum sínum gull. Má ég rifja það upp, frú forseti, fyrir þessum hv. þingmanni af því að hann virðist ekki hafa fylgst með því hversu vel … (Gripið fram í.) Ég tel að hv. þingmaður ætti nú að spyrja formann þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem þarna er einmitt staddur, um það. Um það er nokkur ágreiningur millum hans og ýmissa annarra sem standa að borgarstjórn Reykjavíkur. Það vill nú svo til að það er einmitt ágætur borgarfulltrúi sem hann er að tala við núna. En munurinn á Félagsbústöðum annars vegar og Ríkisútvarpinu hins vegar er þessi og hann er alveg kristaltær: Félagsbústaðir hafa að uppistöðu til — hér er ég að vísa í skilgreiningu fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins — að uppistöðu til verið reknir fyrir sjálfsaflafé. Reyndar er það svo að vegna þenslu á húsnæðismarkaði fyrst og fremst hefur það fyrirtæki skilað í hagnað, mjög til armæðu ýmissa sem hafa gagnrýnt það ágæta fyrirtæki, fjórum milljörðum á síðasta ári.

Ríkisútvarpið er hins vegar rekið fyrir fé skattborgaranna. Það þýðir að munurinn á þessum tveimur fyrirtækjum er svo augljós að ég ætti ekki að þurfa að draga hann upp fyrir jafnreyndum og greindum þingmanni eins og hv. þm. Birgi Ármannssyni. En þess vegna samrýmist hvort tveggja stefnu Samfylkingarinnar að hlutafélagavæða fyrirtæki eins og Félagsbústaði annars vegar en hins vegar andæfa algjörlega hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Ástæðan er sú að uppruni rekstrarfjár kemur úr alls eðlisóskyldum áttum, það er munurinn. Þetta er nauðsynlegt að skýra hérna vegna þess að hv. þm. Birgir Ármannsson á það ekki skilið að ég skilji hann eftir í þessu kviksyndi skilningsleysis á eðli fjármagns í opinberri eigu. En það er því miður einn af fáum ágöllum í máli hv. þingmanns sem ég hins vegar ítrekað verð var við þegar hann kýs að tjá sig um efnahagsmál. Vil ég beina þeim vinsamlegu tilmælum til hv. þingmanns að hann alla vega láti vera að reifa mikið fjárreiður opinberra fyrirtækja þangað til hann hefði gengið á skóla hjá sínum gamla mentor, fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins og lært grundvallarhugtök. Það er alveg með ólíkindum að hver ungi þingmaðurinn á fætur öðrum, sem þó hefur útskrifast með láði úr skóla frjálshyggjunnar innan stuttbuxnadeildar Sjálfstæðisflokksins, skuli koma hér og vaða með þessum hætti elginn í villu og svíma.

Þetta atriði er eitt af þeim sem er stóri munurinn á nálgun okkar í Samfylkingunni gagnvart opinberum hlutafélögum annars vegar og hins vegar nálgun Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn eða Sjálfstæðisflokkur dagsins í dag skilur ekki þennan grundvallarmun sem ég hef hér verið að lýsa og þó er nú rétt að upplýsa t.d. fyrrverandi framkvæmdastjóra Verslunarráðs um að samkvæmt viðhorfum og vel rökstuddum skoðunum formanns Sjálfstæðisflokksins sem var, þá er eina leiðin til þess að koma í veg fyrir misnotkun á fé skattborgaranna í opinberum rekstri fyrirtækja sú að beita þeim kvöðum sem upplýsingalög setja á stjórnendur slíkra fyrirtækja. Sá ágæti maður nefndi einnig stjórnsýslulögin þó að hægt sé að færa sterkari rök til að andmæla því viðhorfi. Mér finnst að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu að fara að reyna að gera sér grein fyrir þessu. Út af fyrir sig held ég líka að það væri hollt fyrir formann þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að setja sig aðeins inn í hugarheim ritstjóra Fréttablaðsins og hins gamla formanns Sjálfstæðisflokksins, því að ég verð nú að viðurkenna það með fullri virðingu fyrir hinum góða baráttufélaga hv. þm. Ögmundi Jónassyni að mér finnst stundum sem nokkuð skorti á að hann skilji þau lögmál sem hreyfingar auðmagnsins leika eftir. Hv. þingmaður hengir sig stundum í formið alveg eins og þingmenn Sjálfstæðisflokksins en nálgast það frá öðru sjónarhorni.

Ef eitthvað er með viðskeytinu hf. fær hv. þingmaður grænar bólur (ÖJ: Nei.) og honum rennur vatn, tiltölulega kalt, milli skinns og hörunds. Nú grípur hv. þingmaður fram í og segir að þetta sé rangt hjá mér og þá bið ég hann afsökunar. Þá sé ég enn og aftur í þessu máli eins og í svo mörgum öðrum að þótt ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson nálgumst þau hvor úr sinni áttinni þá höfum við væntanlega sama (Gripið fram í.) viðhorf á því, sömu skoðun á því hvaða hlutafélög, hvaða ríkisfyrirtæki væri hugsanlega hægt að setja undir þetta form. En jafnvel þó að þetta hafi verið misskilningur hjá mér hefði hann samt sem áður gott af því að kynna sér viðhorf Þorsteins Pálssonar vegna þess að þar sér hann kristallast í sinni tærustu mynd viðhorf frjálslyndra íhaldsmanna, en þeir eru að verða svo fáir vegna þess að þeir sem töldu sig vera fulltrúa frjálslyndisins hafa teygt sig svo langt yfir til hægri að þeir eru í sjálfu sér orðnir fulltrúar öfganna.

Ég vil nú ekki hætta hinni þinglegu vináttu minni og fyrrverandi framkvæmdastjóra Verslunarráðsins með því að telja hann til þess hóps en þó verð ég að segja að þau rök sem ég hef áður flutt fyrir máli mínu hníga mjög að því að hann sé því miður genginn í þau björg. Hins vegar hef ég reynt þann ágæta þingmann að því að hann kann að hugsa, meira að segja standandi, og það er nú ekki öllum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins gefið — meira að segja ekki öllum ráðherrum en ég ætla nú ekki að nefna nein nöfn í því sambandi — að hann hefur sýnt að hann getur nálgast málin á hlutlægan og fordómalausan hátt þannig að lengi er von á einum, hv. þingmaður. Þetta var aðeins ferðin sem ég vildi nota til þess að hvetja hv. oddvita þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til þess að upplýsa sjálfan sig svolítið um frjálslynd viðhorf á hinum væng stjórnmálanna því að það er alltaf gott þegar andstæð sjónarmið kallast á, þá er á stundum mjög gott að mæla sín eigin sjónarmið við vel rökstudd viðhorf hófstilltra einstaklinga sem tilheyra öðrum mönnum. Menn eiga að bera virðingu fyrir andstæðingum sínum þó að þeir séu ekki í sama flokki og sér í lagi mönnum sem hafa sýnt það á ferli sínum að það á að taka mark á þeim. Því miður held ég og hef óljósan, lævísan grun um að t.d. ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson séum meira sammála um að það beri að taka mark á þeim orðum Þorsteins Pálssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins sem var, en t.d. eins af þeim ágætu þingmönnum úr hans kjördæmi sem gengur í fótspor hans, situr hér í salnum í kvöld, hv. þm. Kjartans Ólafssonar, sem hefur satt að segja í umræðum í þessu máli ekki náð jafnlangt í skilningi á því hvar ber að greina á milli varðandi rekstur opinberra fyrirtækja eins og annar ágætur þingmaður sem var fyrir það kjördæmi, Suðurlandskjördæmi, Þorsteinn Pálsson.

Ég var í ræðu minni hér, frú … (Gripið fram í.) Nú heyrði ég ekki frammíkall hv. þingmanns þannig að ég get ekki svarað til um þá hugsanlegu spurningu sem í því fólst. En þetta litla frávik mitt, sem laut að því að reyna að upplýsa hv. formann þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hófst af því að ég var að skýra hér hina mismunandi nálgun gagnvart opinberum hlutafélögum Sjálfstæðisflokksins annars vegar og Samfylkingarinnar hins vegar. Það kann að vera að þar sé Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin líka á svipuðu róli eins og í svo mörgum öðrum grundvallarmálum, þó ekki öllum.

En það sem skorti algjörlega í nálgun Sjálfstæðisflokksins í þessu frumvarpi sem átti að réttlæta að hægt væri að gera hlutafélag úr Ríkisútvarpinu er að sjálfsögðu ákvæðið um upplýsingaskylduna og um sömu skyldur og er að finna í stjórnsýslulögunum, því að það er einmitt ágætt að það skuli vera formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem skapar þau hughrif hjá mér að mér finnst að það sé nauðsynlegt að undirstrika það gagnvart þeim þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem hér eru í dag að fyrirtæki í opinberri eigu, hvort sem þau eru hlutafélög eða ríkisstofnanir, eiga að lúta allt öðrum lögmálum en fyrirtæki sem eru á markaði. Fólkið sem vinnur hjá opinberum fyrirtækjum er að vinna fyrir okkur, fólkið er að vinna fyrir fólkið. Oft og tíðum er það þannig að það starfar í umhverfi sem er tiltölulega öðruvísi og tryggara en á almennum markaði. Það hefur í sumum tilvikum og í flestum tilvikum traustari lífeyrisgrunn.

Það hefur líka traustari rétt gagnvart duttlungum yfirmanna og þannig á það að vera hjá fólki sem vinnur fyrir fólkið, að það geldur fyrir þetta. Allt sýnir að það fær fyrir vinnuafl sitt lægra verð en gerist á almennum vinnumarkaði. Menn eru hins vegar reiðubúnir til að sæta því vegna þess að menn búa við tryggara umhverfi. Eitt af því er nákvæmlega sá réttur sem er að finna t.d. í lögum um opinbera starfsmenn og í stjórnsýslulögum sem gerir það að verkum að atvik geti ekki orðið eins og við höfum séð t.d. á einkareknu fjölmiðlunum þar sem duttlungar einstakra yfirmanna verða til þess að jafnvel öðrum lægra settum yfirmanni er sparkað af engri sýnilegri ástæðu.

Við sem lítum svo á að við eigum að verja rétt þess fólks sem hefur kosið okkur, erum þeirrar skoðunar og helst er ég þeirrar skoðunar að það ætti ekki að vera hægt að reka fólk út af duttlungum einhverra manna. Ég á kannski erfiðara um vik með að setja slíkar reglur eða stuðla að því á almennum markaði, en hins vegar get ég það gagnvart fyrirtækjum sem eru rekin fyrir það fjármagn sem mér og öðrum þingmönnum á Alþingi Íslendinga er treyst til að fara með.

Fólk sem vinnur fyrir fyrirtæki sem eru byggð upp fyrir fjármuni sem almenningur á, á að hafa þann rétt að ekki sé hægt að vísa því úr starfi án þess að gefnar séu fullnægjandi ástæður og án þess að það hafi andmælarétt og geti þar af leiðandi leitað atbeina stéttarfélags síns. Þetta er eitt af því sem er varið í lögum um opinbera starfsmenn og í stjórnsýslulögum. Það er alveg ljóst í mínum huga að ég tel ekki verjanlegt að taka ríkisfyrirtæki, gera það að hlutafélagi og beinlínis með það að markmiði, a.m.k. sem hluta af markmiðssetningunni, að með því eigi að vera auðveldara að reka fólk, lækka laun þess eða skerða kjör þess að einhverju marki. Það er ekki verjanlegt gagnvart fólki sem vinnur fyrir fyrirtækið sem það hefur sjálft byggt upp með eigin fjárfestingum fyrir atbeina ýmissa farvega ríkisins og hins opinbera eins og skattkerfisins.

Þetta vildi ég gera algerlega skýrt. Í því frumvarpi sem þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fram, með hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í broddi fylkingar, var þetta í gadda slegið. Það var tvennt sem skipti höfuðmáli fyrir utan þau ákvæði sem ég hef fyrr nefnt um það svið sem slík lög eiga að spanna. Það eru ákvæðin um upplýsingar og ákvæði sem eru sambærileg þeim sem er að finna í stjórnsýslulögunum.

Upplýsingaskyldan er stóri munurinn á þessum frumvörpum, aðhaldið sem það færir okkur. Aðhaldið skiptir svo miklu máli, eins og Sjálfstæðisflokkurinn taldi einu sinni áður en hann gekk í björgin.

Í því frumvarpi sem við höfum lagt fram er gert ráð fyrir að það sé einungis ein undantekning að því er varðar upplýsingaskylduna. Það varðar samkeppnisrekstur. Það getur auðvitað komið upp sú staða að úfar rísi eða ágreiningur um hvort tiltekið atriði sem kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn eða á Alþingi mundi óska upplýsinga um. Hver á að skera úr um það? Í nálgun okkar gagnvart þessu vandamáli höfum við sagt að það sé Samkeppnisstofnun sem eigi að skera úr um það.

Ég lít svo á að þessi nálgun geri það að verkum að hægt er í sumum tilvikum að stofna opinbert hlutafélag sem er ekki beinlínis ætlunin að selja og þar sem lipurðin og sveigjanleikinn er til staðar. En þar sem réttur fólksins til að krefjast upplýsinga og knýja þar með fulltrúa sína bæði á kjörnum samkundum, og líka á fjölmiðlum, því fjölmiðlar eru sannarlega með vissum hætti fulltrúar fólksins því þeir eiga að alltaf að vera í uppreisn og andstöðu við ríkjandi valdhafa, sama hverjir þeir eru. Þetta tvennt skiptir öllu máli.

Ástæðan fyrir því að við höfum lagt svo mikla áherslu á þetta er að við óttumst að ef þessi upplýsingakvöð er ekki á opinberum stofnunum sé hugsanlegt að sú staða komi upp, eins og er að koma upp með háeffun RÚV, að slíkt rekstrarform sameini það versta úr báðum heimum, þ.e. bæði úr opinbera kerfinu og líka einkarekstrinum.

Við vitum öll sem höfum komið nálægt opinberum rekstri sem alþingismenn að það koma alltaf upp ákveðin dæmi og það sjást alltaf ákveðin merki um ábyrgðarleysi bæði í meðferð valds en líka í meðferð fjármuna hjá opinberum fyrirtækjum þar sem virkt aðhald öflugra hluthafa skortir. Hið jákvæða sem er við lýði í hlutafélagaforminu á almenna markaðnum er að þar eru margir hluthafar sem eiga sinn hlut sem vilja verja hann og ávaxta og það eru þeir sem veita stjórnunum sem kjörnar eru til forustu í slíkum félögum virkt aðhald. Peningarnir verja sig.

Í félögum sem eiga að vera hlutafélög með þeim hætti sem Ríkisútvarpið er sett upp með má segja að þar sameinist hættan á óábyrgri meðferð fjármuna, óábyrgri meðferð valds, vegna skort á því aðhaldi sem felst í upplýsingakvöðinni og líka vegna þess að þar skortir virkt aðhald hluthafa og hins vegar er líka skortur á gagnsæi og takmörkun á upplýsingum.

Í tilviki Ríkisútvarpsins hf. yrðu upplýsingarnar ekki aðgengilegar vegna þess að ríkisstjórnarliðið þverskallast við að ákvæði upplýsingalaga nái til þess. Ég hirði ekki hætis hót um þær léttvægu breytingar á frumvarpi viðskiptaráðherra um opinber hlutafélög sem heimila alþingismönnum að senda skriflegar fyrirspurnir á aðalfund.

Það má kannski orða með þeim hætti að þessi fyrirtæki eru sett á sérstakan bás þar sem þau lúta hvorki því aðhaldi sem markaðurinn veitir né því aðhaldi sem opinberir aðilar eiga að veita slíkum fyrirtækjum, fólk eins og við sem sitjum hér sem kjörnir fulltrúar. Þetta leiðir auðvitað til þess að menn fyllast tortryggni þegar þeir sjá þessa sókn í að háeffa opinber fyrirtæki sem felur það eitt í sér að þau eru tekin, ef svo má að orði kveða, úr réttarumhverfi hins opinbera og flutt yfir í umhverfi einkaréttarins. Við höfum auðvitað séð ákveðin dæmi um þetta.

Prinsippið í þessu máli á að vera að meðan fyrirtæki eru í opinberri eigu eða hafa aðgang að mörkuðum tekjustofnum sem koma frá almenningi, þá eiga fulltrúar fólksins sem þetta fé er sprottið frá, sérstaklega þingmenn og sveitarstjórnarmenn, rétt á tilteknum upplýsingum til að gegna því aðhaldshlutverki sem þeim ber og aðeins þannig fá þeir gætt hagsmuna hinna raunverulegu hluthafa, almennings í landinu. Það skiptir engu máli þó að því sé haldið fram að handhafi hlutabréfsins, einn einstakur ráðherra, geti veitt slíkt aðhald. Það er auðvitað firra. Það er almenningur í landinu og fjölmiðlarnir sem hann hefur með einum eða öðrum hætti yfir að ráða sem einir geta gert það, virðulegi forseti.

Ég hef sagt í ræðu minni, og fer ég nú bráðum að koma að frumvarpinu sjálfu, að margir lausir endar séu óhnýttir í frumvarpinu. Stundum minnir það mig á illa prjónaða gamla peysu sem hefur með einhverjum hætti lent í tætara. Hún er öll á tvist og bast, hangir saman en endarnir lafa alls staðar út úr. Það sést vel þegar við skoðum frumvarpið og berum það saman við þær skyldur sem fyrirtæki eins og Ríkisútvarpið hf. á að uppfylla samkvæmt hlutafélagalögum. Eitt af því sem hlutafélagalögin segja alveg klárt og kvitt er að slíkt fyrirtæki á að hafa ákveðnar samþykktir. Í þeim samþykktum á að koma fram tilgangur félagsins og með hvaða hætti það skilgreinir starfssvið sitt. Það er vísir að þessu í því frumvarpi sem hér liggur undir í umræðunni.

Það kemur, ef ég man rétt, virðulegi forseti, fram í þremur greinum þessa frumvarps að vísað er til samþykkta. Það er ekki gert með neinum almennum hætti eins og stundum er að finna. Það segir í 8. gr. um umboð menntamálaráðherra, með leyfi forseta:

„Um réttindi og skyldur Ríkisútvarpsins hf. skal mælt nánar fyrir í samþykktum félagsins.“

Frú forseti. Auðvitað er það svo að það eru drög að lýsingu á skyldum félagsins, þó varla réttindum þess, í 3. gr. frumvarpsins. En maður skyldi nú ætla að ekki væri ofrausn af þeim sem leggja fram frumvarp eins og þetta sem varðar framtíð, uppbyggingu og samkeppnishæfni merkustu menningarstofnunar íslenska samfélagsins þó hugsanlega megi nefna jafnoka þeirrar stofnunar í formi ýmissa gróinna menntastofnana eins og háskólans og gamalla skóla hér á landi.

En ég hugsa að í 76 ára sögu Ríkisútvarpsins hafi engin stofnun komið fram sem hefur verið jafnoki hennar að virðingu og ástúð þjóðarinnar. Sérstaklega á árunum fyrri. Segja má að Ríkisútvarpið hafi verið hið ósýnilega net sem tengdi landsmenn saman og það má segja að sama hafi verið hvar menn bjuggu. Einn þráður, ekki sýnilegur mannlegu auga, batt þá alla saman. Við höfum margar frásagnir af því hvernig það var nánast helgistund í afskekktum sveitum á þeim tíma sem útvarpið var opið. Fyrstu ár þess, þegar það raunar var rekið á hlutafélagaformi af því ríkið hafði ekki burði til að ráðast í uppbyggingu þess á þeim tíma, var það einungis opið hluta úr degi.

En þetta var vefurinn sem óf sig um allt land og miðlaði þróun málsins, varðveitti málið og miðlaði sögulegri þekkingu og má með vissum hætti segja að hafi ávaxtað hið menningarlega pund og skilað ærinni rentu.

Maður skyldi ætla að slík stofnun þyrfti að hafa skýrt markaða stefnu. En hvar er sú stefna? Jú. Það segir um skyldur Ríkisútvarpsins að það eigi að mæla nánar fyrir um þær í samþykktum félagsins. Ég hef ekki séð þær samþykktir. Í upphafi umræðunnar um þetta mál var gengið harkalega eftir því af hálfu þingmanna stjórnarandstöðunnar að þessar samþykktir lægju fyrir. Það er ekki nóg að gera eins og nú er gert á allra síðustu dögum umræðunnar að þeim er fleygt inn í menntamálanefnd en við sem sitjum utan hennar og störfum í öðrum nefndum þingsins en höfum ærinn áhuga á þessu málefni og berum hag Ríkisútvarpsins fyrir brjósti, höfum ekki séð þær. Auðvitað eru samþykktir eitthvað sem ætti að liggja fyrir til umræðu lengi.

Það er eitt af því sem varðar það hvort menn komist að einhvers konar ásætttanlegri niðurstöðu um þá mörkuðu stefnu inn í framtíðina sem Ríkisútvarpið á að fylgja. Í þremur greinum frumvarpsins er minnst á samþykktir en þær hafa ekki fylgt þessu frumvarpi. Þær gerðu það í fyrra á meðan þetta var sameignarfélag, áður en Framsókn var plötuð upp úr skónum og plötuð til þess að fallast á hlutafélagaformið fylgdu samþykktirnar. Þær gufuðu allt í einu upp. Það er hugsanlegt að þær séu komnar fram aftur í einhvers konar formi.

Eitt af þeim atriðum sem átti sérstaklega að mæla fyrir um og er í 11. gr. varðar starfssvið útvarpsstjóra. Maður skyldi ætla þegar um er að ræða stofnun af þeirri gerð sem Ríkisútvarp allra landsmanna er þar sem á að setja upp samkvæmt lögunum alvaldan útvarpsstjóra, þá lægi fyrir hvert starfssvið hans ætti að vera. Það er gróflega útfært í frumvarpinu en þó með þeim hætti að það er erfitt að sjá nákvæmlega hvert hans hlutverk er fyrir utan að sagt er að hann eigi að vera sjálfstæður og sterkur og hafa frumkvæði. Það átti að mæla nánar fyrir um þetta eða skilgreina starfssviðið í samþykktunum. Ég hef ekki séð þessar samþykktir. Þingmenn hafa almennt ekki séð þær þó að hugsanlega hafi einhverjir í meiri hlutanum séð þær upp á síðkastið, ég hef ekki séð þær. Það hefur verið spurt eftir þessum samþykktum.

Það er rétt að rifja upp hvað hæstv. menntamálaráðherra sagði þegar tveir hv. þingmenn Samfylkingarinnar inntu hana eftir þessum samþykktum. Þá sagði hæstv. ráðherra: Um þær gildir bara það sem segir í hlutafélagalögunum. Við þingmenn Samfylkingarinnar fórum í þessi hlutafélagalög og þar var ekkert hægt að finna sem sagði t.d. fyrir um hvernig réttindi Ríkisútvarpsins ættu að vera eða skyldur, vegna þess að þar er um sértæk hugtök og skilgreiningar að ræða sem gilda ekki almennt um hlutafélög.

Ég velti því fyrir mér hvernig á því stóð að hæstv. menntamálaráðherra hefur allt fram á þennan dag farið með þessar samþykktir eins og mannsmorð. Enginn hefur fengið að sjá þær. Sömuleiðis liggur það alveg fyrir að skilgreiningin á því hvað er almannaútvarp í ríkiseign er mjög óskýr í þessu frumvarpi. Þegar hæstv. ráðherra var innt eftir því af Merði Árnasyni hver þessi skilgreining væri og hvar hún ætti að birtast sagði hæstv. ráðherra að þetta mundi koma fram í þjónustusamningi sem gerður yrði við Ríkisútvarpið af hálfu ríkisins. Hver á að gera þann samning? Það er menntamálaráðherra. Það er sem sagt menntamálaráðherrann sem á í reynd að útfæra — þá væntanlega án frekari umræðu hér á hinu háa Alþingi — þá skilgreiningu sem við eigum að vinna eftir og varðar almannaútvarp í ríkiseign. Þetta er lykilhugtak, þetta er rauður þráður í þeim samþykktum sem t.d. Evrópuráðið hefur gert fyrir sitt leyti um það hvernig á að reka almannaútvarp. Við höfum ekkert séð af þessu. Hæstv. ráðherra hefur ekki talið þörf á því að leggja fyrir þingið drög að samþykktum eða drög að þjónustusamningi þar sem lykilhugtök væru skilgreind og þar sem skýrt væri út hvaða sýn það er sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin vilja hafa á framtíð Ríkisútvarpsins.

Frú forseti. Við höfum rætt um það og deilt um það í þessari umræðu hvort þetta rekstrarform sem verið er að klæða Ríkisútvarpið í sé í rauninni þess eðlis að hægt sé að halda því fram með traustum rökum að í því felist sama sjálfstæði og hlutafélög á almennum markaði búa við. Ég tel það af og frá. En það vill svo til að hv. þingmenn þurfa ekki að taka mig trúanlegan um það. Í ræðum sem sjálfstæðisþingmenn hafa flutt hér, eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur hann komist að nákvæmlega sömu niðurstöðu. Ég hóf mína ræðu á því að vísa í orð hv. þingmanns og sagði að hann hefði eftir skoðun á frumvarpinu komist að því að það uppfyllti einfaldlega ekki þau skilyrði sem eru sett sem forsenda fyrir því að fyrirtæki geti starfað sem sjálfstætt hlutafélag.

Hv. þm. Pétur Blöndal gerði sérstaklega að umræðuefni stjórn Ríkisútvarpsins. Það er nú einhver kostulegasta smíð sem ég hef lengi séð og ég skil satt að segja ekki á hvaða slóðum sá hugarheimur er sem tókst að grafa úr fylgsnum sínum þetta afskræmi sem liggur fyrir í 9. gr. frumvarpsins. Þar er því haldið fram fullum fetum að kjósa eigi stjórn félagsins á aðalfundi á tilteknum tíma á hverju ári. Í frumvarpinu segir „kjósa“. Hver á að kjósa? Jú, það er einn tiltekinn ráðherra, hæstv. menntamálaráðherra, en er hann sem handhafi hins eina hlutabréfs frjáls að því að kjósa hvern sem er? Nei. Viku áður en aðalfundurinn fer fram skal Alþingi kjósa fimm menn og hluthafinn er lögum samkvæmt bundinn þeirri kvöð að hann verður að skipa þessa fimmmenninga í stjórn Ríkisútvarpsins. Þetta er það sem hæstv. ráðherra kallar faglega stjórn.

Hver er munurinn á þessu og núverandi pólitískri stjórnun á Ríkisútvarpinu sem felst í útvarpsráði? Hann er allnokkur. Þessi háttur er miklu verri en sá sem við höfum í dag. Í dag er það þó þannig að útvarpsráð er kosið til nokkurra ára þannig að þeir sem taka sæti í því hafa vissu fyrir því að sitja ákveðna tímalengd og ef þeir hafa stefnu sem þeir vilja fylgja af sannfæringu hjarta síns en sem kann að vera í andstöðu við stefnu ríkisstjórnarinnar, ef svo verkast vill, þá hafa þeir tíma til þess að koma þeirri stefnu sinni í framkvæmd. Þeir þurfa ekki að lúta því agavaldi sem fyrirvaralaus svipting setu í stjórninni hefur í för með sér.

Ég nota viljandi orðin „fyrirvaralaus svipting“ vegna þess að ákvæðið sem ber að lesa í 1. mgr. 9. gr. segir að stjórnarmenn skuli kosnir árlega. Það þýðir að það eru hæg heimatökin hjá heimaríkum ráðherra að skipta út manni sem ekki stendur sína plikt og lýtur því valdi sem flokkur hæstv. ráðherra hverju sinni vill. Þetta þýðir í reynd að ráðherra hverju sinni hefur meiri möguleika á því að skipta út óþægum stjórnarmönnum en hann hefur í dag. Af því er ekki hægt að álykta annað en að hin pólitísku tök ráðherrans verði meiri eftir að búið er að samþykkja þetta frumvarp en þau eru í dag. Þetta hefur í för með sér að menn geta ekki með nokkrum hætti kallað þetta form form opinbers hlutafélags.

Hv. þm. Pétur Blöndal kemst svo að orði, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra segir í 1. gr. að Ríkisútvarpið sé sjálfstætt hlutafélag.“

Hvernig getur það verið sjálfstætt þegar það er í eigu ríkisins sem er eini eigandinn og m.a.s. stjórnin er kosin með furðulegum hætti? Til þess að uppfylla skyldu hlutafjárlaga skal kjósa stjórn á aðalfundi, en sú stjórn skal vera kosin af Alþingi áður. Og hv. þm. Pétur Blöndal og leiðtogi sjálfstæðismanna í efnahagsmálum slær á lær sér í óeiginlegri merkingu af forundran og hann er svo hissa að hann segir, með leyfi forseta:

„Hvers lags kosning er það? Þetta er ekki sjálfstætt hlutafélag fyrir tíu aura.“

Þetta eru orð hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar. Þetta eru orð þess manns sem líklegt er að kynni ef Sjálfstæðisflokkurinn ber gæfu og þjóðin ógæfu til þess að hann verði áfram í ríkisstjórn, sem guð forði okkur frá, hugsanlega að verða næsti viðskiptaráðherra. Þetta er talsmaður Sjálfstæðisflokksins í þessum sölum í efnahags- og viðskiptamálum. Hann er sá maður sem hefur einna mesta reynslu í þingliði flokksins af viðskiptum. Hver er dómur hans um þá fullyrðingu menntamálaráðherra að hér sé um sjálfstætt hlutafélag að ræðað? Hann segist ekki gefa tíu aura fyrir það. Hann segir með öðrum orðum, frú forseti, að málflutningur hæstv. ráðherra sé tóm della og ekki ætla ég að rengja annan eins mann og hv. þm. Pétur H. Blöndal í því efni.

Hins vegar er nauðsynlegt að fjalla svolítið meira um kosninguna. Hvert er meginhlutverk hins pólitískt kjörna meiri hluta í stjórn Ríkisútvarpsins hf.? Jú, það er að ráða útvarpsstjóra. Það þýðir í reynd að útvarpsstjóri er ráðinn pólitískri ráðningu samkvæmt þessu. Það þýðir líka vegna þess hversu auðvelt hæstv. ráðherra á samkvæmt lögunum með að skipta út stjórnarmönnum að hann hefur lítið skjól af hinni kjörnu stjórn félagsins hverju sinni. Við slíkar aðstæður, frú forseti, er alveg ljóst að gefa verður þeim sem gegnir stöðu útvarpsstjóra hverju sinni skjól af löngum ráðningartíma. En hver er ráðningartími útvarpsstjóra? Það er ekkert talað um hann. Það er hugsanlegt að það verði að finna í samþykktunum en það er hvergi ákvæði um það í lögunum. Ég tel að það verði að negla það í lögin að útvarpsstjóri hverju sinni hafi tiltölulega rúman og langan ráðningartíma ella gæti veiklyndur útvarpsstjóri sem er undir járnhæl pólitísks meiri hluta stjórnar í slíku félagi farið að laga sig að því sem hann telur vera vilja stjórnarinnar hverju sinni og þar með í reynd orðið framlenging af hinu pólitíska valdi.

Þetta, frú forseti, er hætta sem ekki er hægt að horfa fram hjá. Þetta er hætta sem Evrópuráðið sem hefur fjallað töluvert mikið um fjölmiðlamál hefur einmitt látið til sín taka.

Það vill svo til, frú forseti, að árið 2000 voru í Slóveníu gríðarleg átök um fjölmiðlalög sem voru ekki óskyld þeim deilum sem urðu hér heima á Íslandi. Þau mál gengur reyndar skrefi lengra en hér á Íslandi. Þau leiddu til þess að lokum að þjóðaratkvæðagreiðsla var um það mál þar sem heiftarlega var tekist á um m.a. pólitíska ráðningu útvarpsstjóra. Því máli lyktaði með algjörri kyrrstöðu og miklum erfiðleikum vegna þess að ríkisstjórnin vann þjóðaratkvæðagreiðsluna en mjög naumlega eða með 0,2%.

Sárin sem urðu vegna þess munu því seint gróa. En í því máli var það svo að stjórnarandstaðan óskaði eftir að fjölmiðlaskrifstofa Evrópuráðsins gæfi álit sitt á því hvort ráðningartími útvarpsstjóra, sem þá var fjögur ár samkvæmt lögum slóvensku ríkisstjórnarinnar, samrýmdist skilningi Evrópuráðsins á þeim tilmælum sem send hefðu verið frá því.

Ríkisstjórnin vildi ekki afla umsagnar Evrópuráðsins. Að því leyti til var hún alveg eins og ríkisstjórn Íslands og hæstv. menntamálaráðherra að hún lagði ekki í að láta skoða hvort þetta frumvarp sem við erum að ræða uppfylli skuldbindingar sem má finna í tilmælum Evrópuráðsins og við teljum að okkur beri skylda til að fara að.

Þá var það þannig að tveir þingmenn á slóvenska þinginu sem áttu sæti í Evrópuráðinu tóku það upp hjá sjálfum sér að óska umsagnar fjölmiðlaskrifstofu Evrópuráðsins. Skrifstofan varð við því. Eitt af því sem skrifstofan benti sérstaklega á var að stjórn hins nýja ríkisútvarps var að meiri hluta til skipuð fulltrúum ríkisstjórnarinnar. Það var þessi stjórn sem réð útvarpsstjórann og fjölmiðlaskrifstofa Evrópuráðsins sagði að vegna þess að útvarpsstjóri væri skipaður af pólitískum meiri hluta yrði hann að búa við ráðningartíma sem væri það langur að hann þyrfti ekki að óttast skömmu eftir að hann tæki við embætti að hann mundi hugsanlega missa embættið vegna þess að stjórninni mislíkuðu gjörðir hans og hann mundi þess vegna óbeint eða meðvitað fara að laga sig að því sem hann teldi að hinn pólitískt skipaði meiri hluti vildi. Þetta kallaði fjölmiðlaskrifstofa Evrópuráðsins freistinguna um það að falla í gryfju hins pólitíska valds og lagði til að ráðningartíminn yrði lengdur úr fjórum upp í sjö ár.

Hér er ekki einu sinni talað um að lágmarkstíminn sé eitt ár. Hér getur pólitískt skipuð stjórn Ríkisútvarpsins hf. rekið útvarpsstjórann þegar henni býður svo við að horfa. Hann hefur enga vörn af löngum ráðningartíma, ekkert skjól af því að hafa vissu um að sitja í embætti tiltekinn tíma. Hann getur verið rekinn eftir ár ef ósvífnum og ofbeldisfullum meiri hluta býður svo við að horfa.

Við höfum í vaxandi mæli horft fram á að ríkisstjórnin eftir langa setu er farin að fótumtroða þingræði. Hún er farin að iðka það sem við höfum kallað ráðherraræði og ég hef stundum kallað rassvasalýðræði og felst í að einn, eins og gerðist í fjölmiðlalögunum, hugsanlega tveir ráðherrar, formenn stjórnarflokkanna, bókstaflega taka afganginn af ríkisstjórninni og þingmeirihlutann og stinga því öllu saman í rassvasann og fara með það eins og þeim sýnist til að ná sínum vilja fram. Það er við slíkar aðstæður sem sú staða er hugsanlega komin upp og við þurfum ekki að hugsa mjög langt aftur í tímann til að sjá fyrir okkur stöðu þar sem ráðríkur foringi stórs stjórnmálaflokks þykist hafa tök á öllu.

Fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, mislíkaði við ríkisstofnun, þ.e. Þjóðhagsstofnun, og gaf út fyrirmæli um að hún yrði lögð niður út af því einu að sú stofnun sá fyrir efnahagsvandann árinu áður en hann gerðist. Stofnunin hélt alltaf áfram að sinna þeirri skyldu sinni að greina váboðana sem urðu stærri. Það var fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins sem hefndi sín á þeirri stofnun með því að leggja hana niður.

Það er þess vegna ekki út í hött sem ég segi að vel sé hægt að hugsa sér aðstæður þar sem harðráður og skapríkur formaður í stórum stjórnmálaflokki gæti komist að þeirri niðurstöðu að það væri farsælast fyrir hann og hans pólitíska umhverfi að skipt væri um útvarpsstjóra og gæfi skipun um það til hins pólitískt skipaða meiri hluta. Ef þetta væri Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti ekki að hafa áhyggjur af Framsóknarflokknum vegna þess að hann lufsast alltaf með.

Það er þess vegna, frú forseti, sem ég held því fram alveg fullum fetum að ákvæðin um útvarpsstjórann í þessum lögum stangast á við túlkun fjölmiðlaskrifstofunnar á tilmælum Evrópuráðsins.

Ég hef fyrr í ræðu minni farið nokkuð hlýjum orðum um getu hv. formanns menntamálanefndar til að greina þau vandkvæði pólitískt sem verða að vegi hans sem formanns í þeirri nefnd. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur sagt það hreint út af því hann skilur þetta mál, að það þurfi ekkert að senda þetta frumvarp til umsagnar fjölmiðlaskrifstofu Evrópuráðsins vegna þess að Íslendingum beri engin skylda til að fara eftir því. Hann vill ekki fara eftir því vegna þess að hann veit að þetta frumvarp sem honum hefur verið falið að troða í gegnum þingið stenst ekki tilmæli Evrópuráðsins. Svo einfalt er það nú, virðulegi forseti.

Ég hef í nokkuð stuttu og kjarnyrtu máli miðað við umfang málsins farið yfir þau viðhorf sem ég og sá stjórnmálaflokkur sem ég tilheyri hafa til þessa frumvarps. Við teljum að frumvarpið sé óvandað og á því séu lausir endar. Ég hef rakið það vel. Þær samþykktir sem vísað er til í ákvæðum frumvarpins liggja ekki fyrir til almennrar skoðunar hjá þingmönnum. Þjónustusamningurinn sem hæstv. ráðherra hefur sagt að eigi að skilgreina hlutverk Ríkisútvarpsins liggur ekki fyrir. Fjárreiður Ríkisútvarpsins eru með öllu óljósar. Hv. þm. Mörður Árnason hefur hvað tærast orðað það svo að deginum eftir að hlutafélagið verður að veruleika gætu lánadrottnar gengið að því með kröfur sína og gert það gjaldþrota. Af því eiginfjárstaða þess er neikvæð.

Það sem meginmáli skiptir er þó í mínum huga tvennt. Þetta frumvarp opnar á sölu. Þeir sem bera frumvarpið fram, eins og þeir þingmenn sem hafa haft sig mest í frammi, hv. þm. Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson, eru opinberir talsmenn sölu Ríkisútvarpsins. Þeir hafa lagt fram frumvarp sem gerir ráð fyrir að Ríkisútvarpið verði selt fyrir lok þessa árs. Að vísu er það svo að formaður menntamálanefndar bilar annað veifið í hnjánum og hrökklast til og frá, skekst stundum eins og strá í vindi undan gustinum sem gengur úr herbúðum ríkisstjórnarinnar og aðallega Sjálfstæðisflokksins en mestan tímann er hann þó með sölu. Hann hefur t.d. náð þeim áfanga að vera sölusinni um það bil tvo þriðjunga af þeim tíma sem þetta frumvarp hefur verið í 2. umr. en hinn þriðjunginn hefur hann bilað aðeins í hnjánum.

Það liggur fyrir að opinber stefna Sjálfstæðisflokksins síðan 1995 er að selja Rás 2. Það liggur fyrir samkvæmt þessu frumvarpi að í 3. gr. er opnað á að Rás 2 verði seld eða lögð niður. Það segir einfaldlega að það eigi ekki að vera skylda Ríkisútvarpsins að reka nema eina hljóðvarps- eða sjónvarpsrás. Það liggur fyrir að hæstv. menntamálaráðherra hefur sagt í svari til tveggja þingmanna Samfylkingarinnar, sem báðir eru hér í salnum í kvöld, að ef sú staða kemur upp að þörf sé á að leggja Rás 2 inn í nýtt félag sem væri hugsanlega í sameign RÚV og fjölmiðlarisa á almennum markaði, þá er ekkert innan þessara fjögurra veggja sem við stöndum nú innan sem getur komið í veg fyrir það. Það er því alveg ljóst að samkvæmt skilgreiningu menntamálaráðherra þá getur útvarpsstjóri og það sem hún hefur svo rausnarlega kallað faglega stjórn Ríkisútvarpsins hf. ákveðið að leggja Rás 2 inn í slíkt félag. Ég hef fært rök að því að meðvitað sé verið að stefna Ríkisútvarpinu eða halda því í fjárhagslegum vanda til þess hugsanlega að þegar sú staða kemur upp að einkavæðingarkynslóðin, RÚV-sölumennirnar innan Sjálfstæðisflokksins eru komnir til aukinna valda og meiri en í dag, menn eins og formaður menntamálanefndar, þá sé hægt andspænis fjárþröng og fjársvelti útvarpsins að fá samþykkti fyrir því að hlutafélag þar sem t.d. Rás 2 væri komið inn í yrði selt.

Ekki síst þessum hlutum er ég algerlega á móti þessu frumvarpi. Ég hef sömuleiðis farið skýrt yfir það sem er sameiginleg skoðun Samfylkingarinnar í dag og manna eins og Ögmundar Jónassonar, formanns þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og jafn ólíks stjórnmálamanns honum og fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins Þorsteins Pálssonar, að það verður að gera greinarmun á fyrirtækjum í opinberri eigu sem eru annars vegar rekin fyrir sjálfsaflafé og hins vegar rekin fyrir skattpeninga almennings. (Gripið fram í: Alveg hérrétt.)

Ég hef rifjað upp þau orð sem Þorsteinn Pálsson skrifaði í leiðara um daginn þar sem hann sagði að eina, ekki ein, heldur eina leiðin til að koma í veg fyrir misnotkun á almannafé væri að tryggja þann rétt sem almenningur hefur í krafti upplýsingalaga gagnvart slíkum félögum. Það er þess vegna sem hann sagði að það væri öfugsnúið að fara þá leið sem Sjálfstæðisflokkurinn er að fara hér í dag og það er þess vegna sem hann sagði líka að annaðhvort væri undirbúningur þessa frumvarps í skötulíki eða annað byggi undir en látið væri í veðri vaka.

Ég er nú reyndar þeirrar skoðunar að hvort tveggja sé rétt. Undirbúningurinn er í skötulíki og það býr annað undir. Að minnsta kosti af stórum hluta Sjálfstæðisflokksins, allri yngri deildinni, býr það undir að það á að selja RÚV. Við skulum ekki gleyma því að sennilega stærsti hluti flokksins, öflugasta félagið, Heimdallur og flest félögin innan SUS eru með þá opinberu stefnu að selja eigi RÚV. Við vitum að öllu vindur fram, tímanum og líka nýjum kynslóðum og þetta er fólkið sem ræður ungliðadeildunum í dag en á morgun mun það ráða flokknum og þá mun það berjast fyrir því, að ekki bara Rás 2 verði seld heldur Ríkisútvarpið allt. Það tel ég að komi ekki til greina. Ég tel að ekki komi til greina að breyta um rekstrarform á stofnun eins og Ríkisútvarpinu, jafnmikilvægri og hún er, sem geri það að verkum að upplýsingalög ná ekki yfir stofnunina þannig að við getum ekki notað það virka aðhald sem felst í að æskja upplýsinga í gegnum kjörna fulltrúa um gang rekstrar fyrirtækisins og þar sem stjórnsýslulög eða ígildi þeirra eru heldur ekki virk til að vernda rétt starfsmannanna. Þessi skortur á gagnsæi og þessi skortur á upplýsingum gerir það að verkum að ég get með engu móti samþykkt þetta frumvarp.

Ég hef líka fært rök að því hér að þetta frumvarp herðir hin pólitísku tök meiri hlutans á stjórn útvarpsins og þar með á hinum nýja alvaldi sem verður innan og yfir Ríkisútvarpinu hf., útvarpsstjóra. Þá er ég ekki að hugsa um neinn tiltekinn einstakling heldur líka um alla framtíð. Þetta frumvarp virðist beinlínis sniðið til að ráðherra úr pólitískum flokki hafi sterkari tök á stjórnun Ríkisútvarpsins eftir samþykktina en hingað til. Þó vitum við að oft keyrði um þverbak. Við vitum að Sjálfstæðisflokkurinn hefur áratugum saman lagt allt kapp á að hafa sem sterkust tök á Ríkisútvarpinu. Og hann hefur sannarlega stjórnað því og sérstaklega einstökum hlutum þess.

Það var ekki að ófyrirsynju að stjórnmálamenn eins og ég kölluðu Ríkissjónvarpið bláskjá því eins og menn vita hefur það verið þannig um árabil að aðgangurinn að Ríkisútvarpinu og sérstaklega þessum hluta þess hefur verið flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum þó sem betur fer sé það að breytast þó megi finna alveg splunkuný dæmi um það.

Af því ég horfist í augu við gegnan sjálfstæðismann er rétt að segja að stjórnmálaskoðanir eiga ekki að koma í veg fyrir að menn fái vinnu hjá opinberu fyrirtæki en þær eiga heldur ekki að vera aðgöngumiði. Það er algjörlega út í hött að einn pólitískur flokkur einoki stærsta og merkasta miðil sem þar að auki er í eigu almennings í landinu. Þannig hefur það verið og verði þetta frumvarp að veruleika verður það þannig um þá framtíð sem þau lög munu gilda. Staða útvarpsstjóra eins og um hnútana er búið í þessu frumvarpi er veik vegna þess að ráðning hans er ekki tímasett, hún er ekki til ákveðins tíma þannig að pólitískt skipað útvarpsráð eða stjórn, sem er líka veikara en áður vegna þess að það er hægt að skipta um það árlega, getur skipt honum út hvenær sem er. Ég undirstrika það enn og aftur að Evrópuráðið telur æskilegt að ráðningartími útvarpsstjóra sem er ráðinn af sambærilegum pólitískum meiri hluta og verður samkvæmt þessu frumvarpi sé sjö ár. Það er vert að undirstrika að Evrópuráðið hefur sagt í umsögn um svipað frumvarp sem sett var í gegnum þing í öðru Evrópuríki að ella gæti útvarpsstjóri freistast til þess að laga ritstjórnarstefnu fjölmiðilsins að vilja hins pólitíska meiri hluta til að auka líkur sínar á endurráðningu.

Það eru þess vegna engin sjáanleg rök fyrir því að maður með þær pólitísku skoðanir sem ég hef, að flokkur með þau pólitísku sjónarmið sem Samfylkingin hefur greiði atkvæði með þessu frumvarpi. Það er þess vegna sem Samfylkingin og stjórnarandstaðan hefur lagt það til að þessu máli verði vísað frá og það er rökstutt í tólf liðum í þingskjali sem hér liggur fyrir og ég mun greiða því atkvæði.

Að lokum, frú forseti. Eitt hefur ekki verið nefnt í ræðu minni en gæti orðið tilefni langrar umfjöllunar í seinni hluta og það er hlutur Framsóknarflokksins. Hvar er Framsóknarflokkurinn í þessari umræðu? Ég lýsi eftir Framsóknarflokknum. Ég hef haldið drjúga stund ræðu um þetta frumvarp, um háeffun Ríkisútvarpsins og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa verið í salnum og tekið þátt með ýmsum hætti en hér hefur varla borið á einum einasta fulltrúa Framsóknarflokksins fyrir utan þann sem nú situr í hinum hlutlausa sessi forseta beint fyrir aftan mig. Framsóknarflokkurinn var sá flokkur sem hélt fjallræður úr þessum stóli, sem hélt bergnumdar ræður á flokksþingum sínum um það að fyrr skyldi hann á knjánum liggja en að hann féllist á að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Nú liggur hann á hnjánum, rúinn fylgi, rúinn trausti, rúinn öllum trúverðugleika, rúinn þeim stefnumiðum sem hann sjálfur lagði upp með. Er nema von að flokkurinn sé í þeirri stöðu sem hann er núna þegar hann aftur og aftur lætur Sjálfstæðisflokkinn beygja sig til óhæfuverka?

Það eru ekki nema tvö ár, ef ég man rétt, síðan Framsóknarflokkurinn samþykkti með hátíðlegu klappi á aðalfundi miðstjórnar að hann mundi aldrei fallast á að Ríkisútvarpið yrði að hlutafélagi. Núna kemur formaður flokksins fyrstur manna fram á liðnu sumri til þess að færa þjóðinni þá blekkingu að tilmæli og álitsgerð sem kom frá ESA væri þess eðlis að ekki væri hægt að túlka hana með öðru móti en því að Ríkisútvarpið yrði að vera gert að hlutafélagi. Þegar málið er síðan skoðað kemur í ljós að það er rangt. Það er rétt að rifja það upp fyrir þingheimi og þeim sem hlusta á þessa ræðu að mánuðum saman var þessum úrskurði ESA haldið leyndum fyrir þjóðinni, fyrir fjölmiðlum og fyrir þinginu. Því var haldið fram í fjölmiðlum af hálfu forustu stjórnarflokkanna að þessi tilmæli væru þess eðlis að það yrði að háeffa Ríkisútvarpið. Framsóknarflokkurinn lét plata sig með þessum hætti. Þeir menn sem sögðu að þeir mundu fyrr dauðir liggja en fallast á að líka það vígi mundi falla féllust að lokum á hlutafélagavæðinguna út af þessu.

Hvað kemur svo í ljós? Þegar loksins er skoðað hvað felst í tilmælunum er það í fyrsta lagi að verið er að aðskilja samkeppnisreksturinn frá almannaútvarpsrekstrinum og að koma verður í veg fyrir að ríkið beri ótakmarkaða ábyrgð á félaginu. Hvort tveggja er hægt að gera með því að hafa stofnunina á formi sjálfseignarfélags í atvinnurekstri. Það er það form sem ég tel að eigi að beita. Það skiptir miklu máli í núverandi rekstrarumhverfi vegna þess að það kemur í fyrsta lagi í veg fyrir sölu eða gerir hana mjög erfiða og kemur í veg fyrir bútasölu sem hlutafélagavæðingin gerir mögulega. Það færir stofnunina inn á svið einkaréttarins þannig að það nýtur kosta þeirrar sveigju sem býr í hlutafélögum í dag. Það er ekkert sem segir að kosti hlutafélaganna sem er að finna í lögum um þau sé ekki hægt að taka upp og setja í lög um Ríkisútvarpið, ekki neitt.

Að síðustu vil ég segja þetta: Menn tala stundum og sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn um Ríkisútvarpið eins og það sé hálfgerður garmur. Það er rétt að að ýmsu leyti hefur Ríkisútvarpinu ekki á sumum sviðum tekist nægilega vel upp en á mörgum öðrum hefur því tekist stórkostlega vel upp af naumum fjárráðum. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að með nýjum útvarpsstjóra fæ ég ekki betur séð en að Ríkisútvarpið sé orðinn sá ljósvakamiðill sem hreyfir sig örast á vinnumarkaðnum. Við munum það þegar stjörnur voru keyptar frá vinsælasta þætti Ríkissjónvarpsins. Þá leið ekki sólarhringur áður en útvarpsstjóri var búinn að fá aðrar betri eða jafngóðar þannig að ekki virtist nú skortur á háeffun þá há hreyfanleika og hröðu skriði Ríkisútvarpsins og yfirmanna þess.

Auðvitað er það þannig að það á að taka burt ráðherraráðningarnar á yfirmönnum þessara þriggja stóru deilda RÚV sem hvort eð er allar hafa verið skipaðar af einhverjum pamperum og pótintátum úr Sjálfstæðisflokknum, alltaf verið pólitísk skipun, alltaf verið notuð sem bitlingar. Það er það sem er að bitna á Ríkisútvarpinu núna.

Þegar hæstv. menntamálaráðherra leyfir sér að kvarta undan því að ekki sé hægt í núverandi samkeppnisumhverfi að bjóða upp á að þarna sé einhver tiltekinn fjöldi yfirmanna ráðinn beint af ráðherra þá er hún að kvarta undan því að búið er að fylla þarna hvert rúm, drepa í hverja smugu af hennar eigin liði. Áfellisdómurinn sem er að falla er yfir hennar eigin gjörðum og hennar flokks.

Því miður er það þannig, frú forseti, að ég tel svona í nafni lýðræðisins að mál sé til þess að leyfa öðrum að komast að til þess að viðra sín viðhorf en það er margt sem ég á eftir að segja. Ég verð að láta það bíða betri tíma og þakka, forseti, fyrir stillingu gagnvart löngum ræðutíma mínum.