132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:36]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fróðlegt væri líka að vita skoðun Þorsteins Pálssonar á því hvernig eftirleikur ríkisstjórnarmyndunar Gunnars Thoroddsens hafði áhrif á hans eigin feril. Kannski veit Kjartan Ólafsson meira um það en margir. Ég hef að minnsta kosti nasasjón af því. En það er sennilega eitthvað sem ekki verður skrifað í sögu þingræðisins heldur sögu Þorsteins Pálssonar sjálfs. Það verður hver að bera ábyrgð á sínum orðum.

Hv. þingmaður Mörður Árnason kaus að taka svona til orða um Þorstein Pálsson. En allt af því sem hv. þingmaður las hér upp hefði ég talið sæmdaryrði, sérstaklega af sjónarhóli þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Er það ekki jákvætt og lofsvert að hafa unnið störf í þágu þjóðar sinnar sem sendiherra? Mér finnst það minnsta kosti jákvætt sem fyrrverandi ritstjóri þriggja dagblaða að hafa sinnt slíkri stöðu. Það voru alla vega ánægjuríkir kaflar á mínum starfsferli. Væri ég sjálfstæðismaður þætti mér fátt meiri sæmdarauki en að vera falinn sá trúnaður að vera formaður Sjálfstæðisflokksins.

Ég hef af reynslu minni af Þorsteini Pálssyni, bæði í stjórnarskrárnefnd þar sem við höfum tekist harkalega á og í ríkisstjórn þar sem við tókumst líka harkalega á þó við sætum þar við sama borð, verið þeirrar skoðunar og ekkert legið á því að Þorsteinn Pálsson er með vönduðustu stjórnmálamönnum sem ég hef unnið með og kynnst. Harður í horn að taka, erfiður stundum en heiðarlegur.

Hann er heiðarlegur í skoðunum sínum. Þess vegna var það ósæmilegt af hæstv. menntamálaráðherra að brigsla honum um að hann væri að ganga erinda eigenda miðla sinna þegar hann var ekkert að gera annað en að setja fram sínar eigin vönduðu skoðanir, þekktar til áratuga, alla vega síðan árið 1993 þegar við settum saman sem ríkisstjórn á Alþingi lög, einmitt um bætur á upplýsingalögum (Forseti hringir.) og stjórnsýslulögum.