132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Hækkun olíuverðs.

[10:41]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er komið svo að gengi er farið að hríðfalla og efnahagsmálin standa í rauninni í miklu uppnámi. Hæstv. forsætisráðherra segir að vísu að allt sé í fínu lagi í hvert skipti sem við hann er talað, en það er það auðvitað ekki og í mikinn vanda stefnir í þjóðfélaginu. Almenningur í landinu og sérstaklega skuldsett ungt fólk stendur frammi fyrir því að skuldir þess eru að hækka mjög mikið og verða mjög íþyngjandi viðbætur. En ríkisstjórnin segir að þetta sé allt í góðu lagi, efnahagsstjórnin er í mjög góðu lagi, segir ríkisstjórnin. En það er ekki þannig. Þessar sveiflur eru óþolandi og það fer ekki fram umræða hér um hvernig eigi að taka á málinu til framtíðar. Hæstv. ríkisstjórn ætlar ekki að gera neitt í því. Það þarf að ræða það í fullri alvöru í Alþingi hvernig menn ætla að taka á þessum málum til framtíðar lítið. Ég hvet til þess að það verði t.d. farið að ræða um þingmál Samfylkingarinnar um gjaldmiðilinn, hvort horfa eigi til þess að taka upp annan gjaldmiðil en íslensku krónuna í framtíðinni. Það er ekki skammtímalausn. Það er hins vegar lausn sem þarf að ræða og full ástæða er til að gera þegar menn sjá slíka framtíð sem er fram undan núna.

Ríkisstjórnin hefur enga stefnu hvað varðar orkumál. Það sem við höfum séð á undanförnum árum er hvatning ríkisstjórnarinnar með lagasetningu til að menn kaupi dýrari og eyðslufrekari bíla. Það var mokað inn jeppum með slíkum aðgerðum fyrir nokkrum árum og það er keyrt um á hverjum skúffubílnum eftir annan vegna þess að tollakerfið hvetur til þess. (Gripið fram í: … ríkisstjórninni að kenna?) Þetta er stefna að vísu, ég veit ekki hvort hún er meðvituð, en þetta er stefna.