132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Dagskrá fundarins.

[11:27]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er augljóst mál að nokkur ókyrrð er í þingsal og væntanlega ýmsar skýringar þar á. Það er hins vegar afskaplega áberandi hversu mikið ójafnvægi ríkir hjá hv. þingmönnum stjórnarliðsins, sérstaklega hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Ýmsar skýringar geta á því verið og ekki ólíklegt að ágæt grein sem birtist í dagblaði í gær sé þar á meðal þar sem farið er sérstaklega yfir rökleysuna og hið vanbúna frumvarp sem hér er stöðugt sett á dagskrá.

Eins og fram kom í máli virðulegs forseta telur virðulegur forseti að frumvarpið hafi verið eðlilega afgreitt út úr nefnd. Það má til sanns vegar færa að það var eðlilega tekið út úr nefndinni að því leytinu til að meiri hluti nefndarmanna samþykkti að málið væri út úr nefndinni tekið.

Frú forseti. Ég man ekki betur en að ég hafi áður í þingsal beint því til virðulegs forseta að nokkuð yrði farið yfir vinnubrögð í nefndum. Þetta mál er skólabókardæmi um það hvernig ekki á að vinna mál í nefndum. Ótal gestir voru vissulega kallaðir til, það var kallað eftir áliti ótal aðila en því miður, virðulegi forseti, var ekkert á þá hlustað. Ekki nóg með það, heldur var engin umræða í nefndinni um allar þessar álitsgerðir, um öll þessi viðtöl. (Gripið fram í.) Það var ekkert rætt í nefndinni. Hugsanlega er meiri hlutinn svo skyni skroppinn og svo valdfastur að umræður í meiri hlutanum hafi átt sér stað. Í nefndinni sjálfri, hv. formaður menntamálanefndar, var engin umræða á milli meiri hluta og minni hluta um þetta mál. (Gripið fram í.) Þrátt fyrir athugasemdir okkar þegar málið var tekið út úr nefndinni virtist þrýstingurinn vera slíkur á meiri hluta nefndarinnar einhvers staðar annars staðar frá en í nefndinni að það varð að afgreiða málið út á þeim fundi (Forseti hringir.) sem er afar óvenjulegt, virðulegi forseti …

(Forseti (SP): Hv. þingmaður er hér að ræða um fundarstjórn forseta, ekki um störf í menntamálanefnd.)

Hárrétt, virðulegi forseti. Ég er hins vegar rétt ókominn að því að tengja þetta við fyrri orð mín um það að virðulegur forseti þurfi að hafa eftirlit með því, eins og þingsköp gera ráð fyrir, hvernig störfum í nefndum er háttað. Áður en virðulegur forseti fer að fjalla um það hér af forsetastóli að allt hafi verið eðlilegt í nefndum þarf virðulegur forseti að kynna sér hvernig störfum var háttað í nefndinni. Ég er að fara (Gripið fram í.) yfir það að að mínu mati voru þau störf (Gripið fram í.) ekki eðlileg, virðulegi forseti, vegna þess að ekki var gefinn tími til að ræða þetta mál í nefndinni (Gripið fram í.) eins og eðlilegt hefði verið. (Gripið fram í.) Þetta mál er þess eðlis að um það þarf samstöðu og það er búið að fara yfir það mjög vel í umræðum hvers vegna það er mikilvægt og því miður (Forseti hringir.) var ekki gefinn tími til þess í nefndinni.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að forseti hafi tekið af mér nokkurn tíma mun ég ljúka ræðu minni hér.