132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:05]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson líti þannig á að ég sitji hér fyrir einhverjum rannsóknarrétti og sé skuldbundinn til að veita honum svör um hvað eina sem honum dettur í hug.

Ég þykist vita eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson að slík tillaga sem hann vísar til muni ekki koma fram. Ég hef farið yfir það margoft í umræðum um málið að ég hef verið þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að reka fjölmiðil. Það hefur hins vegar ekki verið stemning fyrir þeim sjónarmiðum, hvorki hjá hv. þingmanni né öðrum þingmönnum hér á hinu háa Alþingi né úti í þjóðfélaginu. Við höfum því orðið undir í þeirri umræðu. Ég tel afar ólíklegt að slík tillaga komi fram. En sjónarmið mitt hefur alltaf verið skýrt í þessu máli og hv. þingmaður veit hvað það er.

Úr því að hv. þingmaður talar um það í upphafi að mikill ágreiningur sé um þetta mál og 2. umr. yrði lokið í meiri ágreiningi en í flestum málum sem hér hefðu verið rædd á hinu háa Alþingi, þá vil ég benda hv. þingmanni á að ekki er ágreiningur á milli stjórnarflokkanna um hvernig eigi að afgreiða þetta mál. Ágreiningurinn er kannski fyrst og síðast á milli stjórnarandstöðuflokkanna. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hjá hv. þingmanni hvort hann telur að stjórnarandstöðuflokkarnir gangi samstiga í málinu.

Það vill nefnilega þannig til að hv. þm. Mörður Árnason lýsti því yfir við 1. umr. að hann hefði í sjálfu sér ekkert á móti hlutafélagaforminu að segja svo lengi sem upplýsingalög mundu gilda um Ríkisútvarpið. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur hins vegar lýst andúð á hlutafélagaforminu og vill gera Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun. Svo kemur (Forseti hringir.) hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og vill hvorugt, vill að (Forseti hringir.) Ríkisútvarpið í óbreyttri mynd fari á fjárlög.