132. löggjafarþing — 105. fundur,  21. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:20]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt. Auðvitað eru til fleiri leiðir. Þetta eru þær þrjár meginleiðir sem menn hafa rætt í tengslum við þetta mál og við getum svo sem tekið það til umræðu þegar málið fer aftur til nefndar milli 2. og 3. umr.

Úr því að hv. þm. Einar Már Sigurðarson vék hér að því að hann fagnaði því að málið yrði tekið inn í nefndina til frekari umræðu og velti því fyrir sér hver tilgangurinn með því væri þá er rétt að upplýsa hv. þingmann um að mér er ekkert á móti skapi að málið verði rætt efnislega enn og aftur í nefndinni eins og gert var við meðferð málsins eftir 1. umr.

Ég vil þó benda hv. þingmanni á að málið fer til hv. menntamálanefndar til meðferðar að kröfu stjórnarandstöðunnar. Ég hlakka til að fá að heyra hv. þingmann upplýsa mig um hvað það er sem hann telur að sé órætt í tengslum við þetta mál. Ég bíð eftir því að fá einhverjar formlegar óskir frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar um hvað eigi að fara fram á þessum fundum. Ég geri ráð fyrir að stjórnarandstaðan óski eftir því formlega að einhverjir tilteknir gestir verði kallaðir fyrir nefndina. En enn sem komið er á ég í töluverðum erfiðleikum með að upplýsa hver tilgangurinn með því að kalla málið inn í nefnd er — það eru jú hv. þingmaður og hans meðreiðarsveinar sem hafa óskað eftir því. Það væri þá frekar á hans sviði að upplýsa mig um hvað hann hyggst fyrir með þessari kröfu sinni.