132. löggjafarþing — 107. fundur,  24. apr. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[17:13]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og hv. þm. Merði Árnasyni um formgalla sem kann að vera á þessari umræðu. Mér finnst það ekki neitt hégómamál ef ekki er rétt staðið að umræðu um þingmál. Mér finnst rétt að stjórn þingsins íhugi þetta. Ég óska ekki eftir svörum við því á þessari stundu en áður en umræðunni lýkur finnst mér eðlilegt að við fáum einhver svör frá stjórn þingsins um þetta efni. Það er mikilvægt að við hlítum öllum reglum og lögum sem gilda um umræðuna hér á þinginu.

Með þessu frumvarpi um Sinfóníuhljómsveit Íslands er klippt á þann naflastreng sem verið hefur á milli Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands var sett á laggirnar um miðja síðustu öld, árið 1950, hafði Ríkisútvarpið forgöngu í því efni. Allar götur síðan hafa verið náin tengsl á milli Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar. Ástæðan fyrir því að Ríkisútvarpið beitti sér í þessu efni var fyrst og fremst sú að útvarpið vildi efla og bæta íslenskan tónlistarflutning útvarpsins. Með stofnun Sinfóníunnar var því markmiði náð, m.a. með stuðningi frá ríki og Reykjavíkurborg sem veittu fjárhagsstuðning á fyrstu árunum.

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur átt í nokkrum fjárhagslegum erfiðleikum og var við það að komast í þrot í byrjun 7. áratugarins, eða árið 1961, en þá tók Ríkisútvarpið við rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands með þeim styrkjum sem þá voru frá ríki og Reykjavíkurborg. En sú skipan hélst síðan óbreytt í um tvo áratugi eða allar götur til ársins 1982 en þá voru sett sérstök lög um Sinfóníuna og lagður sá rekstrargrundvöllur sem hún hvílir á og er enn við lýði.

Þar var kveðið á um að hlutur Ríkisútvarpsins í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands skyldi vera 25% en á móti veitti hljómsveitin þjónustu miðað við þá hefð og venjur sem í þeim efnum höfðu mótast á undangengnum árum, þ.e. meðan stjórn hljómsveitarinnar var algerlega í höndum starfsmanna útvarpsins.

Nú er það svo að ríkissjóður greiðir 56% af rekstrarkostnaði Sinfóníunnar, Ríkisútvarpið 25%, borgarsjóður Reykjavíkur 18% og bæjarsjóður Seltjarnarness 1%. Sú breyting sem er að verða með þessu frumvarpi er að hlutur Ríkisútvarpsins dettur út, 25%, og hlutur bæjarsjóðs Seltjarnarness. Þetta hefur þær afleiðingar í för með sér að ríkið kemur til með að greiða það framlag sem hingað til hefur komið frá Ríkisútvarpinu en í fjárlögum fyrir árið 2005 nemur upphæðin 123 millj. kr. og verður 138 millj. kr. miðað við forsendur í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2006. Þarna er tilflutningur á fjármunum og skýrir að forsvarsmenn Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa ekki lagst gegn þessum lagabreytingum. Þeir hafa fyrst og fremst horft til fjárhags hljómsveitarinnar og telja sig hafa fengið tryggingu fyrir því að ríkið komi þar í stað Ríkisútvarpsins.

Spurningin er hins vegar sú hversu æskilegt og vitlegt það er fyrir Ríkisútvarpið að gera þessa breytingu á. Því það er nefnilega rétt sem hefur komið fram í málflutningi manna á borð við Jón Þórarinsson, tónskáld og fyrrum dagskrárstjóra í útvarpi og í sjónvarpi, að það er rangt að líta á Sinfóníuna eins og menn hafa gert í seinni tíð, sem einhvern ómaga eða bagga á Ríkisútvarpinu. Þá hafa menn viljað gleyma hvert framlag hljómsveitarinnar hefur verið, ekki aðeins til tónlistarlífsins í landinu heldur til tónlistarflutnings í Ríkisútvarpinu.

Í grein sem Jón Þórarinsson skrifaði í Morgunblaðið hinn 11. mars á síðasta ári fer hann yfir þessa sögu. Hann segir hér m.a. í þessari grein, með leyfi forseta:

„Margt er nú rætt um fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins, m.a. í yfirgripsmikilli samantekt í Morgunblaðinu nýlega (Ríkisfjölmiðill í tilvistarkreppu, Morgunblaðið 6.3. 2005). Þar og víðar í þessari umræðu hefur verið talin hin mesta nauðsyn fyrir útvarpið að létt væri af því „framlagi“ til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem á þessu ári er sagt nema 118,5 millj. kr. Látið er líta svo út sem þetta sé hreinn „framfærslustyrkur“, sem útvarpið hafi verið blekkt eða kúgað til að taka á sig, og hvergi er á það minnst að neitt komi á móti „framlaginu“ eða útvarpið fái neitt fyrir snúð sinn.“

Síðan rekur Jón Þórarinsson ýmsa þætti í sögu og samskiptum Sinfóníunnar og Ríkisútvarpsins og vísar í samkomulagið sem gert var við hljómsveitina í byrjun 9. áratugarins, eða árið 1982, þegar lög voru sett um hljómsveitina og núverandi fyrirkomulag varð til.

Um þetta efni segir Jón Þórarinsson, með leyfi forseta:

„Samkvæmt lögunum var gerður samningur um þessa þjónustu við Ríkisútvarpið. Hann hefur síðar verið endurnýjaður og endurskoðaður, en í honum felst þetta m.a.:

1. Heimild til að útvarpa beint, eða síðar af upptökum, öllum áskriftartónleikum hljómsveitarinnar og öðrum tónleikum á hennar vegum. Innifalin er þátttaka stjórnenda og einleikara/söngvara.

2. Heimild til að sjónvarpa tónleikum eða taka þá upp fyrir Sjónvarpið til flutnings án endurgjalds.

3. Vinna við upptökur í þágu Ríkisútvarpsins, 25 vinnulotur á ári, allt að þrjár og hálf klst. hver lota, ásamt ótakmörkuðum flutningsrétti á upptökunum.“

Jón Þórarinsson heldur áfram, með leyfi forseta:

„Þessi ákvæði hefur útvarpið nýtt með þeim hætti að samkvæmt 1. lið hefur verið útvarpað um 35 sinfóníutónleikum á ári eða sem svarar 80–90 klukkustundum af útvarpsefni. Tónleikarnir eru glæsilegur þáttur í íslenskum tónlistarflutningi Rásar 1 og raunar ein af helstu skrautfjöðrum dagskrárinnar. Þetta efni hefur einatt verið notað umfram ströngustu heimildir, bæði í endurflutningi og efnisskiptum við erlendar útvarpsstöðvar. Sjónvarpsheimildin samkvæmt 2. lið má heita ónýtt með öllu. Það skal viðurkennt að ekki eru allir tónleikar ákjósanlegt sjónvarpsefni. En sumir eru það. Vínartónleikar eru eftirsóttir í sjónvarpi í mörgum löndum, einnig óperutónleikar svo eitthvað sé nefnt. Oft eru einstök verk á tónleikum sem mjög gætu lífgað sjónvarpsdagskrá þótt tónleikarnir séu ekki teknir í heild.

Það hefur komið fyrir að öðrum sjónvarpsstöðvum hefur verið seldur upptökuréttur að einstökum tónleikum. Verðið hefur verið lágt, á aðra millj. kr., en gefur þó hugmynd um þau verðmæti sem dagskrárstjórn sjónvarpsins hefur ekki hirt um að nýta þótt þau standi því til boða endurgjaldslaust. Upptökutími Ríkisútvarpsins var lengi vel nýttur aðallega til upptöku á nýjum verkum íslenskra tónskálda og ræktu bæði útvarpið og hljómsveitin þannig sjálfsagðar skyldur sínar við íslenskt menningarlíf. Á síðari árum hefur slaknað á þessu og stundum hefur útvarpið ekki sinnt um að nota umsaminn tíma sinn. Hefur hljómsveitin þá ráðstafað honum til annarra þarfa.

Það lætur nærri að þær 25 vinnulotur sem nú eru í samningnum, upphaflega 5 vinnuvikur, séu um 10% af virkum árlegum starfstíma hljómsveitarinnar. Þær má því meta til fjár, á rétt um 52 millj. kr. Verðmæti heimildanna í 1. og 2. lið hér að ofan, nýttra og ónýttra, er erfiðara að áætla en þær eru vart metnar lægra en svo að framlag Ríkisútvarpsins mætti telja væga greiðslu fyrir þá þjónustu sem því stendur til boða.

Hitt er svo hörmuleg staðreynd að Ríkisútvarpið hefur ekki hirt um að notfæra sér heimildirnar nema að nokkrum hluta en það er framkvæmdaratriði sem ætti að vera umhugsunarefni fyrir dagskrárstjórn Ríkisútvarpsins.“

Þarna vitnaði ég í grein eftir Jón Þórarinsson, tónskáld og fyrrum dagskrárstjóra hjá Ríkisútvarpinu.

Hann hrósar hljóðvarpinu, hann hrósar útvarpinu en gagnrýnir sjónvarpið hins vegar harðlega fyrir að hafa ekki nýtt sér þær heimildir sem það hefur til að sjónvarpa frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og færir ágætlega rök fyrir sínu máli.

Þetta þykja mér vera sannfærandi rök, sannfærandi málatilbúnaður. Ég tek undir með Jóni Þórarinssyni að það er mjög undarlegt og vægast sagt vafasamt að líta á það af hálfu forsvarsmanna Ríkisútvarpsins að Sinfónían sé einhvers konar baggi á Ríkisútvarpinu. Eða ætla menn að klippa á þetta samstarf algerlega eftir þessar breytingar? Koma ekki til með að verða útvarpstónleikar frá Sinfóníuhljómsveit Íslands í útvarpi og þá hugsanlega einnig í sjónvarpi? Telja menn að þurfi ekki að greiða fyrir slíkt efni?

Þannig að fjárhagslegur ávinningur Ríkisútvarpsins, ef það ætlar að rækja menningarlegar skyldur sínar á sviði tónlistar, er ekki fyrir hendi. (Gripið fram í.) Ávísun á metnaðarleysi, er sagt úr sal. Ég vil taka undir það. Reyndar finnst mér allur þessi málatilbúnaður í sambandi við Ríkisútvarpið bera vott um ótrúlegt metnaðarleysi af hálfu forsvarsmanna Ríkisútvarpsins og þriggja ráðherra Sjálfstæðisflokksins í ráðuneyti menntamála á undanförnum árum. Því það er þar sem vandi þessara stofnana liggur, hvort sem það er Sinfóníuhljómsveit Íslands eða Ríkisútvarpið. Vandinn er sumpart stjórnunarlegs eðlis, nokkuð sem hægt er að laga án þess að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi, og hins vegar er það fjársvelti. Það er fjársvelti. Ríkisútvarpið hefur orðið af tekjum á undanförnum árum sem nema 19% miðað við launavísitölu eða þróun hennar á árabilinu 1994–2004. Mannahald hefur dregist saman um 15% á þessu sama tímabili. Þetta er vandinn í hnotskurn. Síðan eru að tala fyrir þessum lagabreytingum einstaklingar sem vilja leggja útvarpið niður, selja það. Þeir eru síðan að reyna að sannfæra þing og þjóð um að því verði vel borgið í nýjum búningi.

En ég ítreka, hæstv. forseti, að af hálfu forsvarsmanna Sinfóníuhljómsveitar Íslands er fyrst og fremst horft á þennan fjárhagsgrundvöll og þeir hafa ekki gert alvarlegar athugasemdir við þessar breytingar, einfaldlega vegna þess að því er heitið að tryggja þeim samsvarandi greiðslur úr ríkissjóði sem verða á þessu ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi 138 millj. kr. Þeir gagnrýna ekki þessar lagabreytingar af þessum sökum. Mættu reyndar fyrir minn smekk gagnrýna þessar breytingar vegna þess að það má ætla að aðgangur Sinfóníunnar að Ríkisútvarpinu verði minni. Ég óttast það einmitt vegna þess metnaðarleysis sem menn sýna í málflutningi sínum og yfirlýsingum gagnvart Sinfóníuhljómsveit Íslands sem þeir líta á sem einhvers konar bagga á starfsemi útvarpsins. Það eru þeir sem ég gagnrýni kannski fyrst og fremst, ábyrgðarmenn Ríkisútvarpsins, hvort sem þeir eru þar innan búðar og láta þetta yfir sig ganga og jafnvel ýta undir þessar breytingar, og svo að sjálfsögðu einnig pólitíska ábyrgðarmenn í menntamálaráðuneytinu. Þar vísa ég að sjálfsögðu ábyrgðinni á hendur hæstv. menntamálaráðherra sem stendur fyrir þessum breytingum öllum saman sem ég tel vera afar illa grundaðar.

Hæstv. forseti. Ég hef hér í örfáum orðum gagnrýnt þær breytingar sem þetta frumvarp hefur í för með sér. Ég ítreka að áður en gengið er til atkvæða um þetta frumvarp, hvenær sem það verður, eftir 2. umr., þá höfum við fengið úr því skorið hvort sú umræða sem hér fer fram er yfirleitt lögmæt samkvæmt þingskapalögum. Vegna þess ef svo er ekki er það góðra gjalda vert að sitja hér og spjalla um málefni Sinfóníunnar. En við eigum hins vegar ekki að líta á það sem hvert annað hégómamál hvernig menn og Alþingi umgangast þingskapalögin.

Þannig að áður en gengið verður til atkvæða um þetta mál er nauðsynlegt að fá úr þeim álitamálum skorið sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék að áðan og hv. þm. Mörður Árnason tók undir og staðfesti héðan úr ræðustól að málinu hefði aldrei formlega verið vísað úr menntamálanefnd til umræðu í þingsal.