132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Samkeppnisstaða ríkisbanka á húsnæðismarkaði.

590. mál
[13:19]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þingmanni að þær miklu breytingar sem hafa orðið á húsnæðismarkaðnum hafa gert efnahagsstjórnina nokkru snúnari en hún annars hefði verið. Ég held hins vegar að það sé fullkomlega ótímabært að kveða upp úr með það að þar hafi verið um mistök að ræða. Það þarf allt að skoðast í samhengi við þann árangur sem fæst út úr aðgerðunum. Ég held að það hafi nú þegar sýnt sig að árangurinn er talsvert mikill því vextir hafa lækkað umtalsvert á húsnæðislánum. Það hefur síðan haft aðrar afleiðingar sem hafa gert efnahagsstjórnina snúnari eins og ég nefndi áðan.

Það er eðlilegt að hv. þingmaður velti fyrir sér þeim sex atriðum sem koma fyrir í fyrirspurninni og hvernig staðið verður að þeim í framtíðinni. Þau eru hins vegar öll þess eðlis að þau hljóta að koma til athugunar í þeirri endurskoðun sem nú er í gangi á því hvernig við munum koma fyrir fjármögnun á húsnæðismarkaði. Eftir því hvernig niðurstaðan verður í þeim efnum munu þau annaðhvort hafa leyst af sjálfu sér eða taka þarf afstöðu til þeirra á nýjum forsendum. En öll eru þau þess eðlis að þau hljóta að koma inn í þessa umræðu.

Eins og staðan er núna er því ótímabært fyrir mig að kveða upp úr um sérstaka afstöðu til einstakra atriða annað en að endurtaka að ekki er óeðlilegt að að þeim sé hugað og um þau spurt. Niðurstaðan hlýtur síðan að koma í ljós þegar við höfum komist að endanlegri niðurstöðu um hvernig við munum koma fjármögnun á húsnæði landsmanna fyrir og við munum sjá meira um það á næstu vikum. Ef allt gengur eftir eins og fyrirhugað er gætum við séð niðurstöðu í því á þessu ári.