132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Umferðaröryggi á Kjalarnesi.

680. mál
[14:17]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrirspyrjanda fyrir að bera upp þessa spurningu. Það veitir ekki af því að ræða umferðaröryggi, sérstaklega á þessum kafla. Mér finnst vel við hæfi að hrósa lögreglunni fyrir að hafa vakandi auga með þessum vegarkafla.

Hins vegar ég verð að lýsa furðu á svörum hæstv. ráðherra. Hann lýsir sjálfum sér sem umkomulausum, hálfgerðum ræfli í gíslingu eins sveitarstjórnarmanns í Reykjavík. Mér finnst ekki mikið leggjast fyrir kappann. Það verður að segjast eins og er.

En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það er hann minntist á að ganga þyrfti frá vegarkaflanum við Grundarhverfið, gatnamótunum þar. Ég vil spyrja hann hvernig hann sjái það fyrir sér: Sér hann fyrir sér mislæg gatnamót eða hvernig hyggst hann ganga frá þessum vegarkafla? Hann hefur haft rúman tíma til að hugsa fyrir því. Í því hefur ekki tafið fyrir honum það sem hann bar fyrir sig (Forseti hringir.) hvað varðar verks eins ágæts (Forseti hringir.) borgarstjórnarfulltrúa.