132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Umferðaröryggi á Kjalarnesi.

680. mál
[14:23]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það sannast að sannleikanum verður hver sárreiðastur þegar hlustað er á málflutning hv. þingmanna Samfylkingarinnar. Ræða hv. þm. Helga Hjörvars kemur náttúrlega ekki á óvart því þetta er sennilega í þrítugasta skiptið sem hann heldur þá ræðu, í hvert einasta skipti sem hann fær færi á að tala við samgönguráðherra. En það liggur hins vegar fyrir að það er á valdi sveitarfélaganna í landinu að fara með skipulagsmál. Lega Sundabrautarinnar er partur af því verkefni. Með sama hætti var það á valdi sveitarstjórnarinnar í Reykjavík að taka ákvörðun um mislæg gatnamót á mörkum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Sú framkvæmd var slegin út af borðinu með tilstyrk hv. þm. Helga Hjörvars.

Með sama hætti var það Reykjavíkurborg sem réð legu Hringbrautarinnar, hvað sem hv. þingmaður og hæstaréttarlögmaður sem hér talaði fyrr, segir um það efni. Það eru borgaryfirvöld sem fara með skipulagsmálin og Vegagerðin og samgönguyfirvöld hafa beðið eftir niðurstöðu borgaryfirvalda hvað þetta varðar. Þingmenn vita það vegna þess að það var afgreitt frá Alþingi, gert ráð fyrir 8 milljörðum kr. til fyrsta áfanga Sundabrautarinnar. Við höfum lýst því yfir að við gerðum ráð fyrir því að framkvæmdin yrði sett af stað í heilu lagi og að sjálfsögðu fjármögnuð. (Gripið fram í: Hálfa leið.) Allt tal um að fara hálfa leið er frá Samfylkingunni, hv. borgarfulltrúa Degi B. Eggertssyni sem bjó til þá kenningu.

Hv. þingmenn verða að lesa heima og átta sig á því að ábyrgð sveitarfélaganna er að sinna skipulagsverkefnunum. Við höfum tekið ákvörðun um að leggja Sundabraut en bíðum enn eftir því að niðurstaða fáist í hvar hún eigi að liggja. Í því liggur minn vandi.