132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Hjúkrunarheimili og öldrunarþjónusta.

765. mál
[15:16]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það sem ég hef mjög mikinn áhuga á að gera, að bæta úr varðandi málefni eldri borgara, aldraðra, sérstaklega í hjúkrunarheimilismálunum. Ég hef sagt það opinberlega og get endurtekið það.

Varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra þá er rétt að hann hefur ekki allur farið í byggingar heldur að hluta til í rekstur en það hlutfall hefur stórminnkað á síðustu árum. Sífellt hærra hlutfall hefur farið í byggingarframkvæmdir úr þeim sjóði sem er mjög ánægjuleg þróun.

Ég er að láta vinna núna aðgerðaráætlun eða forgangsáætlun af því að mér finnst mjög mikilvægt að eldri borgarar, sveitarfélögin og allir hagsmunaaðilar viti nokkurn veginn hvar við þurfum að byggja á næstu árum af því að allir halda að það eigi að byggja hjá sér. Ég hef orðið vör við það að sum sveitarfélög eru, að mínu mati, á talsverðum villigötum í þessum málaflokki. Þau sameinast um það, minni hluti og meiri hluti í sveitarstjórn, að herja á ríkið. Það er kannski ósköp eðlilegt að málefni aldraðra séu núna í brennidepli í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, af því að þau málefni eru á hendi ríkisins og það er ágætt fyrir bæði meiri hluta og minni hluta í sveitarstjórnum að sameinast um að lemja svolítið á ríkinu. Það er eðlilegt að það verði heitt mál af því að það er mál sem snýr að ríkisvaldinu.

Þau rými sem ég var að ræða áðan eru ekki bara til að halda í horfinu, þau eru til að leysa mjög mikinn vanda. Ég tel að náum við þeim í gagnið, sem við stefnum að, þá verði staðan góð. Við megum ekki stofnanavæða of mikið. Það verður eðlisbreyting á fólki þegar það fer inn á stofnun. Fólk vill vera heima eins lengi og hægt er. Og ef við skoðum rýmin hlutfallslega miðað við Norðurlöndin þá erum við ekki í slæmum málum, það er bara þannig. (Forseti hringir.) Við eigum að efla heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu en ekki bara stofnanavæða.