132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[15:29]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það leit vissulega þannig út um tíma eins og umtalsverðar kjarabætur væru að skila sér í gegnum vaxtalækkun og möguleika almennings til þess að skuldbreyta húsnæðislánum og ná fram lægri vöxtum. Því miður hefur sú þróun nú snúist við aftur og vextirnir eru aftur á uppleið eins og ég veit að hv. þingmaður veit vel. Það sem alvarlegra er að sú tiltekt í fjármálum sem þetta virtist í fyrstunni vera, þ.e. að menn skuldbreyttu yfir í föst lán á lægri vöxtum óhagstæðari lánum, sérstaklega þó yfirdráttarlánum, er öll gengin til baka og rúmlega það vegna þess að sú lækkun á yfirdráttarskuldum heimilanna upp á kannski 10, 15 milljarða sem tímabundið kom til sögunnar samfara þessum breytingum á fasteignalánamarkaði er öll gengin til baka og rúmlega það og yfirdrættirnir orðnir hærri á nýjan leik á þeim vöxtum sem þar eru.

Ég held því að það sé langsótt að taka jafndjúpt í árinni og hv. þingmaður gerði hér þegar hann sagði að þetta væri mesta kjarabót sem menn hefðu til langs tíma fengið, vegna þess líka að að því marki sem vaxtakostnaðurinn hefur þá ekki lækkað hefur vaxtabótakerfið hins vegar hrunið. Það er auðvitað alveg á sínum stað og þá virkar vaxtabótakerfið eins og það á að gera ef raunkostnaðurinn lækkar og þá fá menn lægri vaxtabætur eðlilega, stofninn gerir það að verkum. En það að menn skuli koma að vaxtabótakerfinu hinum megin frá og ekki gera ráðstafanir til þess t.d. að sýndar- eða gervihagnaðurinn, sem fólginn er í hækkun íbúðarhúsnæðis sem menn ekki innleysa, að hann leiði ekki til skerðingar eða afnáms vaxtabóta. Ég held að hv. þingmaður sé alveg varnarlaus í því máli og verði bara að horfast í augu við að þar birtist forgangsröðun ríkisstjórnarinnar með mjög skýrum hætti. Þegar skyndilegar breytingar eða sveiflur verða er ekkert gert til þess að lagfæra stöðu þolendanna ef það er almenningur, en ef það eru fyrirtækin þá stendur ekki á ríkisstjórninni að koma hér með frumvörp.