132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[16:23]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er auðvitað athyglisverð haglýsing á hinu óstöðuga svissneska hagkerfi því að auðvitað, eins og kom fram hjá mér fyrr í dag í andsvari við hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þá sveiflast flestar myntir, en svissneski frankinn hefur verið talinn hluti af hinu stöðuga svissneska hagkerfi og ég tel að það sé einsýnt að sú samlíking sem ég notaði þar standist alveg. Hins vegar nefndi ég líka að það hefur verið talað um að gengi norsku krónunnar væri of hátt þó að það hafi kannski ekki farið í sömu hæðir og íslenska krónan fór í í lok síðasta árs.

Hins vegar varðandi verðtryggingu íslensku krónunnar er það í sjálfu sér óæskilegt að við séum með aðrar reglur og annað fyrirkomulag en gildir í löndunum í kringum okkur. En við tókum þetta fyrirkomulag hér upp við sérstakar aðstæður og ég held að við þær aðstæður hafi það reynst okkur mjög vel og hjálpað okkur til þess að koma hér á efnahagslegum stöðugleika. Það getur hins vegar verið að við þurfum að endurskoða hversu mikið gildi það hefur í dag að hafa verðtrygginguna. Að hluta til er ég sannfærður um að hún jafnar greiðslubyrðina hvað varðar heimilin, sérstaklega vegna greiðsludreifingarinnar sem oftast fylgir verðtryggingunni. Ég mundi hika við að fara í að banna frjálsum markaði að gera skuldbreytingar sínar með verðtryggingu. Ef hugur fylgir máli hjá Hreiðari Má Sigurðssyni getur hann haft verulega mikil áhrif á þetta (Forseti hringir.) í gegnum bankastofnun sína sem er ef ég man rétt stærsta bankastofnun landsins.