132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[16:44]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er fagnaðarefni að hæstv. fjármálaráðherra komi fram með þetta frumvarp sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfum áður kallað eftir frá hæstv. ráðherra en óhjákvæmilegt er að spyrja ráðherra að tvennu. Í fyrsta lagi: Sér ráðherra fram á að hinn 31. desember næstkomandi hafi olíuverð á heimsmarkaði lækkað svo að þetta ákvæði megi koma til framkvæmda og gjaldið hækka um 4 kr. á olíuna? Eða hvers vegna velur hæstv. fjármálaráðherra að fresta þessu aðeins til þess tíma? Ég hefði haldið að horfur á heimsmörkuðum væru með þeim hætti að fullt tilefni væri til að fresta þessu lengur. Hins vegar, og það er kannski meginatriðið, var tekist talsvert á um olíugjaldið á sínum tíma og spurt hvort ástæða væri til að hafa það svo hátt og hvort ekki væri rétt að hvetja frekar til notkunar með að hafa það lægra en hæstv. fjármálaráðherra vildi hafa það en ákvörðun um það var byggð á spá um tekjuáhrif kerfisbreytinganna fyrir ríkissjóð. Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra hver þau áhrif hafi verið og hvort nauðsynlegt sé að fá þetta gjald inn í árslokin til að bæta ríkissjóði upp eitthvert tekjutap sem orðið hefur vegna breytinganna sem gerðar voru.