132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[18:53]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef um jöfnun á verði er að ræða, jafnvel eftir þeirri aðferð sem hv. þingmaður lýsir, þá þýðir það að sá sem nýtur jöfnunarinnar mun nota meira eldsneyti en hann ella mundi gera. Það hlýtur að vera tilgangurinn með því að ýta undir þá starfsemi sem á eldsneytisnotkuninni þarf að halda. Annars þyrfti þetta ekki, annars væri þetta ástæðulaust.

Varðandi kerfið þá er það rétt hjá honum að til þess að markmiðið um meiri umhverfisvænleika og meiri hagkvæmni gangi upp þá þarf verðið að vera lægra og til þess er leikurinn með þessu frumvarpi gerður. Lægra verð og minni eyðsla dísilbílanna á að leiða fram þessi áhrif.

Hvað það varðar að skipa nefnd þá er ég nú þegar með vinnuhóp að skoða þessi mál eins og kom fram í umræðunni. Hvað kemur út úr því get ég ekki sagt á þessari stundu og vil ekkert útiloka hvaða framhald verður á því án þess að uppi séu neinar sérstakar hugmyndir.