132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[22:00]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir að ég hafi haldið skrítna ræðu. Vel getur verið að hún sé skrítin í ljósi þess að við erum ekki sammála um grundvallaratriðin. Kannski erum við ekki sammála um að efnahagur eigi að ráða aðgangi fólks að heilbrigðiskerfinu. Ég bara einfaldlega hafna því. Það getur vel verið að hv. þingmaður sé ósammála því, vilji hugsanlega möguleika á að kaupa sig fram fyrir röðina. Það er kannski ráð að spyrja hv. þingmann. Vill hann gera ráð fyrir heilbrigðiskerfi þar sem hægt er að kaupa sig fram fyrir röðina? Hann getur þá svarað því bara skýrt. Ég fyrir mitt leyti svara mjög skýrt. Ég vil ekki svoleiðis kerfi.

Ég er líka gagnrýndur fyrir að benda ekki á neinar lausnir. Fyrrverandi heilbrigðisráðherrar hafa alltaf fundið lausnir á svipuðum vanda. Við erum að fara á nýjar slóðir með þessu kerfi. Ég hef nefnt að sett hefur verið reglugerð sem hefur gilt afturvirkt. Það er ein lausn. Auðvitað eigum við að semja og semja. Auðvitað eigum við að reyna það. Hvað gerir fólk í kjaraviðræðum? Þegar fólk er í kjaraviðræðum og talsvert ber á milli aðila. Fólk reynir að semja og semja þangað til lausn næst. En það þýðir ekki að við sníðum algjörlega nýtt kerfi ef samningaviðræðurnar eru af einhverjum ástæðum í hnút. Þá getum við alveg eins sleppt því að semja. Hvað mun gerast í haust þegar einingarnar fara að klárast hjá öðrum sérfræðistéttum sem eru samningsbundnar? Munu þær ekki einfaldlega fara út af samningi og þá erum við komin með nákvæmlega sama kerfi gagnvart öðrum stéttum.

Ég veit mætavel að auðvitað hafa verið til læknar sem hafa verið samningslausir og viðkomandi aðilar geta farið beint til þeirra og borgað hátt verð. En hér er bara ekki um það að ræða. Hér erum við að tala um heila stétt sem verður samningslaus við hið opinbera. Það er nýtt í þessu máli. Það hefur ekki gerst áður.