132. löggjafarþing — 113. fundur,  3. maí 2006.

Almannatryggingar.

792. mál
[00:29]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við ræðum að flestu leyti í þessari umræðu í kvöld ekki um frumvarpið sem slíkt heldur reglugerðina sem tók gildi 1. apríl síðastliðinn, mánaðargömul. En vegna orða hæstv. heilbrigðisráðherra í seinni ræðu sinni vil ég biðja hana að skýra nánar, þannig að það sé alveg ljóst, og upplýsa hvort samningur sem hjartasérfræðingar skrifuðu upp á, og átti að vera í gildi til 2008, sé raunverulega ekki enn í gildi. Eins og ég hef skilið dæmið var samningnum sem slíkum ekki sagt upp heldur sagði hver og einn sérfræðilæknir sig frá samningnum. Er samningurinn í gildi eða ekki?

Ég tel, hæstv. forseti, að það sé mjög skiljanlegt að sérfræðingar, hvort sem það eru hjartalæknar eða barnageðlæknar eða hverjir sem eru, séu ekki sáttir við það að kvótinn sé uppurinn 2–3 mánuðum fyrir árslok og telji sig þar af leiðandi fara með skert laun á því ári.

Hæstv. heilbrigðisráðherra telur að tilvísunarkerfið sem búið er að koma á sé komið til að vera um einhvern tíma. Þýðir það þá að ekki eigi að reyna samninga við hjartasérfræðinga. Ef verið er að gera þessa tilraun og fara þessa leið, að hafa þetta tilvísunarkerfi einhvern tíma, á þá ekki að reyna að ná samningum?