132. löggjafarþing — 114. fundur,  4. maí 2006.

Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar.

795. mál
[14:17]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefði kannski mátt koma skýrar fram í máli mínu þegar ég mælti fyrir frumvarpinu að þær ráðstafanir sem hér er verið að leggja til eru eingöngu hugsaðar til að tryggja snurðulausa framkvæmd vallarins við núverandi aðstæður. Ekki er tekin afstaða til þess í frumvarpinu hvernig framtíðarskipan þessara mála eigi að vera eftir einhvern tíma heldur miðast þetta við að við komum okkur út úr því óvissuástandi sem nú hefur ríkt og að tryggjum eðlilegan rekstur. Síðan verður að nýju spurning sem við svörum þegar okkur hentar sjálfum hvort skipulag flugmálanna þarna eigi að vera eitthvað öðruvísi en það er núna. Við erum að bregðast við óvæntum aðstæðum og gerum það með þessum hætti.

Hins vegar er það skoðun mín að eftir að hlutverk flugvallarins í Keflavík breytist með þeim hætti sem nú er fyrirsjáanlegt, að hernaðarflug minnkar mjög stórlega og venjuleg borgaraleg flugumferð með farþegaflugvélar og frakt verður aðalstarfsemin þarna, eigi yfirstjórn þessa flugvallar að flytjast undir samgönguráðuneytið. Það verður því verkefni samgönguráðuneytisins, sem verður þá með öll þessi mál á sinni hendi, að gera það upp við sig hvort reka eigi þessa starfsemi áfram sem eina sérstaka stofnun á Keflavíkurflugvelli eða hvort sameina eigi þetta allt undir einni sameiginlegri flugmálastjórn fyrir flugvelli landsins. Ég tel að sú spurning sé enn þá opin og það eigi eftir að svara henni til framtíðar. En að því leyti til má segja að frumvarpið sem ég flyt hér sé um bráðabirgðaráðstafanir eða ákveðna millileið á meðan við erum að ganga frá öllum þeim málum og lausu endum sem í þessu eru, m.a. gagnvart Bandaríkjamönnum.