132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:49]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég varð nokkuð hugsi síðdegis í gær þegar ég sá dagskrá þingsins í dag eins og áður hefur komið fram í umræðunum í dag. Nú er tæpur mánuður liðinn síðan við ræddum síðast þetta mál hér á þinginu, sennilega rúmur mánuður reyndar frá því að við vorum hér í salnum í 2. umr. um málið og tæpur síðan við afgreiddum nefndarálit meiri hluta og minni hluta, framhaldsnefndarálit, til þingsins.

Hvað hefur gerst á þeim tíma? Jú, tíðindi hafa orðið í stjórnmálum á Íslandi. Þau tíðindi eru fyrst og fremst verulegt áfall annars stjórnarflokksins, Framsóknarflokksins, í sveitarstjórnarkosningum sem fram fóru á laugardaginn var. Ýmsar skýringar á því áfalli má nefna til. Ég ætla nú ekki að gera það rækilega að sinni. Sumar þeirra felast í langtímavanda flokksins, sambandi hans við kjósendur sína og hugmyndafræðilega arfleifð. Aðrar felast í stöðu hans í nýju landslagi í íslenskum stjórnmálum, m.a. gagnvart þeim flokkum sem nýir teljast hér á þingi og í stjórnmálum almennt, gagnvart Samfylkingunni, gagnvart Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Frjálslyndum að nokkru leyti. Aðrar skýringar eru sjálfsagt staðbundnar eins og einkum er í sveitarstjórnarkosningum. En ég held að engum blandist hugur um að helsta skýringin á fylgistapi, sem sumir kalla hrun, framsóknarmanna í þessum kosningum sé þróun hans til hægri og samstarf hans við Sjálfstæðisflokkinn í þessari þaulsætnu ríkisstjórn.

Hver eru nú viðbrögð framsóknarmanna við þessu? Sumir höfðu búist við að þeir tækju sér ákveðinn tíma í að fara yfir næstu áfanga á sínum ferli, m.a. hvað taka ætti við í stöðunni á þinginu. Að þeir sorteruðu það með einhverjum hætti hvernig þeir ætluðu að haga sér á næstunni, hvað ætti nú að taka við í lífi Framsóknarflokksins og áhrifum hans í íslenskum stjórnmálum.

Frumvarpið um Ríkisútvarpið hið síðara, sem við ræðum hér, er annað í röðinni af frumvörpum núverandi ríkisstjórnar um Ríkisútvarpið. Það er eitt af því sem framsóknarmenn hafa verið gagnrýndir hvað mest fyrir. Þeir hafa verið gagnrýndir fyrir að hafa í fyrsta lagi skipt um stefnu í málinu frá því fyrir nokkrum árum — meðal þeirra er reyndar ekki einhugur um hvort þau stefnuskipti hafi farið fram eða hvort menn eru með því að styðja frumvarpið beinlínis að ganga þvert á þá stefnu sem Framsóknarflokkurinn teljist hafa. Ég ætla ekki að skipta mér af því hvor túlkunin er rétt í þessu. En ég tek eftir að hv. þm. Dagný Jónsdóttir annars vegar og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson eru ekki sammála um þetta.

Það væri ekkert óeðlilegt að framsóknarmenn óskuðu eftir að fara hægar í sakirnar í þessu máli, skoða það betur, láta það liggja eða að minnsta kosti taka það fyrir síðar á þinginu þegar ljóst væri um framgang annarra þingmála og þegar þeir sjálfir væru búnir að litast aðeins betur um í þeirri þoku, sem er nú að létta, sem er yfir hinu pólitíska landi eftir kosningarnar.

Frumvarpið sjálft er líka þannig statt, í upphafi illa smíðað og illa hugsað, að full ástæða er til að athuga það betur. Það er full ástæða fyrir Framsóknarflokkinn að reyna að skapa breiða pólitíska sátt um það svo að þeir standi ekki í eldlínunni, skotlínunni, sem ábyrgðarmenn á þessari útgáfu. Það er full ástæða til að reyna að sýna að þeir hafi raunverulegan áhuga á Ríkisútvarpinu í þjóðareign, í almannaþjónustu, með því að eiga frumkvæði að því að þetta mál verði skoðað betur. Því hvorki framsóknarmenn, flokksmennirnir, stuðningsmennirnir, né áhugamenn um stjórnmál skilja hvernig stendur á eftirgjöf Framsóknarflokksins í málinu. Skilja ekki umsnúning þeirra frá andstöðu við hlutafélagið og stuðning við þjóðarútvarpið yfir í — sem kom reyndar fram í yfirlýsingum um að það ætti að vera í sjálfseignarstofnunarformi, svipað og við í Samfylkingunni höfum lýst yfir — stuðninginn við það frumvarp í nokkrum gerðum sem hér hefur liðið fram og aftur um þingið.

Enn má nefna að einhverjir framsóknarmenn hafa í kjölfar ósigurs í sveitarstjórnarkosningunum lagt áherslu á einingu innan flokksins. Ég las grein eftir fyrrverandi þingmann í Fréttablaðinu, þingmann sem enn þá virðist vera í góðu sambandi við forustumenn flokksins og vitnar gjarnan til þess hversu hlýr vinur hann sé formanns flokksins. En ég tek eftir að það er engin eining í þingflokknum í þessu máli. Það er ekki einhugur í afstöðu framsóknarmanna í þessu máli. Þess er skemmst að minnast að í atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. greiddi einn af þingmönnum flokksins, Kristinn H. Gunnarsson, atkvæði gegn hlutafélagsgreininni í atkvæðagreiðslu sem þá fór fram. Ég hygg að hann eigi sér meira fylgi en fram kom í fyrri atkvæðagreiðslu innan Framsóknarflokksins.

Þetta hefur ekki orðið og önnur tíðindi af Framsóknarflokknum og athöfnum hans síðustu daga benda til þess að viðbrögð framsóknarmanna við kosningaósigrinum séu þau að halda áfram á sömu braut, að halda áfram þeirri harðlínustefnu sem Halldór Ásgrímsson, nú hæstv. forsætisráðherra, hefur haldið að flokknum. Nú skuli öll áhersla lögð á að halda Framsóknarflokknum í stjórnarsamstarfinu og stjórnarsamstarfinu áfram í kringum formanninn, hæstv. forsætisráðherra sem nú er. Mynduð er ný stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Reykjavík, raunar minnihlutastjórn sem er athyglisvert. Hún hefur sem sé minni hluta atkvæða í Reykjavík á bak við sig. Aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar hefur verið lánaður íhaldinu sem áttundi maður þess, þvert á tal í kosningabaráttunni um annað. Það er barið í bresti stjórnarliðsins í Valgerðarlönguvitleysunni eins og hér var rætt undir liðnum um störf þingsins áðan. Og síðan er frumvarpið um Ríkisútvarpið fyrst á dagskrá þessa sumarþings. Það er sem sé allt eins og var. Ekkert hefur gerst hjá Framsóknarflokknum. Hann ætlar að taka ósigrinum í kosningunum með því að læra ekki neitt af honum.

Það bendir til þess að viðbrögð Framsóknarflokksins við þessum kosningaósigri verði þau sem andstæðingar hans geta út af fyrir sig glaðst yfir. Þeir sem þannig hugsa. Að hann ætli sér ekki að endurskoða sína hugmyndafræðilegu afstöðu eða breyta um áherslur gagnvart kjósendum sínum væntanlegum og fyrrverandi. Hann ætli sér ekki að vinna aftur þær lendur félagshyggjumanna og samvinnumanna, ef það orð má nefna, sem hann áður hafði og eru vissulega sterkar í þeirri hefð sem einu sinni var við Framsóknarflokkinn kennd. Heldur ætli Halldór Ásgrímsson, hæstv. forsætisráðherra, og félagar hans í forustu Framsóknarflokksins að halda áfram stefnu sinni um flokkinn og erindi hans í íslenskum stjórnmálum, að hann sé svona vinnumiðlun og bitlingabanki og geti með þeim hætti komið saman sínum eilífu 6% sem nægi til þess, eins og Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur sagði einhvern tíma: Það er sama hvern menn kjósa, alltaf sprettur Finnur Ingólfsson upp úr kjörkassanum.

Ég vil nú þrátt fyrir þessi orð biðja framsóknarmenn og reyndar almenna þingmenn Sjálfstæðisflokksins að hugsa málið að nýju, þó við höfum hafið hér 3. umr. um þetta vonda frumvarp. Ég vil lýsa því yfir að tilboð okkar frá því í apríl stendur enn um að setjast yfir málið í nefnd í sumar og reyna þar til þrautar að skapa sátt og samkomulag um nýtt frumvarp til að leggja fram fyrir árslok hér í þinginu. Það tilboð stendur enn.

Menn muna, forseti, hvernig þessu máli lauk hér fyrir þá þingfrestun sem ákveðin var í fyrstu viku maí. Eftir langa 2. umr. tókst samkomulag um að ljúka henni og setja málið aftur til nefndar milli 2. og 3. umr.

Menn muna, forseti, hvernig þessu máli lauk fyrir þingfrestun sem ákveðin var í fyrstu viku maí. Það tókst eftir langa 2. umr. samkomulag um að ljúka henni og setja málið aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. Samkomulagið var í sjálfu sér viðurkenning á því sem við stjórnarandstæðingar héldum fram, að málið væri ófrágengið og ókannað í mikilvægum atriðum. Það var kastað höndum til sjálfs frumvarpsins og hefðbundnu nefndarstarfi eftir 1. umr. var ekki gefið það svigrúm sem eðlilegt var þótt það skuli viðurkennt að þar var, sérstaklega á fyrri stigum, lögð töluverð vinna í að fara yfir umsagnir og taka á móti gestum. Þetta svigrúm gafst ekki vegna þess að hæstv. menntamálaráðherra og flokkur hennar þrýstu á og heimtuðu að málið yrði tekið út úr nefndinni í hvaða ásigkomulagi sem það væri. Allt kapp var lagt á að málið þyrfti að klárast á þessu þingi. Meiri hluti nefndarinnar og formaður hennar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, gerðu það með þeim hætti sem frægur varð á þinginu sem leiddi til þess sem alltaf gerist þegar svo háttar að svigrúm og tími er ekki veittur í nefndarstarfinu sjálfu. Sá tími var tekinn út í þingsalnum og öðrum þingmönnum en nefndarmönnum gert það rúmrusk að nefndarstörfin færast í raun í ræðustól þingsins. Þetta er óheppilegt og við bentum á að þetta væri óheppilegt. En sem betur fer var það viðurkennt að lokum með því að senda málið aftur til nefndar.

Við ákváðum, þegar þetta samkomulag hafði verið gert og fyrir dyrum stóðu fundir í nefndinni milli 2. og 3. umr., að láta reyna á það hver hugur fylgdi máli um þetta samkomulag, hvort stjórnarliðar væru í alvöru tilbúnir að vinna skaplega að málinu og skoða alla þess parta, leita um málið einhvers konar sáttar eða samkomulags. Þess vegna skrifuðum við bréf til formanns nefndarinnar sem dagsett er 24. apríl.

Í því bréfi, fyrir utan ávarpsorð, lýsum við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í menntamálanefnd því að við setjum fram boð um verklag sem gæti leitt til samstöðu milli stjórnmálaflokkanna og sátta í samfélaginu um framtíð Ríkisútvarpsins, eins og þar segir. Við lýsum síðan þessu boði, með leyfi forseta:

„1. Frumvarpið verði ekki afgreitt á þessu þingi en strax að því loknu sett niður nefnd með fulltrúum allra flokka með það að markmiði að ljúka lagasetningu fyrir áramót.

2. Í störfum sínum kanni nefndin sérstaklega að Ríkisútvarpið verði gert að sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri. Í frumvarpinu verði þess gætt að halda sem allra flestum kostum hlutafélagsformsins fyrir Ríkisútvarpið sem almannaútvarp en sniðnir af helstu ókostir þess.“

Þetta boð gengur út á að menn setjist niður í alvöru við tiltekið verkefni og athugi heiðarlega og í einlægni hvort hægt sé að ná málamiðlun um sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri miðað við þær forsendur sem stjórnarliðar hafa lýst, að að baki tillögum þeirra um hlutafélagsform liggi það að hlutafélagsformið sé beinlínis heppilegt fyrir Ríkisútvarpið. Við höfum efast um það en lýstum okkur tilbúin til að ganga rækilega á þann lista sem stjórnarsinnar settu fram um kosti hlutafélagsformsins og athuga hvort ekki væri hægt að koma þeim fyrir í formi sjálfseignarstofnunar í atvinnurekstri.

Ég held áfram. Þriðji liður þessa boðs um sameiginlega vinnu í sumar og haust að nýju frumvarpi var svona, með leyfi forseta:

„3. Nefndin ræði einnig margvíslegar ábendingar um úrbætur á fyrirliggjandi frumvarpi, þar á meðal:

a) Um 3. gr. frumvarpsins um hlutverk og skyldur. Rætt verði hvort þessi skilgreining er ekki of víð í heild og hvort hún nær nógu langt sem leiðbeining um dagskrá almannaútvarps, m.a. í ljósi Evrópuréttar og tilmæla Evrópuráðsins.

b) Um stjórnarhætti samkvæmt III. kafla frumvarpsins þar sem m.a. verði rætt um fyrirkomulag með stjórn annars vegar og eftirlitsráði (t.d. „akademíu“) um fyrirkomulag þar sem ekki myndast sjálfkrafa ríkisstjórnarmeirihluti í stjórn um stöðu útvarpsstjóra gagnvart stjórn og fleira.

c) Um almenna starfsemi samkvæmt 4. gr. frumvarpsins þar sem slík starfsemi sé skilgreind betur“ — hér er átt við samkeppnisreksturinn — „og m.a. gert ljóst hvort heimild til hennar taki til útsendingar útvarps- eða sjónvarpsdagskrár í hagnaðarskyni eingöngu, sjálfstætt eða í samvinnu við aðra.

d) Um réttindi starfsmanna, bæði þau sem að lögum fara og þau sem um skal samið.

e) Um stöðu safnefnis RÚV sem samkvæmt breytingartillögum meiri hlutans á að færa yfir í samkeppnisrekstrarhluta fyrirtækisins.“ — Þarna er átt við breytingartillögu sem samþykkt var við lok 2. umr.

„f) Um fjármögnunarleiðir samkvæmt IV. kafla frumvarpsins þar sem rætt verði í alvöru um fleiri fjármögnunarleiðir en nefskatt, þar á meðal“ — ég vek athygli á þessu, forseti — „hvort hugmyndir um tengsl við persónuafslátt eru raunhæfar og um það hvort heppilegt er að takmarka tekjur af auglýsingum og kostun með einhverjum hætti.

g) Um eiginfjárstöðu hins nýja fyrirtækis og æskilega upphæð stofnfjár.

h) Um heimild til að selja eignir úr fyrirtækinu, sbr. 1. gr.“

Þetta var, forseti, sú dagskrá sem við gerðum tillögu um fyrir nefndina sem færi yfir málin í sumar og reyndi að komast að samkomulagi um nýtt frumvarp eða endurbætt eftir atvikum. Að mínu viti hefði það ekki útilokað að ræða ýmislegt fleira en þetta töldum við brýnast.

Bréfið heldur svo þannig áfram, vegna þess að við gerðum ráð fyrir því að hægt væri að nota þetta hlé, fundi menntamálanefndar, til þess að hefja starfið svona, með leyfi forseta:

„Við leggjum til að á fundum menntamálanefndar um Ríkisútvarpið á næstunni verði starfið í sumar undirbúið með þessari dagskrá a.m.k.:

1. Leitað verði umsagnar fjölmiðlaskrifstofu Evrópuráðsins um frumvarpið.

2. Fulltrúar Ríkisendurskoðunar og Samkeppniseftirlits verði kallaðir fyrir nefndina í ljósi bréfaskipta við ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, samanber einkum bréf ESA frá 20. janúar.“

Ég held reyndar að þar sé átt við bréf frá 30. janúar en þessi dagsetning hefur verið nokkuð á reiki í þingsalnum. Ég tel að það sé 30. janúar þótt ég muni það ekki örugglega en það er auðvelt að komast að því.

„3. Fulltrúi menntamálaráðherra leggi fram þann „samanburð á sjálfseignarstofnun og hlutafélagi“ sem minnst er á í greinargerð með frumvarpinu í lið 3 í almennum athugasemdum. Óskað verði eftir fulltrúum sjálfseignarstofnana í atvinnurekstri á fund nefndarinnar, t.d. Verslunarskólans og Viðskiptaháskólans á Bifröst.

4. Fulltrúum frá BSRB og BHM verði boðið á fund nefndarinnar í ljósi óánægju á Ríkisútvarpinu með réttindamál. Til fundar verði boðaður fulltrúi frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins til þess að skýra ákveðin atriði réttindamálanna, m.a. biðlaun og 95 ára reglu.

5. Samanburður verði gerður á starfskjörum starfsmanna Ríkisútvarpsins nú og starfskjörum samkvæmt frumvarpinu, sérstaklega hvort breytingar á lífeyrisrétti og biðlaunarétti í frumvarpinu feli í sér skerðingu á stjórnarskrárvörðum eignarrétti.

6. Fulltrúar fjármálaráðherra og menntamálaráðherra geri grein fyrir væntanlegri eiginfjárstöðu fyrirtækisins eftir lög um breytingu á rekstrarformi þess.

7. Eignaskrá fyrirtækisins verði lögð fram og sérstaklega greint frá helstu menningarlegu verðmætum í eigu eða vörslu Ríkisútvarpsins.

8. Farið verði yfir réttarstöðu dagskrárefnis sem Ríkisútvarpið á í félagi við aðra og þá samninga svo sem höfundaréttarsamninga sem Ríkisútvarpið hefur gert um dagskrárefni. Sérstaklega verði kannað hvort Ríkisútvarpið hefur heimild til að framselja efni sem bundið er höfundarétti til sjálfstæðs lögaðila, hlutafélags í samkeppnisrekstri. Fulltrúi Ríkisútvarpsins með sérþekkingu á safnaefninu verði kallaður til fundar og einnig fulltrúar rétthafa og nefndir þar tilteknir lögmenn.“

Hér lýkur þessu bréfi. En eins og greina má af lestri þess settum við annars vegar fram dagskrá nefndarinnar í sumar og hins vegar hvað þyrfti að taka til beinnar athugunar í nefndinni eftir 2. umr. þar sem eðlilegt væri að nefndin kláraði verk sitt frá fyrri nefndarstörfum. Það var þessi seinni liður. Þetta tvennt skarast að vísu efnislega en í raun má sjá að við settum upp dagskrá nefndarstarfanna milli 2. og 3. umr. Það verður að segja meiri hluta nefndarinnar og hv. formanni hennar til hróss að á margan hátt var farið eftir þessari dagskrá. Ég harma það þegar það var ekki gert en á margan hátt var það gert. Ég segi til hróss, og auðvitað lýsir það sérkennilegri stöðu okkar hér á Alþingi, að hrósa meiri hluta nefndar og formanni hennar fyrir sjálfsagða hluti, þ.e. að klára meðferð máls með því að kalla á tiltekna aðila sem legið hafði fyrir að kæmi málið við. Margir hafa komið á fund nefndarinnar og af því orðið árangur, mál hafa auðvitað skýrst og sum af þeim eru í þokkalegu lagi miðað við það sem til stóð. En þetta átti að gerast í fyrri störfum nefndarinnar. Annað er svo óljóst, hefur ýmist ekki verið tekið til athugunar í nefndinni eða ekkert gert með það. Þar nefni ég sérstaklega réttindi starfsmanna.

Forseti. Þessu tilboði var, eins og allir vita sem hafa fylgst með málinu, hafnað á fyrsta eða öðrum fundi nefndarinnar milli 2. og 3. umr. Ég man ekki á hvorum fundinum það var. Við skýrðum strax frá því í þingsalnum og hörmuðum á sínum tíma. Ég harma í raun enn að það skyldi hafa farið svo en ítreka að þetta boð okkar stendur. Við erum tilbúin að hætta þessari umræðu og setjast í staðinn í nefnd allra stjórnmálaflokka í sumar sem fari yfir málið. Það ætti að vera enn betri kostur fyrir stjórnarliða en hann var 24. apríl og næstu dægur þar á eftir. Síðan þetta boð kom fram hefur enn ein og mikilvæg ástæða skapast til að menn skoði málið í rólegheitum frá öllum sjónarmiðum á ný, þ.e. fjölmiðlafrumvarpið sem lagt var fram á þinginu og þær efasemdir sem vöknuðu um samhengi þess og RÚV-frumvarpsins við stjórnarskrá.

Nú hafa tíðindi sem ekki beinlínis tengjast Ríkisútvarpinu, þingfrestunin sem varð og sá tími sem síðan hefur liðið, gefið okkur tækifæri til að fara yfir þetta mál allt saman í sumar og reyna að komast að samkomulagi um fjölmiðlamálin í heild sinni. En það hefur verið galli síðan ríkisstjórnin varð afturreka með hið vitlausa, eða á ég að segja hið algjörlega galna fjölmiðlafrumvarp sitt frá því um árið, að menn skuli ekki hafa getað rætt Ríkisútvarpið og fjölmiðlavettvanginn í heild á sama hátt. Það hefur í raun aldrei komið fram nein skýring á því af hálfu menntamálaráðherra eða stjórnarliða af hverju svo háttaði til. Hins vegar vekur furðu og um það skapast merkilegar samsæriskenningar, og ef þær eru ekki réttar þá eru þær að minnsta kosti algjörlega sanngjarnar vegna þess að svona eiga menn ekki að vinna málin. Það hlýtur að vekja tortryggni þegar menn gera það.

Ég vil segja að auki áður en ég kem að framhaldsnefndaráliti okkar stjórnarandstæðinga í menntamálanefnd að auðvitað gafst ekki mikill tími til nefndarstarfsins milli 2. og 3. umr. Meiri hlutinn lagði áherslu á að því nefndarstarfi yrði hraðað. Það var vissulega, eins og kom fram hjá hv. formanni nefndarinnar í framsöguræðu hans áðan, mikið unnið og starfið var gagnlegt. En það þurfti að koma því aftur inn í þingið til 3. umr. og til samþykktar. Það var enn mikil dagskipan frá menntamálaráðherra og frá forustu stjórnarflokkanna. Málið hefði svo sannarlega þurft að fá í nefndinni betri málsmeðferð og yfirlegu eins og ég kem að á eftir.

Það sem má þó segja um nefndarstarfið er að auðvitað kom í ljós, sem við höfðum haldið fram, að full ástæða var til að vísa málinu aftur til nefndarinnar. Nefndin vann mikið verk, miklu meira verk en nokkur maður hefði getað búist við milli 2. og 3. umr. eftir þau störf sem farið höfðu fram við hina hefðbundnu umfjöllun nefndarinnar. Það sýnir og sannar það sem við sögðum að störf nefndarinnar voru ekki kláruð og frumvarpið sjálft var búið þannig úr garði að það er illbætanlegt.

Í nefndinni voru kláraðir sjálfsagðir verkþættir sem höfðu orðið útundan í látunum hjá meiri hlutanum í fyrra skiptið og skoðuð ný atriði sem ekki hafði gefist ráðrúm til að fara í áður. En það var líka ýmislegt látið eiga sig sem við báðum um að yrði farið yfir og sem við töldum brýnt og teljum enn brýnt að fjalla betur um, eða fjalla um því sumt hefur ekki verið rannsakað í þessu máli. Ég nefni sérstaklega mikilvæg atriði eins og réttarstaða frumvarpsins, ef að lögum verður, gagnvart EES-samningnum og samræmi frumvarpsins og þeirrar skipanar sem ríkisstjórnarflokkarnir ætla sér við tilmæli Evrópuráðsins um almannaútvarp. Það sýnir kannski skýrast hver þörf var á þessu starfi nefndarinnar milli 2. og 3. umr. að meiri hlutinn sem kvaðst í 2. umr. fullkomlega sáttur við frumvarpið, allir saman, voða gaman, flytur nú einar fjórar breytingartillögur. Þar af er ein mjög mikilsverð breytingartillaga úr smiðju okkar í stjórnarandstöðunni þar sem meiri hlutinn kemur til móts við, og hafi heiður af því þann sem honum ber, eina af helstu gagnrýnisrökum okkar gegn frumvarpinu um að upplýsingalög gildi um starfsemi Ríkisútvarpsins. Um hinar má segja að þær eru að minnsta kosti ekki skaðlegar og sennilega til bóta að mestu.

Því miður dugir þessi bútasaumur ekki til. En tillöguflutningur meiri hlutans bendir kannski til þess sem hefði getað orðið ef við hefðum fengið frá upphafi að vinna þetta mál í friði milli stjórnmálaflokkanna allra og gæti enn orðið ef stjórnarliðar íhuga málið betur og taka tilboði okkar um þverpólitíska vinnu í málinu í sumar með samráði við starfsmenn Ríkisútvarpsins, aðra fjölmiðlamenn, fræðimenn og með tilliti til sjónarmiða alls staðar að úr samfélaginu og rannsókn á því hvernig málum er fyrirkomið erlendis, þar á meðal gagnvart Evrópurétti og tilmælum Evrópuráðs. En þótt full þörf hafi verið á nefndarstarfi eftir 2. umr. er niðurstaðan því miður sú í heildina að málsmeðferð og rannsókn menntamálanefndar er áfátt í málinu, sem þó varðar einhverja mikilvægustu menningar- og lýðræðisstofnun í samfélaginu.

Ég ætla, forseti, eftir þennan inngang að lesa texta framhaldsnefndarálitsins eins og mér ber að gera sem framsögumanni minni hluta menntamálanefndar í málinu.

Frá því stjórnarflokkarnir settu sér að breyta lögunum um Ríkisútvarpið hafa vinnubrögð verið á eina lund. Frumvarpstextar hafa verið undirbúnir í leynd hjá sérstökum trúnaðarmönnum flokkanna og upplýsingum haldið frá almenningi, fjölmiðlum, starfsmönnum Ríkisútvarpsins og þingmönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Í stað þess að efna til almennrar umræðu um Ríkisútvarpið og reyna að ná sem víðtækastri samstöðu um framtíðarskipan þess hafa forustumenn stjórnarflokkanna sammælst um tillögur sem einkennast annars vegar af kreddu og hins vegar hrossakaupum, án þess að vart verði grundvallarstefnu um hlutverk Ríkisútvarpsins og stöðu þess á fjölmiðlavettvangi.

Það frumvarp um Ríkisútvarpið hf. sem lagt var fram í desember er haldið alvarlegum göllum. Þessir ágallar varða meðal annars stjórnarskrá og Evrópurétt, hlutverk Ríkisútvarpsins og skil almannaútvarps og samkeppnisrekstrar, flokkspólitísk ítök og inngrip, menningararfleifð í söfnum Ríkisútvarpsins og aðgang að safnefni þess, réttindi starfsmanna, þar á meðal stjórnarskrárvarin eignarréttindi, virðingu gagnvart höfundarétti, framtíð Rásar tvö, fjárhagsgrunn Ríkisútvarpsins, vægi auglýsinga og kostunar í heildartekjum þess, nefskatt sem fjármögnunarleið, og nú síðast samhengi við nýtt fjölmiðlafrumvarp sem unnið var að algerlega óháð væntanlegum breytingum á Ríkisútvarpinu. Þessum alvarlegu annmörkum og ýmsum fleiri hafa stjórnarandstæðingar gert ítarleg skil og stutt sjónarmið sín fram komnum gögnum afstöðu sérfræðinga.

Þótt stjórnarmeirihlutinn hafi nú breytt upphaflegu frumvarpi fjórum sinnum (við lok þingstarfa síðasta vetur, í sumar þegar sameignarformið vék fyrir háeffun, við lok 2. umr. með breytingartillögum meiri hluta menntamálanefndar og nú enn með breytingartillögum við 3. umr.) er ólíklegt að friður skapist um rekstur Ríkisútvarpsins verði frumvarpið að lögum, hvorki meðal almennings, annarra útvarpsstöðva, milli stjórnmálaflokkanna eða gagnvart Evrópureglum, að ógleymdum nýframkomnum efasemdum sem þá voru um stöðu fyrirhugaðrar fjölmiðlalöggjafar gagnvart stjórnarskránni.

Störf menntamálanefndar að frumvarpinu eftir 2. umr. sýndu skýrt að málið var tekið vanbúið úr nefndinni áður en sú umræða hófst. Við meðferð málsins nú hafa nokkur atriði í frumvarpinu og í tengslum við það skýrst en önnur álitamál komið í ljós. Langt er í frá að svör hafi fengist við brýnum spurningum sem meðal annars varða tengsl við stjórnarskrá og Evrópurétt. Þá hefur ekkert þokast við að bæta úr óljósri skiptingu á starfsemi fyrirtækisins í almannaútvarp og samkeppnisrekstur, stjórnarháttum sem ýta undir flokkspólitísk ítök og inngrip, uppnámi um meðferð safneignar Ríkisútvarpsins og ófullnægjandi ákvæðum um réttindamál starfsmanna.

Um hið síðastnefnda er skylt að vekja athygli á því að nefndinni bárust nýjar umsagnir frá BSRB, BHM og Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þar sem fram koma veigamikil rök fyrir því að með frumvarpinu sé brotið gegn stjórnarskrárvörðum eignarréttindum starfsmanna, þ.e. lífeyrisréttindum þeirra og biðlaunum, auk þess sem starfsöryggi þeirra og starfskjör séu alvarlega skert. Meiri hluti nefndarinnar ákvað að sinna þessu ekki, þrátt fyrir beinar breytingartillögur sem frá samtökunum bárust.

Meiri hluti nefndarinnar hefur nú ákveðið að leggja fram nokkrar breytingartillögur, sem allar eiga rót að rekja til gagnrýni stjórnarandstæðinga. Ein þeirra varðar upplýsingalög sem ná eiga yfir Ríkisútvarpið að tillögu minni hlutans sem hefur frá upphafi lagt áherslu á að þau giltu um starfsemi RÚV óháð rekstrarformi. Aðrir gallar hlutafélagsformsins standa hins vegar eftir.

Öðrum breytingartillögum meiri hlutans er ætlað að lappa upp á frumvarpið og mæta í einhverju mikilli gagnrýni á einstaka þætti þess. Þær leysa þó ekki vandann sem við er að fást í hverju tilviki. Tillagan um safnefni kann vissulega að koma í veg fyrir að helstu dýrmæti Ríkisútvarpsins séu seld en gefur þó í engu svör við spurningum um stöðu safnefnisins, svo sem um vörslu þess, rækt sem því beri að sýna, aðgang annarra en RÚV hf. að því, notkun þess í samkeppnisrekstri og hvort með þessum heimanmundi felist brot á samkeppnisreglum. Tillögunni um þjónustusamning við menntamálaráðherra er ætlað að lögfesta þátt í skipulagi Ríkisútvarpsins sem áður var ekki minnst á í frumvarpinu og ekki heldur í athugasemdunum en mátti lesa út úr bréfi frá ESA til fjármálaráðuneytisins 30. janúar þessa árs. Slík efnisatriði ber vissulega að leiða í lög þannig að þau séu ekki komin undir duttlungum handhafa framkvæmdarvaldsins. Hins vegar er ljóst að með tillögunni er ekki ætlunin að tempra þau miklu völd sem menntamálaráðherra hefur með þessum hætti um dagskrárefni Ríkisútvarpsins, t.d. með því að eftirlitsráði væri falið að fara yfir slíkan samning.

Ein tillagna meiri hlutans á ættir að rekja til nýs fjölmiðlafrumvarps sem menntamálaráðherra kynnti og lét útbýta á Alþingi meðan á störfum menntamálanefndar stóð eftir 2. umr. Í því frumvarpi eru sérstök ákvæði sem eiga að takmarka eignarhald á fjölmiðlum. Síðan segir að þau ákvæði eigi ekki við um Ríkisútvarpið, og að Ríkisútvarpið skuli ekki eiga hlut í félögum sem reka útvarp og gefa út dagblað. Er skynugt hjá meiri hlutanum að taka mark á ábendingum um að slík ákvæði eigi betur heima í lögum um Ríkisútvarpið en í almennum lögum. Á hinn bóginn komu fram alvarlegar athugasemdir frá lögfræðingum, m.a. Sigurði Líndal, um þennan kafla fjölmiðlafrumvarpsins. Talin var hætta á að hann bryti í bága við stjórnarskrá, og í bréfi frá Dagsbrún hf. er efast um að ákvæðin standist samkeppnisreglur EES-samningsins. Minni hluti menntamálanefndar óskaði því eftir að sérstaklega væri farið yfir þessi álitamál. Voru kallaðir til tveir lögfræðingar til umræðu um RÚV-ákvæðin og stjórnarskrána, Sigurður Líndal og Páll Hreinsson, annar aðalhöfunda fjölmiðlafrumvarpsins. Sigurður hvatti til þess að vandað yrði til verka, frumvörpin yrðu samlesin og samhæfð, og benti meðal annars á að í greininni í fjölmiðlafrumvarpinu væru ekki taldar allar fjölmiðlunarleiðir. Hjá Páli kom fram að forsenda fyrir þessum ákvæðum um RÚV í fjölmiðlafrumvarpinu væri að Ríkisútvarpið teldist almannaútvarp. Höfundarnir hefðu við vinnu sína að fjölmiðlafrumvarpinu ekki haft neina hliðsjón af frumvarpstextum um Ríkisútvarpið enda beinlínis verið sagt að Ríkisútvarpið væri utan verksviðs þeirra. Er því ljóst að ekki var af hálfu menntamálaráðherra hugsað fyrir samræmi milli fjölmiðlafrumvarpsins og RÚV-frumvarpsins, og hefur því skapast óvissa um stöðu frumvarpanna hvors gagnvart öðru annars vegar og hins vegar beggja saman gagnvart stjórnarskrá og Evrópurétti. Óskum minni hlutans um frekari könnun á stöðu frumvarpanna gagnvart Evrópurétti og stjórnarskrá var hafnað. Þá var ekki nú fremur en við fyrri umfjöllun menntamálanefndar sinnt óskum minni hlutans um að bera RÚV-frumvarpið saman við samþykktir og tilmæli Evrópuráðsins um almannaútvarp frá 1994 og 1996.

Af þessu tilefni er rétt — segir, forseti, í framhaldsnefndaráliti okkar stjórnarandstæðinga í menntamálanefnd — að minna á bókun sem fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins í fjölmiðlanefndinni síðari lögðu fram þegar hún skilaði af sér 7. apríl í fyrra. „Við erum þeirrar skoðunar,“ sögðu fulltrúarnir m.a., „að mikilvægt sé að ná sátt um samræmda heildarsýn fyrir íslenska fjölmiðla sem taki bæði til Ríkisútvarpsins og einkarekinna fjölmiðla. Slíkt er einungis mögulegt ef vinnan við lagasetningu um Ríkisútvarpið fer fram samhliða vinnunni við hina almennu löggjöf.“ Það var enn fremur mat þeirra að slík sátt næðist aðeins með því að „tryggja faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins gagnvart stjórnvöldum og varðveita það traust sem ríkir á milli stofnunarinnar og eigenda hennar, þ.e. þjóðarinnar“. Fulltrúar flokkanna þriggja lýstu því að lokum að þeir skrifuðu undir hina sameiginlegu skýrslu fjölmiðlanefndarinnar í því trausti „að ásættanleg niðurstaða [næðist] um framtíðarskipan Ríkisútvarpsins“.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar í menntamálanefnd — segir áfram í nefndarálitinu — hafa unnið að frumvörpunum um Ríkisútvarpið með sömu markmið að leiðarljósi og fulltrúar flokkanna í fjölmiðlanefndinni lýsa í bókun sinni. Eftir að samkomulag tókst um að ljúka 2. umr. um frumvarpið sendu fulltrúar stjórnarandstöðunnar formanni menntamálanefndar því bréf, dags. 24. apríl 2006, þar sem lagðar voru fram tillögur um framhaldsvinnu við málið. Í bréfinu var að höfðu samráði við forustumenn flokkanna tveggja sett fram boð um verklag „sem leitt gæti til samstöðu milli stjórnmálaflokkanna og sátta í samfélaginu um framtíð Ríkisútvarpsins“ og var þar gert ráð fyrir því að frumvarpið yrði ekki afgreitt á þessu þingi en strax að því loknu sett niður nefnd með fulltrúum allra flokka með það að markmiði að ljúka lagasetningu fyrir áramót. Lagt var til að þessi nefnd — um þetta fjallaði ég áðan, forseti, en held mig samt við texta þessa framhaldsnefndarálits — kannaði sérstaklega þann möguleika að Ríkisútvarpið yrði gert að sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri. Í frumvarpsdrögum nefndarinnar yrði þess gætt að halda sem allra flestum kostum hlutafélagsformsins fyrir Ríkisútvarpið sem almannaútvarp en sniðnir af helstu ókostir þess. Þá voru í bréfinu settar fram í átta liðum efnislegar ábendingar um úrbætur að öðru leyti frá frumvarpinu um Ríkisútvarpið hf., og í öðrum átta liðum tiltekin þau álitaefni sem brýnt væri að menntamálanefnd skoðaði strax þar sem málið hefði verið afgreitt vanbúið úr nefndinni til 2. umr. — Rétt er að taka fram að enginn samanburður hefur verið gerður á rekstri Ríkisútvarpsins með breytingum innan núverandi lagaramma og hlutafélagsforminu. Horft hefur verið fram hjá því að RÚV er nú B-hlutastofnun sem getur haft bæði fullt sjálfstæði og mikinn sveigjanleika. Óbreytt rekstrarform kemur í veg fyrir þau stjórnarskrárbrot sem kunna að felast í frumvarpinu og yrði síður bitbein í samkeppnisdeilum.

Á fyrsta fundi menntamálanefndar eftir 2. umr. hafnaði formaður menntamálanefndar þessu boði fyrir hönd stjórnarflokkanna. Minni hlutinn harmar þau viðbrögð. Frumvarpið um Ríkisútvarpið hefur mætt verulegri andstöðu utan þings og innan og í umfjöllun um það hefur verið bent á fjölmarga galla, stóra og smáa. Einmitt í sumar hefði gefist gott tækifæri til að fara yfir málið að nýju þar sem fram er komið hið nýja almenna frumvarp um fjölmiðla sem undirbúið var með allt öðrum hætti en frumvörpin um Ríkisútvarpið, sf. í fyrra og hf. nú, og hefði verið ákjósanlegt að sumarnefndin færi yfir bæði málin, í samræmi við bókunina frá 7. apríl 2005.

Stjórnarandstæðingar í menntamálanefnd lögðu til við 2. umr. að frumvarpinu yrði vísað frá. Sú tillaga var afturkölluð áður en til atkvæðagreiðslu kom í þeirri von að samstaða næðist um önnur vinnubrögð við framtíðarstefnu um Ríkisútvarpið en þangað til höfðu tíðkast. Það gekk ekki eftir. Því er nú flutt eftirfarandi tillaga:

Þar sem

a. fram hafa komið veigamiklar athugasemdir um að frumvarpið um Ríkisútvarpið og fjölmiðlafrumvarpið kunni að brjóta í bága við stjórnarskrá,

b. vafi leikur á um hvort ákvæði frumvarpsins standast reglur Evrópuréttar,

c. ekki er ljóst í frumvarpinu með hvaða hætti Ríkisútvarpið á að sinna hlutverki sínu sem almannaútvarp og hver eiga að vera skil milli starfssviðs þess og annarra útvarpsstöðva,

d. tillögur frumvarpsins um kjör stjórnar og ráðningu útvarpsstjóra eru ekki til þess fallnar að hefja fagleg sjónarmið til vegs og virðingar og losa Ríkisútvarpið undan flokkspólitískum ítökum,

e. ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir eftirlitsráði, t.d. í formi „akademíu“ með tilnefningum frá almannasamtökum, samanber m.a. leiðbeiningar Evrópuráðsins um verkaskiptingu stjórnar annars vegar og eftirlitsráðs hins vegar,

f. engin ákvæði frumvarpsins tryggja að innlent efni aukist í dagskrá Ríkisútvarpsins,

g. ákvæði í frumvarpinu um „a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá“ virðist ætlað að auðvelda afnám Rásar tvö,

h. ekki hefur í frumvarpinu eða í tengslum við það verið gengið með fullnægjandi hætti frá réttindamálum núverandi starfsmanna og óljóst er um starfskjör og samningamál í framtíðinni,

i. nefskattur sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu er ekki heppileg leið til fjármögnunar, byggist á árlegri ákvörðun þingmeirihluta og felur í sér mismunun milli gjaldenda,

j. fjárhagsleg staða hlutafélagsins sem frumvarpið gerir ráð fyrir er enn í óvissu og ráðgert hlutafé of lítið til að tryggja bærilegt upphaf Ríkisútvarpsins við nýjar aðstæður,

k. enn er óljóst um ráðstöfun þeirra verðmæta sem Ríkisútvarpið býr nú yfir í söfnum sínum og óljóst hvort og þá hvernig þau skuli nýta í samkeppnisrekstri,

l. við blasir að frumvarpið ylli, ef það verður að lögum, málaferlum bæði hérlendis og á EES-vettvangi,

m. og hvorki menntamálaráðherra né meiri hluti menntamálanefndar hafa reynt að ná samstöðu um framtíð Ríkisútvarpsins, sem er einhver helsta lýðræðis- og menningarstofnun í íslensku samfélagi — leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

Með vísan til framangreinds samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.

Þetta er frávísunartillaga okkar og framhaldsnefndarálit, forseti, sem ég nú hef lesið og lýsir afstöðu okkar stjórnarandstæðinga í menntamálanefnd til málsins á lokastigi þess. Það skal tekið fram að nefndir voru tveir flokkar á einum stað í frumvarpinu. Það er vegna þess að stjórnarandstæðingar eiga ekki allir fulltrúa í nefndinni, þ.e. aðalfulltrúa. Frjálslyndi flokkurinn hefur þar áheyrnarfulltrúa. En ég tel að Frjálslyndi flokkurinn muni taka undir þetta nefndarálit að mestu enda á það sér m.a. bakgrunn í tillögu sem Frjálslyndi flokkurinn hefur sett fram um Ríkisútvarpið en það hafa allir stjórnarandstöðuflokkarnir gert. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sett fram sérstakt frumvarp um Ríkisútvarpið bæði nú á þessu þingi og hinu fyrra þingi, Frjálslyndi flokkurinn þingsályktunartillögu sem flutt hefur verið í fjögur eða fimm ár og er um margt ágæt tillaga, knöpp en ýmsar góðar ábendingar og hugmyndir í henni. Og við í Samfylkingunni settum fram í fyrra tillögu til þingsályktunar um Ríkisútvarpið sem almannaútvarp sem ég hvet þingmenn og aðra þá sem á mál mitt hlýða eða það lesa hér á skjá eða á blaði seinna meir, að kynna sér því að það er nokkuð ítarleg tillaga þar sem við förum ekki endilega yfir sérstakar tillögur okkar heldur yfir sviðið almennt og gerum grein fyrir því hver grundvöllur Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps þarf að vera og hvaða kostir koma til greina í því sambandi um nýsköpun Ríkisútvarpsins. Við bendum á þá kosti sem okkur líka best eða teljum helst koma til greina en erum reiðubúin að skoða ásamt öðrum stjórnmálaflokkum og öllum aðilum máls hverjir eru bestir og hverjir sístir og reyna að ná samkomulagi um þá.

Ég ætla í síðari hluta ræðu minnar að fara yfir nokkra þætti, þá sem ég hef þegar nefnt og farið var yfir í menntamálanefnd milli 2. og 3. umr. eða látið var eiga sig að fara yfir í þessari vinnu en eru þó þess eðlis að óhjákvæmilegt er að þeirra sé getið í þessari framsöguræðu. Ég læt hins vegar sumt liggja, annars vegar vegna þess að það hefur verið rætt í þaula áður og hins vegar vegna þess að ég veit að síðari ræðumenn af hálfu stjórnarandstöðunnar munu fjalla betur um það þegar að því kemur, þar á meðal er fjármögnunarkaflinn í heild. En þess verður þó að geta að hann var þrátt fyrir beiðni okkar ekki tekinn til neins konar umfjöllunar eða umræðu í nefndinni milli 2. og 3. umr. þrátt fyrir áleitnar umsagnir, m.a. af hálfu ríkisskattstjóra, um hann og ekkert gert með það tilboð okkar að meðal annarra hugmynda verði rædd, eins og ég sagði áðan, hugmynd um að koma honum fyrir í persónuafslætti, athyglisverð hugmynd sem þarf að kanna áður en menn ákveða þetta endanlega. Sú hugmynd er sprottin frá hv. þm. Pétri Blöndal, og er getið í þingskjölum í frumvarpi hans, og hinna hv. þingmanna Birgis Ármannssonar og Sigurðar Kára Kristjánssonar, formanns menntamálanefndar, en nefndur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur sem sé ekki séð ástæðu til þess að fjalla um þessa hugmynd sína, Péturs og Birgis þegar til stykkisins kom.

Það er, ef ég má bæta við, athyglisvert með skattapartinn af þessu frumvarpi að nefskatti hefur verið haldið fram bæði þingin með nokkuð einstrengingslegum hætti. Það hefur ekki verið reynt að veita neins konar málamiðlanir um þann part, það hefur ekkert verið gert með aðrar hugmyndir um fjármögnun þó leiðir hafi verið taldar upp í því efni, m.a. í tillögu okkar frá því í fyrra, sem ég nefndi áðan, þskj. 507, 400. mál á fyrra þingi. Við samfylkingarmenn höfum talað þannig um fjármögnunarleiðirnar að nefskatturinn sé vissulega ein sú versta en mönnum beri að skoða allar þessar leiðir, engin þeirra sé gallalaus og engin þeirra kannski algjörlega alvond, og höfum lagt til að í almennilegu starfi að þessum málum verði íhugað hvort fara eigi einhvers konar blandaða leið í þessu dæmi.

Það er svo enn sérkennilegt við nefskattstillögu hæstv. menntamálaráðherra og annarra stjórnarliða að þennan skatt á ekki að taka upp í tíð núverandi ríkisstjórnar heldur eru nefskatturinn og tilhögun hans skilin eftir handa næsta fjármálaráðherra. Það er svona eins konar gjöf Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, hæstv. menntamálaráðherra, og föruneytis hennar hér á þinginu til næstu ríkisstjórnar, hver sem hún nú verður, að hún á að drekka þann beiska bikar að sætta þjóðina við það að leysa útvarpsgjaldið af hólmi með nýjum nefskatti sem ekki er jafnaður nema að litlu leyti og kemur því illa niður á ýmsum hópum.

Ég hyggst heldur ekki ræða margt nú um auglýsingar og kostun sem fjármögnunarleið. Ég gerði ítarlega grein fyrir afstöðu okkar til auglýsinga og kostunar í ræðum á fyrra stigi málsins. Það er þrátt fyrir það grunnatriði, sérstaklega þegar kemur að því að hvaða leyti Ríkisútvarpið er almannaútvarp og að hvaða leyti það er í samkeppnisrekstri við aðrar stöðvar, og fjallar um stöðu þess á vettvangi.

Það gegnir reyndar aðeins öðru máli um auglýsingar og kostun en umræðuna um nefskattinn því ákveðnir þingmenn stjórnarliðsins hafa opnað augun við spurningum okkar og umræðum um auglýsingar og kostun. Þeir hafa þó ekki gengið svo langt að lýsa yfir neins konar stuðningi við þá tillögu okkar samfylkingarmanna að það verði skoðað að takmarka auglýsingar og kostun sem þátt í heildartekjum við eitthvert ákveðið hlutfall eða með öðrum hætti. En menn hafa ekki treyst sér til þess, hvorki menntamálaráðherra né meiri hluti nefndarinnar, að búa til breytingartillögur um eitthvað slíkt við þetta frumvarp. Það er auðvitað mál sem þyrfti með öðru að skoða miklu betur áður en menn tækju upp á því.

Ég ætla heldur ekki í þessum síðari hluta ræðu minnar að fara yfir það sem er að gerast í grannlöndum, sem er merkilegt fyrir okkur. En tækifæri kann að veitast til þess síðar í umræðunni að fara m.a. yfir breytingarnar hjá BBC og fyrirhugaðar breytingar í Svíþjóð. Ég vil þó vekja athygli á því nú þegar að við erum ekki ein um að vera að breyta lagaramma um almannaútvarp eða ríkisútvarp en það er hins vegar áberandi að bæði í Englandi, Svíþjóð og annars staðar þar sem þessi mál eru reifuð er það gert með allt öðrum hætti. Það er reynt að ná góðum sáttum milli stjórnmálaflokkanna, á fjölmiðlavettvangi og í samfélaginu almennt um þær breytingar sem gerðar eru og þeim er ætlaður ákveðinn ferill þar sem umræðu er gefið gott rúm og mark tekið á tillögum allra þeirra sem að þessu koma.

Ég ætla þá, forseti, að hefja þessa umfjöllun mína um nokkra einstaka þætti málsins. Ég sé að það er liðinn nærfellt klukkutími síðan ég sté í stólinn og kemur það nú á óvart. En það er svo um þetta mál, og lýsir því ágætlega, að jafnvel þó komið sé fram í 3. umr. er það afar yfirgripsmikið og margþætt og því miður ekki hægt að ræða það til hlítar á þeim 15 mínútum sem t.d. hv. þm. Pétur Blöndal hefur lýst yfir að hann hlusti, og mér fyndist í raun og veru ágætisregla. Mál af þessu tagi verða að taka sitt pláss og verða að fá sína umræðu. Hún á hins vegar að vera málefnaleg og efnisleg, ég tek undir það, og það á ekki að setja menn í þær stellingar að slík umræða verði þófkennd eða höfð uppi slagorð í henni. Þá skiptir miklu máli, forseti, af því að menn ræddu það mikið í 2 umr., hvernig farið er að annars vegar í stjórnun nefndarstarfs og hins vegar við stjórnun þingsins sjálfs. Ég verð að segja að ég er ýmsu vanur eftir þann stutta tíma sem ég hef setið á þinginu en ég er enn að hugsa, forseti sæll, um nóttina góðu þegar stjórnarmeirihlutinn og þeir forsetar hans sem hér stóðu í stólnum voru nánast að leika sér að því eins og í gagnfræðaskóla eða í sandkössunum að draga umræður langt fram eftir nóttu með ýmsum hætti. Mér þótti það ekki þinginu til sóma og mér þótti það ekki málinu til gagns að haga sér þannig. Ég vona, fyrst ég er kominn út í þetta, að þeir leikir verði ekki leiknir í 3. umr. um Ríkisútvarpið. Ég vona að menn fái að ræða þetta mál eins lengi og þeim sýnist og með þeim hætti sem þeim sýnist á skaplegum tíma. Ég er sannfærður um að ef forseti og félagar hans á forsetastóli hafa þetta í huga fást málefnalegri, betri og styttri umræður heldur en með þeim hætti að gera mönnum að tala fram á kvöld og fram á nætur.

Ég ætla fyrst að ræða örlítið þann nýja þátt málsins sem kom upp meðan menntamálanefnd var að störfum milli 2. og 3. umr., nefnilega efasemdir um að RÚV-frumvarpið og fjölmiðlafrumvarpið nýja stæðust stjórnarskrá. Menntamálaráðherra kynnti frumvarp til nýrra fjölmiðlalaga 24. apríl, daginn sem bréf okkar til formanns menntamálanefndar var skrifað. Í því frumvarpi eru sérstök ákvæði, eins og menn muna, um eignarhaldstakmarkanir, nánar tiltekið að enginn megi eiga meira en 25% í útvarps- og sjónvarpsstöð yfir ákveðinni markaðshlutdeild. Þetta eigum við eftir að ræða og ég ætla ekki að fara að hefja þá umræðu hér, aðeins segja að ég tel þetta veikleika í þessu frumvarpi og kannski sísta kafla þess að því leyti sem ég hef yfir það litið. Þetta ákvæði varð til þess að Sigurður Líndal lagaprófessor gagnrýndi það strax á þeim forsendum að það væri efasamt að það stæðist stjórnarskrá þar sem einn eigandi væri undantekinn, nefnilega ríkið sem mætti eiga 100% í Ríkisútvarpinu, og, samkvæmt þeim texta sem hann gagnrýndi út frá, mætti eiga hvað sem það vildi í öðrum stöðvum. Við þeirri gagnrýni var svo brugðist, að mér skilst, daginn sem frumvarpið var kynnt eða dægrin áður, með því að bæta inn í 4. gr. fjölmiðlafrumvarpsins ákvæði um að Ríkisútvarpið mætti ekki eiga hlut í öðrum fjölmiðlafyrirtækjum. Síðar gerði meiri hluti menntamálanefndar þetta að breytingartillögu við Ríkisútvarpsfrumvarpið, sem við ræðum hér, eins og ég nefndi áðan, sem er í sjálfu sér skynsamlegt, en sá tillöguflutningur segir hins vegar sína litlu sögu rétt einu sinni um fum, fát og flaustur á ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum í þessu máli. Á einum stað slá stjórnarliðar nauðugir viljugir mikla skjaldborg um þá útgáfu Ríkisútvarpsfrumvarpsins sem uppi er hverju sinni og á öðrum stað eru aðrir menn að semja reglur um Ríkisútvarpið sem hinir vita ekki um. Lausnin verður sem sé að lokum sú, sem auðvitað er skynsamlegt, að koma þeim reglum að minnsta kosti líka fyrir í frumvarpinu um Ríkisútvarpið.

Með þessu nýja ákvæði þóttust stjórnarliðar og hæstv. ráðherra, flutningsmaður málsins, vera búnir að afgreiða gagnrýni Sigurðar. Sigurður lét sig ekki við þetta og ítrekaði það í fjölmiðlum og á fundi menntamálanefndar að þótt nýja ákvæðið væri vissulega til bóta — tvímælalaust spor í rétta átt, held ég hann hafi sagt á fundinum í menntamálanefnd — yrði að athuga mjög vel þá fleti fjölmiðlafrumvarpsins og laga og frumvarpa um Ríkisútvarpið sem vörðuðu stjórnarskrá.

Sigurður minnti á að aðeins væri getið um tvær hefðbundnar fjölmiðlagerðir í ákvæðinu í fjölmiðlafrumvarpinu en t.d. ekkert fjallað um netmiðla. Aftur á móti er í frumvarpinu um Ríkisútvarpið einmitt gert ráð fyrir því að Ríkisútvarpið fái fulla og óskoraða heimild til að reka netmiðil eða netmiðla og þau ákvæði eru sett þar inn beinlínis vegna þess að ekki var talin lagaheimild fyrir því að Ríkisútvarpið ræki netmiðil sem væri í einhvers konar samkeppni í atvinnurekstri. Þess vegna, forseti, eru engar auglýsingar á ruv.is. Sigurður spurði m.a.: Getur Ríkisútvarpið keypt ásamt öðrum annars konar aðstöðu til fjölmiðlunar en dagblöð og útvarpsstöðvar? Getur Ríkisútvarpið orðið sameigandi netmiðilsins mbl.is þannig t.d. að ruv.is og mbl.is leggist saman og mundi þá skapast einhver allra sterkasti fréttamiðill og umræðumiðill á íslenskum netvettvangi. Er þetta hægt? spurði Sigurður. Hann svaraði því ekki en það er auðvelt að svara því samkvæmt þeim textum sem nú liggja fyrir. Samkvæmt frumvarpinu eins og það er núna væri það hægt. Menn hafa ekki alveg áttað sig á því hvað þeir voru að gera í þessu, höfundar fjölmiðlafrumvarpsins, enda viðbrögð við gagnrýni klukkustundum eða einhverjum dægrum áður en blaðamannafundur menntamálaráðherra var haldinn 24. apríl.

Páll Hreinsson, annar aðalhöfunda fjölmiðlafrumvarpsins, kom einnig á fund nefndarinnar og þess skal getið, sem rétt er, að Páll taldi sett undir þennan leka með nýja innskotsákvæðinu. En það kom líka fram hjá Páli, hinum mætasta manni, að í vinnunni að fjölmiðlafrumvarpinu hefði aldrei verið fjallað sérstaklega um Ríkisútvarpið. Það kom líka fram hjá honum að í þeirri vinnu hefði alltaf verið gert ráð fyrir því, þar á meðal þegar innskotsákvæði um bann við því að ríkisstjórnin eigi í öðrum fjölmiðlum var smíðað, að Ríkisútvarpið væri eingöngu almannaútvarp. Höfundar fjölmiðlafrumvarpsins, þeir Pálar, — furðulegt hvað koma margir Pálar við sögu þessa máls — þeir Pálar Hreinsson og Þórhallsson, gerðu ráð fyrir því einu í sinni vinnu að Ríkisútvarpið væri klárlega skilgreint 100% almannaútvarp og ekkert annað.

Í frumvarpinu um RÚV hefur hins vegar frá upphafi verið gert ráð fyrir því að ríkisstjórnin geti verið í hreinum samkeppnisrekstri. Fyrir utan hinar óskýru skilgreiningar á hlutverki RÚV sem almannaútvarps, sem ég ætla enn einu sinni að leyfa mér að fara yfir á eftir, hefur alltaf í frumvarpinu verið gert ráð fyrir því, bæði í frumvarpinu frá því í fyrra og frumvarpinu núna, að Ríkisútvarpið gæti beitt sér á samkeppnissviði með rekstri annarra rása en nú eru til. Þangað til ný ákvæði komu inn var gert ráð fyrir því, og erindrekar ráðherra í menntamálanefnd svöruðu því hreinskilnislega til, að ríkisstjórnin gæti átt dótturfélög í útvarpsrekstri og gæti átt hlut í slíkum fyrirtækjum ásamt öðrum, gæti bæði átt dótturfélag sem ræki t.d. sirkusstöð, stöð sem væri í samkeppni við Sirkus hjá 365 miðlum, og átt hlut í fyrirtæki, segjum ásamt Skjá einum eða Aksjón á Akureyri eða hverjum sem væri, sem ræki sirkus eða eitthvert annað ljósvakafyrirbæri á samkeppnissviði. Með nýja ákvæðinu er komið í veg fyrir slíka sameign og það lýsir enn fáti, fumi og flaustri við undirbúning málsins og meðferð þess að það gerist milli 2. og 3. umr. í síðara frumvarpinu um málið. Alveg fram að því var það skoðun ráðherra, að minnsta kosti erindreka hans, og meiri hluta menntamálanefndar, þ.e. skoðun stjórnarliða, að þetta væri hið æskilega ástand. Það er ekki fyrr en sýnt er fram á að hér sé um beina ögrun við stjórnarskrána að ræða, beint brot á stjórnarskránni, að reynt er að laga þetta. Um leið er reyndar, kannski bara af klaufaskap, komið í veg fyrir að Ríkisútvarpið geti stofnað dótturfélag sjálft um það sem því sýnist, um samkeppnisrekstur sinn, um sirkusstöð eða sérstaka íþróttarás.

Orðalag þessarar greinar er þannig að talað er um hlut í öðrum fyrirtækjum sem reka útvarp eða gefa út dagblað og sá hlutur getur þá ekki heldur verið 100%. Þetta er svo sem smámál, ég teldi nú reyndar eðlilegt að veita Ríkisútvarpinu slíka heimild ef á að leyfa því á annað borð að reka slíkar stöðvar vegna þess að það væri hentugra í bókhaldi að slík stöð væri rekin með fyrirkomulagi dótturfélags en að Ríkisútvarpið ræki hana beint. Það er aukaatriði.

Aðalatriðið er auðvitað í tengslum við gagnrýni Sigurðar Líndals, að ekkert í frumvarpinu um Ríkisútvarpið og ekkert í fjölmiðlafrumvarpinu kemur í veg fyrir að Ríkisútvarpið geti sjálft rekið slíkar stöðvar í hreinni samkeppni við markaðsstöðvar um áhorf og um auglýsingar og kostun sem fjármagnaði það dæmi, eða áskrift eins og háttar til um Stöð 2. Að vísu hafa frumvarpshöfundar tilknúnir af reglum Evrópuréttarins þurft að setja hér inn ákvæði um fjárhagslegan aðskilnað og um það að ríkisstyrkur sé ekki nýttur til þess en auðvitað væri það óbeinn ríkisstyrkur sem stæði á bak við slíkar samkeppnisstöðvar ef Ríkisútvarpinu dytti í hug að efna til þeirra. Þar með kemur aftur upp spurningin um jafnræði gagnvart stjórnarskránni.

Þetta bendir Sigurður Líndal m.a. á og þetta virðist höfundum fjölmiðlafrumvarpsins ekki hafa dottið í hug, þeim Pálum, sem litu svo á að Ríkisútvarpið væri eða ætti að vera 100% almannaútvarp. Þeir eru reyndar með slíkan geislabaug, hinir góðu fræðimenn og spekingar, Páll Hreinsson og Páll Þórhallsson, að þeir virðast hafa talið sér óheimilt að fylgjast nokkurn hlut með umræðunni um Ríkisútvarpið, sem þó hefur staðið í tvo heila vetur og þetta hefur verið ljóst frá upphafi, a.m.k. í mínu máli vegna þess að ég hef spurt sérstaklega eftir þessu. Það má svo líka segja að hinum ágætu ráðgjöfum þeirra héðan af þinginu, sumir þeirra vildu láta kalla sig fjölmiðlanefnd, hefur líka láðst að segja Pálunum frá þessu smáræði í frumvarpinu um RÚV og munu þó einir þrír þeirra a.m.k. vera fulltrúar í menntamálanefnd. En ég tel að hér sé ekki við ráðgjafana eða höfundana að sakast heldur fyrst og fremst við yfirmennina í ráðuneyti og ríkisstjórn sem gefa þessar leiðbeiningar í því starfi sem farið hefur fram að fjölmiðlafrumvarpinu.

Hér má bæta við að Páll Hreinsson upplýsti það í menntamálanefnd aðspurður, að frumvarpið um Ríkisútvarpið annars vegar og nýja fjölmiðlafrumvarpið hins vegar hefðu aldrei verið samlesin, aldrei verið lesin nákvæmlega saman til að kanna hvort þau gripu hvort í annað og hvort þar væri eitthvert ósamræmi á ferð. Þess vegna var það ein af óskum okkar í menntamálanefnd að gera það, annað hvort í nefndinni eða á vegum hennar, að samlesa þessi tvö frumvörp en þeirri beiðni var einfaldlega hafnað.

Enn þá leikur þess vegna vafi á því hvort frumvörpin um Ríkisútvarpið hf. og um fjölmiðlana standast stjórnarskrá. Að spyrja slíkrar spurningar er engin venjuleg aðfinnsla eða venjulegur pólitískur ágreiningur. Allt er reyndar óvenjulegt í kringum Ríkisútvarpið en þó er það auðvitað þannig að menn geta haft mismunandi skoðanir og að lokum verður auðvitað að skera úr þeim með afli atkvæða. En hér er ekki um það að ræða heldur ber Alþingi auðvitað að ganga sérstaklega úr skugga um þetta þegar lögspekingar benda á þann möguleika og láta stjórnarskrána að lokum njóta vafans ef áhöld eru um málið. Þetta hefur að vísu ekki verið vaninn í tíð núverandi ríkisstjórnar en það bætir ekki þetta böl og það er alvarlegur ágalli og ég held allra alvarlegasti ágallinn á málsmeðferðinni núna í vetur að þetta skuli vera skilið eftir upp í loft, að þessi spurning skuli vera látin eftir lögfræðingum og dómstólum.

Um þetta mál skrifaði reyndar gamalreyndur stjórnmálamaður, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í ritstjórnargrein í Fréttablaðinu laugardaginn 29. apríl. Fyrirsögn hennar var: Hver axlar ábyrgðina?

Ég held að það hljóti að vera hollt og gott fyrir núverandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins og lögfræðinga hér innan þingsins að hlýða á hvað Þorsteinn Pálsson segir um þetta og ég gríp hér inn í leiðarann þegar hann er kominn nokkuð af stað, hann er búinn að lýsa pólitískum og viðskiptalegum hliðum á málinu og snýr sér síðan að einni hlið enn, þeirri sem við höfum verið að ræða, með leyfi forseta:

„Hún snýr að stjórnarskránni. Um álitaefni sem að henni lúta gilda einfaldlega önnur lögmál en um hefðbundinn skoðanaágreining eða pólitísk átök. Ábyrgð ríkisstjórnar og Alþingis er mun ríkari í því efni. Kjarni málsins er sá að aldrei má leika minnsti vafi á að áformuð lagasetning standist stjórnarskrá.

Ábyrgð á öllu því er varðar fulla virðingu gagnvart stjórnarskránni hvílir vitaskuld á viðkomandi ráðherra, en einnig þingmönnum. Höfuðábyrgðina ber þó forsætisráðherra, sem samkvæmt reglum um verkaskiptingu Stjórnarráðsins fer með gæslu stjórnarskrárinnar og öll álitamál er að henni lúta.

Stærsta álitaefnið sem tengist stjórnarskránni snýst um það hvort unnt sé að undanþiggja nýtt hlutafélag, sem verður í samkeppnisrekstri, almennum reglum um dreifða eignaraðild að fjölmiðlum. Ágreiningslaust er“ —segir Þorsteinn Pálsson — „að sú undanþága brýtur í bága við almenn sjónarmið um jafnræði milli þeirra sem stunda sambærilega starfsemi.

Það er pólitískt mat hvort menn vilja virða slík sjónarmið að vettugi nema því aðeins að það stangist á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ríkisstjórnin taldi sig hafa sett fyrir þann leka með því að skjóta inn í almenn lög um fjölmiðla ákvæði sem eðli máls samkvæmt á heima í lögunum um Ríkisútvarpið hf. Þetta var gert að lítt athuguðu máli á elleftu stundu.

Ýmsir lögfróðir menn telja hins vegar“ — heldur Þorsteinn Pálsson áfram — „að þessi skyndiráðstöfun ríkisstjórnarinnar breyti ekki því mati að það stríði augljóslega gegn stjórnarskránni að gera þessa undantekningu. Aðrir telja verulegan vafa leika þar á. Og svo eru þeir sem telja að þetta sé álitaefni sem skoða þurfi betur. Í þeim hópi er einn fremsti lögvísindamaður landsins, Sigurður Líndal.

Í hverju þróuðu lýðræðisríki telja menn sér skylt að taka þann tíma sem nauðsynlegur er til þess að ganga úr skugga um að minnsti vafi leiki ekki á stjórnarskrárgildi nýrra lagaáforma. Það álitaefni sem hér er til umræðu kom fyrst til skoðunar fyrir fimm dögum“, segir Þorsteinn Pálsson 29. apríl sl., „og er því bæði fræðilega vanreifað og stjórnmálalega órætt.

Um þetta atriði gilda ekki almenn sjónarmið um afgreiðslu pólitískra ágreiningsefna. Í þeim verður meiri hluti Alþingis á einhverjum tímapunkti að taka af skarið. En álitaefnið sem hér er til umfjöllunar er ekki pólitískur ágreiningur. Það lýtur að jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sem er óumdeild. Hver ætlar að taka stjórnskipulega ábyrgð á því að gegn henni verði að minnsta kosti hugsanlega brotið og það að óathuguðu máli?“ Spyr Þorsteinn Pálsson í lok ritstjórnargreinar sinnar í Fréttablaðinu í lok apríl.

Forseti. Ég ætla næst að ræða örlítið um tilmæli Evrópuráðsins um almannaútvarp. Bæði í fyrri og síðari umfjöllun menntamálanefndar hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar farið fram á að nefndin óski umsagnar frá fjölmiðlaskrifstofu Evrópuráðsins um frumvarpið og það var gert í framhaldi af því að íslenskir sérfræðingar á þessu sviði voru ekki tiltækir til samræðna við nefndina. Þarna er sérstaklega um að ræða Prag-samþykktina frá 1994 þar sem m.a. er að finna mikilvæga skilgreiningu á almannaútvarpi og í annan stað tilmælin um sjálfstæði almannaútvarps frá 1996 þar sem fjallað er um stjórnarhætti almannaútvarps. Rök meiri hluta menntamálanefndar og hv. formanns nefndarinnar fyrir því að hafna þessari ósk hafa verið þau að samþykktir Evrópuráðsins bindi íslensk stjórnvöld ekki að þjóðarrétti. Sigurður Kári Kristjánsson, hv. formaður menntamálanefndar, hefur sagt að þetta þurfi ekki að gera vegna þess að þessi plögg og textar frá Evrópuráðinu bindi okkur ekki að þjóðarrétti og það geti enginn farið í mál við okkur hvernig sem við högum okkur gagnvart þeim textum.

Í því ljósi er athyglisvert að í fjölmiðlafrumvarpinu, hinu nýja fjölmiðlafrumvarpi hæstv. menntamálaráðherra, er mjög stuðst við ákveðna samþykkt Evrópuráðsins, þ.e. tilmælin frá 1999 um aðgerðir til að stuðla að fjölbreytni fjölmiðla. Við könnumst við þau tilmæli, þar gefur Evrópuráðið m.a. svona siðferðilega heimild til þess að hafa strangari löggjöf um fjölmiðla en önnur fyrirtæki í atvinnurekstri og þangað hafa formælendur eignarhaldsprósentna sótt hin almennu rök sín. Ég get sagt það hér, þó að ég sé ekki að ræða prósenturnar frekar en áðan, að ég er sammála Evrópuráðinu í þessari afstöðu og tel að þingið eigi að setja nokkuð harðari lög um fjölmiðla en önnur atvinnufyrirtæki þó að ég sé haldinn meiri efa en ýmsir aðrir um að það eigi að binda þau í prósentur.

Í fjölmiðlafrumvarpinu er líka vitnað mjög í önnur tilmæli frá 1994 um gagnsæi í fjölmiðlum, tilmæli sem við samfylkingarmenn kynntum í þingsályktunartillögu, að ég held á fyrsta þingi þessa kjörtímabils undir forustu hins ágæta lögfræðings Bryndísar Hlöðversdóttur, sem nú er því miður fyrir okkur en sem betur fer fyrir æsku landsins komin í annað starf á Bifröst í Borgarfirði. Í greinargerð með fjölmiðlafrumvarpinu, það er á bls. 5 í hinni prentuðu útgáfu frumvarpsins, eru tilmæli Evrópuráðsins á fjölmiðlasviði tengd 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem Íslendingar hafa gengist undir að þjóðarrétti sem hér gildir sem ígildi laga.

Síðan segir almennt um tilmæli Evrópuráðsins á fjölmiðlasviði, með leyfi forseta:

„Til viðbótar við og til fyllingar mannréttindasáttmála Evrópu lætur Evrópuráðið frá sér fara reglulega tilmæli um málefni fjölmiðla og það lagalega starfsumhverfi sem þeim er búið. Tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins eru ekki bindandi í sama skilningi og alþjóðasáttmálar sem hafa verið fullgiltir. Í þeim felst pólitísk skuldbinding aðildarríkja þess efnis að réttarkerfi verði löguð að þeim meginreglum sem koma fram í tilmælunum. Tilmæli þessi eru ekki síst mikilvæg leiðsögn um það hvað telja megi evrópsk lágmarksviðmið á viðkomandi réttarsviði. Er iðulega vísað til þeirra þegar lagt er mat á hvort tiltekið aðildarríki uppfylli kröfur sem gera verður til lýðræðis- og réttarríkja.“

Forseti. Þessi texti sem ég las er fenginn úr greinargerð með frumvarpi sem menntamálaráðherra hefur lagt fyrir þingið þannig að nú liggur það verkefni fyrir hæstv. menntamálaráðherra annars vegar og hins vegar hv. formanni menntamálanefndar að koma sér saman um það hvers eðlis sú binding sé sem tilmæli Evrópuráðsins hafa í för með sér gagnvart íslenskum stjórnvöldum.

Hv. formaður menntamálanefndar segir að engin binding sé af lögum og þess vegna sé okkur ekki skylt og algjörlega óþarft að rannsaka þessi tilmæli þegar við setjum lög á þinginu. Menntamálaráðherra segir hins vegar að í tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins felist pólitísk skuldbinding aðildarríkjanna, þess efnis að réttarkerfið verði lagað að meginreglum í tilmælunum, eins og hér stendur. Auðvitað er átt við að í tilmælum Evrópuráðsins, sem við erum ekki bara þátttakendur í heldur beinlínis gerendur í þessum tilmælum — við samþykktum tilmælin og gefum þau frá okkur sem hluti af Evrópuráðinu — felist pólitísk skuldbinding okkar um að haga okkur eins og þarna er gert.

Þetta er athyglisvert vegna þess að í störfum menntamálanefndar í vetur og í fyrravetur hefur komið í ljós að ekki einungis hefur nefndinni verið haldið frá því að kynna sér þessi tilmæli og bera þau saman við frumvarpið heldur hafa frumvarpsdrög um Ríkisútvarpið aldrei verið borin saman við samþykktir Evrópuráðsins um þessi efni. Hvað sem líður deilumálum hæstv. menntamálaráðherra og hv. formanns menntamálanefndar um hina þjóðréttarlegu stöðu eru slík vinnubrögð hneisa fyrir stjórnvöld í fjölmiðlamálum. Þau benda ekki til þess að ríkisstjórnarmeirihlutinn taki alvarlega alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga á sviði mannréttinda og lýðræðisþróunar.

Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar höfum haft efasemdir um að frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. sé í samræmi við áðurgreindar samþykktir Evrópuráðsins. Sá efi snýr annars vegar að ófullnægjandi lýsingu á hlutverki almannaútvarps í 3. gr. og líka að stjórnarháttum fyrirtækisins eins og þeir eru settir fram í frumvarpinu. Ríkisstjórnarmeirihluti er við völd í stjórn félagsins og engin ákvæði um eftirlitsráð.

Ég hef áður kynnt fyrir þingheimi skilgreiningu almannaútvarpsins í ályktuninni frá Prag 1994. Ég tel rétt að lesa aftur upp þessa skilgreiningu til þess að þingheimur geti borið hana saman við 3. gr. í frumvarpinu um Ríkisútvarpið hf. Skilgreiningin í Prag-samþykktinni frá 1994 er í níu liðum og reynir að byggja grunn að því hvað í almannaútvarpi felist. Þar er ekki upptalning á einstökum sjónvarpsþáttum eða reynt að þylja efni í útvarpi heldur er reynt að gera sér grein fyrir hvað í almannaútvarpi felst, bæði gagnvart starfsemi þess og hlutverki í samfélaginu. Þetta er svona, með leyfi forseta. Þetta er held ég þýðing mín sem ég verð að taka ábyrgð á sjálfur og er úr tillögu minni til þingsályktunar um Ríkisútvarpið sem almannaútvarps sem ég minntist á áðan og er svona, með leyfi forseta:

„… að almannaútvarp skuli

mynda með dagskrá sinni sameiginlega viðmiðun allrar þjóðarinnar, vinna að félagslegri samstöðu og þátttöku allra einstaklinga, hópa og byggðarlaga í samfélaginu; sérstaklega skal þar hafnað allri menningarlegri, kynbundinni, kynþáttar- eða trúarlegri mismunun og félagslegum aðskilnaði í hvaða mynd sem er;

skapa vettvang almennrar umræðu þar sem fram komi svo fjölbreytilegar skoðanir og sjónarmið sem unnt er;

annast hlutlægan og óháðan flutning upplýsinga, frétta og fréttaskýringa;

bjóða fram margbreytilegt dagskrárefni sem einkennist af fjölhyggju (plúralisma) og hugmyndaauðgi;

miða í dagskrá og þjónustu við almennan áhuga en taka einnig tillit til þarfa minnihlutahópa;

endurspegla ólíka heimspekilega afstöðu og trúarviðhorf í samfélagi sínu í því augnamiði að auka gagnkvæman skilning og umburðarlyndi, og hvetja til eðlilegra samskipta í samfélagi fjölmenningar og margvíslegra kynþátta;

stuðla með dagskrá sinni að því að betur og víðar sé metinn fjölbreytileiki hins þjóðlega og hins evrópska menningararfs;

tryggja að umtalsverður hluti dagskrárefnis sé frumframleiddur, sérstaklega kvikmyndir, sjónvarpsleikrit og annað listrænt efni“ — ákvæði sem algjörlega vantar í 3. gr. frumvarpsins um Ríkisútvarpið hf. en í því frumvarpi er reyndar ekkert minnst á íslenskt efni eða innlenda framleiðslu í tengslum við Ríkisútvarpið hf. — „og gera sér grein fyrir nauðsyn þess að nýta sjálfstæða framleiðendur og starfa með kvikmyndageiranum;

fjölga dagskrárkostum hlustenda og áhorfenda með því að hafa í boði efni sem alla jafna stendur ekki til boða á markaðsstöðvunum.“

Hér lýkur þessu. Ég vek sérstaklega athygli á því atriði sem ég las síðast úr samþykktinni. Það lýsir einmitt því sem skortir í frumvarpið, metnaði fyrir hönd almannaútvarpsins til að gera betur en hægt er að ætla markaðsstöðvunum að gera. Þessar greinar Prag-samþykktarinnar sýna hvað almannaútvarp á að gera og hverjar skyldur þess eru við samfélagið og við aðrar stöðvar. Þannig er það líka vegna þess að það hefur komið í ljós í frægri rannsókn, McKinsey-rannsókninni frá 1999 sem birt er sem fylgiskjal við tillögu okkar um Ríkisútvarpið sem almannaútvarp, að gott almannaútvarp, þróttmikið og sjálfstætt, hefur forustu á fjölmiðlavettvangi á sínu svæði eða landi hvað gæði varðar, bæði í menningarlegum efnum og í umfjöllun um samfélagsmál og ýmis önnur þörf málefni.

Í tilmælunum frá 1996 er gerð grein fyrir æskilegum stjórnarháttum í almannaútvarpsstöðvum. Ég ætla ekki að þreyta þingheim með því að lesa það allt upp. En ég vek sérstaka athygli á að til að almannaútvarp sé sjálfstætt þarf, að viti þeirra sem sömdu þau tilmæli, væntanlega menntamálaráðherra okkar þar á meðal, að skipta stjórn almannaútvarps í tvennt. Annars vegar sé stjórn og hins vegar eftirlitsráð sem hafi tiltekið sjálfstæði. Hvor stofnunin hafi tiltekið sjálfstæði gagnvart hinni og ólík hlutverk. Mér sýnist að stjórnarlýsing þessara tilmæla eigi í raun við um það sem menntamálaráðherra kallar í frumvarpi sínu, annars vegar útvarpsstjóra og hins vegar stjórn. En eftirlitsráðið er ekki til. Það er enginn sem fylgist með því hvað stjórnin gerir, temprar völd hennar og heldur ekki menntamálaráðherra, sem samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans og áætlun sem reyndar var aldrei á prent sett, á að gera sérstakan þjónustusamning við eigin stjórn og við þann útvarpsstjóra sem hún réð. Í þessu sambandi hefði einmitt verið full ástæða til að fá umsögn fjölmiðlaskrifstofu Evrópuráðsins um hvernig skipulagið sem hér er fram sett í frumvarpinu passar við hugmyndir Evrópuráðsins sjálfs í tilmælum þess um stjórnarhætti á almannaútvarpsstofnunum.

Við höfum áður bent á þann augljósa galla núverandi skipunar Ríkisútvarpsins sem felst í að til er útvarpsráð þar sem ríkisstjórnarmeirihluti ræður og fer fram eins og við þekkjum. Á síðari tímum hefur meiri hluti þessa útvarpsráðs getað stillt sig í störfum frá degi til dags. Áður var útvarpsráð alvaldur um Ríkisútvarpið. Þá voru aðrir tímar. En það hefur komið fyrir, jafnvel í minni þeirra sem hér eru inni, og þarf ekki að vera langt, að meiri hluti útvarpsráðs hafi beinlínis tekið pólitíska ríkisstjórnarmeirihlutaafstöðu og er skemmst að minnast fréttastjóramálsins fræga í fyrravetur.

Páll Þórhallsson skrifaði árið 2004 grein um almannaútvarp á Íslandi í Morgunblaðið, sem hét „Helgar tilgangurinn meðalið?“ Hún ætti að vera mönnum kunn sem hafa fylgst hér með fjölmiðlaumræðu á þinginu. Hennar var að nokkru getið í umræðunni um fjölmiðlafrumvarpið fyrsta, sem þá var að gera allt vitlaust. Páll komst að þeirri niðurstöðu að það skorti nokkuð á sjálfstæði Ríkisútvarpsins og sagði, með leyfi forseta:

„Kemur þar sjálfsagt margt til. Eitt af því er að ríkisstjórnarmeirihluti hverju sinni skipar meiri hluta útvarpsráðs á meðan víðast hvar erlendis … hefur verið fundið fyrirkomulag sem tryggir að slík ráð gæti almannahagsmuna en ekki hagsmuna ríkisstjórnar eða stjórnarflokka. Það þætti til dæmis ekki góð latína á Evrópuvettvangi að pólitískt skipað útvarpsráð fjallaði um umsóknir um stöður fréttamanna.“

Ég tek undir þetta. Það er eitt af því sem menn í öllum flokkum, að nafninu til að minnsta kosti, eru sammála um að breyta og verður, samkvæmt því frumvarpi sem hér er um fjallað, með öðrum hætti í framtíðinni. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að þetta var reyndar fyrsta mál sem ég flutti hér á þinginu þegar ég kom inn sem varamaður, að þeirri skipan yrði hætt. Ég er a.m.k. stoltur af því að það skuli nást fram þótt mér lítist illa á það sem með á að fylgja.

Grein Páls Þórhallssonar sýnir að það er full ástæða til að athuga tilmæli Evrópuráðsins, t.d. hvernig það stenst andann í þeim tilmælum að ríkisstjórnarmeirihluti ráði útvarpsstjóra og reki hann eins og honum hentar samkvæmt frumvarpinu sem verða á að lögum.

Þegar við óskuðum eftir þessum samanburði við Evrópuráðstilmælin var sú ósk formuð þannig að við báðum um yfirferð sérfræðings á þessu sviði. Þegar henni væri lokið gæti nefndin ákveðið hvort við ætluðum að gera meira, leita til fjölmiðlaskrifstofunnar eða ekki. Það er skylt að geta þess, eins og kom fram við 2. umr., að hv. formaður menntamálanefndar reyndi að verða við þessum tilmælum. Óháðir sérfræðingar, íslenskir, sem vitað var af voru hins vegar ekki tiltækir á þeim tíma sem um var að ræða, sem var reyndar skemmri en menn héldu vegna skipunarinnar um að taka málið út, sem meiri hlutinn hlýddi eins og ég hef áður lýst, með þeim afleiðingum að taka þurfti málið aftur inn í nefndina eftir 2. umr.

Við ræddum sérstaklega um Pál Þórhallsson sem vann hjá fjölmiðlaskrifstofunni en niðurstaðan varð sú að það væri óeðlilegt og ekki viðkunnanlegt gagnvart honum að biðja hann um að taka að sér þennan samanburð. Hann er að störfum í forsætisráðuneytinu, starfsmaður forsætisráðherra þeirrar ríkisstjórnar sem leggur fram frumvarpið. Ég vil geta þess að lokum að þegar enginn annar fékkst á þeim tíma varð að ráði að ræða við Pál, hvort honum geðjaðist að því að koma. Það væri betra fyrir okkur að ræða við hann, vegna þess að þar væri sennilega heiðarlegur og grandvar maður á ferð, en að gera ekki neitt. En þau skilaboð bárust frá honum, eftir því sem mig minnir, að hann færðist undan að koma. Það þótti mér reyndar ofureðlilegt í ljósi aðstæðna. Í 2. umr. sagði hv. formaður nefndarinnar hins vegar að Páll hefði verið upptekinn, gott ef ekki í útlöndum á þeim tíma sem þá kom helst til greina.

Eftir þetta rugl þegar nefndin fékk málið aftur settum við fram þá einföldu ósk að sérfræðingunum yrði sleppt og tengt framhjá þeim vandræðagangi og frumvarpið yrði einfaldlega sent Evrópuráðinu, fjölmiðlaskrifstofu þess í Strassborg, og athugað hvaða tíma það tæki að reiða fram þessa álitsgerð. Því var ekki sinnt og ekki einu sinni spurt hvort þetta væri hægt, hvort fjölmiðlaskrifstofan tæki svona að sér og þá á hvaða tíma. Svarið hefur væntanlega verið það að fjölmiðlaskrifstofan gerði það, vegna þess að við vitum að hún hefur gert það í tilviki ýmissa nýrra lýðvelda í Austur-Evrópu. Síðan höfum við haft þessar fjórar vikur sem liðnar eru en ekkert hefur gerst í málinu. Nægur tími reyndist sem sé vera til þessarar rannsóknar ef menn hefðu viljað fara í hana. Strassborg er ekki nema rétt hinum megin við bæjarlæk okkar nú á dögum, Atlantshafið. Það eru greiðar samgöngur á hverjum degi, sími og net og menn þekkja ákaflega vel til þar. Þrír þingmenn á Alþingi sitja á Evrópuþinginu og fara þar á fundi fjórum sinnum á ári, að ég held. Þetta hefði því verið hægðarleikur ef menn hefðu viljað það.

Ég hef talað lengi um Evrópuráðið og kannski lengur en bein ástæða er til vegna þess ósköp einfaldlega að til staðar virðist vera einhver alveg sérstök tregða við það að frumvarpið og þessi frumvörp séu borin saman við þau tilmæli, eins og hugsanlega sé einhver hræðsla við að frumvarpið standist þau ekki og það sé þá óþarft og jafnvel hættulegt að draga það fram hvaða gallar séu á frumvarpinu gagnvart þeim tilmælum en hins vegar, eins og hv. formaður menntamálanefndar segir, engin binding á lögum gagnvart þeim. Því er menntamálaráðherrann ekki algerlega sammála í greinargerð sinni með fjölmiðlafrumvarpinu.

Ég ætla að láta þessu lokið og fara úr Evrópuráðinu yfir í Evrópusambandið eða Evrópska efnahagssvæðið og skal þó vera stuttorður um það miðað við þau tilefni sem gefast til að fjalla um EES-réttinn í fjölmiðlamálinu. Í hinni hefðbundnu umfjöllun nefndarinnar eftir 1. umr. í vetur var lýst samskiptum Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, við fulltrúa fjármálaráðherra og menntamálaráðherra og lögð fram bréf þau sem til vitnis eru um þau samskipti. Menn muna eftir því, svolítinn hávaða þurfti til að fá þau bréf og enn þá meiri hávaða til að þau yrðu opinber.

Eftir þetta kom sérfræðingur í Evrópurétti, Árni Páll Árnason, fyrir nefndina og lýsti þeirri skoðun sinni að það væri heppilegast fyrir okkur í menntamálanefnd, fyrir þingið og íslensk stjórnvöld að biðja Eftirlitsstofnunina að fara yfir þetta frumvarp sem nú lægi fyrir áður en það hlyti samþykki, ekki einungis að spyrja um einstök atriði eins og fjármálaráðherra og menntamálaráðherra höfðu gert eða réttara sagt svarað spurningum Eftirlitsstofnunarinnar um einstök atriði, heldur beinlínis að láta Eftirlitsstofnunina fara yfir frumvarpið. Þetta hefur ekki verið gert og erindreki menntamálaráðherra skýrði það þannig að látið yrði reyna á það síðar. En hitt hefði sem sé verið hægt. Tækifærið var því látið ónotað til að bera frumvarpið rækilega saman við Evrópuréttinn.

Þess skal getið líka að í miðri umfjöllun nefndarinnar nú milli 2. og 3. umr. barst bréf frá lögfræðingi Dagsbrúnar, sem ég hef minnst á áður, þar sem tekið var undir það álit í umsögnum, m.a. Samtaka atvinnulífsins og 365 miðla, að verulegur vafi léki á um hvort frumvarpið stæðist ákvæði EES-samningsins. Þar var bæði vísað til eignarhaldsreglnanna í fjölmiðlafrumvarpinu sem ég hef fjallað um og farið yfir ýmis atriði Evrópuréttar í þessum efnum. Þetta bréf varð með öðru til þess að í orðsendingu okkar stjórnarandstöðuþingmanna til Sigurðar Kára Kristjánssonar, sem ég hef áður lýst, fórum við fram á að sumarnefndin fjallaði m.a. um 3. gr. frumvarpsins, þá sem lýsir hlutverki og skyldum Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps, og ræddi það hvort þessi skilgreining væri ekki of víð í heild sinni, eins og ég hef áður rakið, og hvort hún næði nógu langt sem leiðbeining um dagskrá almannaútvarps m.a. í ljósi Evrópuréttar og tilmæla Evrópuráðsins. Hægt er að segja frá því að þessu var ekki sinnt og engin sérstök athugun hefur í raun farið fram á því hvort frumvarpið sjálft stenst Evrópurétt. Engin slík athugun nema í svörum fjármálaráðuneytisins við spurningum Eftirlitsstofnunar EFTA.

Ég ætla ekki að taka afstöðu til einstakra atriða í bréfi Dagsbrúnar sem þingmenn geta kynnt sér og allur almenningur, eða fyrri gagnrýni Samtaka atvinnulífsins, 365 miðla og fleiri umsagnaraðila. Ég hef áður rakið lauslega hvernig þessu var háttað í 2. umr. málsins en vil endurtaka þetta. Mér sýnist að raunveruleg ástæða þessara frumvarpa tveggja, kveikjan að þessum tveimur frumvörpum sé ekki umhyggja fyrir Ríkisútvarpinu eða þörf sem stjórnvöld eða pólitískir forustumenn hafa séð á því að bæta almannaútvarpið, heldur sé kveikjan fyrst og fremst eftirgrennslan Eftirlitsstofnunar EFTA eftir þær kærur sem nú eru þar í meðferð gegn íslenska ríkinu vegna Ríkisútvarpsins, önnur frá Norðurljósum eins og þau hétu þá og hin frá fyrirtæki sem hét tunga.is og var netfyrirtæki sem gagnrýndi starfsemi Ríkisútvarpsins á internetinu.

Evrópurétturinn í þessum efnum hefur tekið örum breytingum undanfarna áratugi. Þar vegast á tvenns konar sjónarmið. Annars vegar hin evrópska hefð með sterkt menningarútvarp sem gegnir menningarlegum og samfélagslegum skyldum á þann hátt sem í evrópskum samfélögum er talinn ómetanlegur og er brjóstvörn lýðræðis og lýðræðisumræðu í flestum hinna grónu Evrópuríkja og hins vegar samkeppnisreglur Evrópusambandsins, sú grunnstefna þess bandalags sem mikill meiri hluti Íslendinga aðhyllist líka, að fullt athafnafrelsi eigi að ríkja í atvinnulífinu og að opinberir aðilar takmarki afskipti sín þar við að setja ramma og smíða reglur um vinnubrögð og heiðarlega samkeppni nema sérstakar ástæður krefjist annars. Í Evrópurétti felst málamiðlunin milli þessara sjónarmiða gagnvart almannaútvarpinu í því að sú starfsemi er felld undir þá grein Rómarsáttmála og EES-samnings sem fjallar um rekstur sem hefur almenna efnahagslega þýðingu eins og það er orðað. Slíkur rekstur er leyfilegur með opinberri aðstoð. Það á við um almannaútvarpið. Þess ber að geta um hina almennu efnahagslegu þýðingu að það orðfæri og réttarreglur Evrópusambandsins mótast auðvitað af uppruna þess og eðli að mestu sem efnahagsbandalags fram á okkar daga. En hér er í raun miklu fremur verið að tala um almenna, menningarlega og lýðræðislega þýðingu almannaútvarpsins í okkar tilviki í samfélaginu. Hins vegar er það rétt hjá Evrópusambandinu að slíkir innviðir hafa greinileg efnahagsleg áhrif líka og þess vegna er almannaútvarpinu með ýmsu öðru pakkað inn í þennan frasa um almenna efnahagslega þýðingu.

Slíkur rekstur er, eins og m.a. er bent á í bréfi Dagsbrúnar, háður almennum samkeppnisreglum að því marki sem beiting þeirra kemur ekki í veg fyrir að þau geti að lögum eða í raun leyst af hendi þau sérstöku verkefni sem þeim eru falin, eins og segir í bréfi Dagsbrúnar og er þýtt úr Evrópureglum. Samkeppnisreglurnar gilda nema fyrirtækin sem hafa almenna efnahagslega þýðingu eða stofnanirnar geta ekki að lögum eða í raun reitt af hendi hlutverk sitt með öðrum hætti en að meiða samkeppnisreglurnar.

Ríkisaðstoð er óheimil í venjulegum samkeppnisrekstri merkir þetta í stuttu máli og um þetta stendur auðvitað styrinn í kringum almennu útvarpsmálin í Evrópuréttinum. Þess vegna hafa menn, eins og Árni Páll Árnason lögmaður, á fundum nefndarinnar hvatt til þess að Alþingi og önnur stjórnvöld geri sér sem allra nákvæmasta grein fyrir því hver sú almannaþjónusta er sem ríkisstjórninni er ætlað að veita.

Það er alveg ljóst að í Evrópuréttinum er talsvert svigrúm í þessu efni. Sagan er þannig að eftir sókn markaðsstöðva að stöðu almannaútvarpanna á 8. og sérstaklega 9. áratugnum gerðu Evrópusambandsríkin með sér samkomulag um þetta mál sem var í þeim pakka sem kenndur hefur verið við Amsterdam og víkkuðu þar þessar reglur þannig að alvörualmannaútvarp kæmist alveg örugglega fyrir í Evrópuréttinum. Í Evrópu gera menn sér að sjálfsögðu grein fyrir því að almannaútvarp verður ekki rekið án ákveðinnar samkeppni við venjuleg fjölmiðlafyrirtæki á markaði á vissum sviðum. Við getum nefnt fréttaþjónustuna. Auðvitað er það svo að ef almannaútvarp segir fréttir er það í ákveðinni samkeppni við aðrar fréttastofur, hjá því verður ekki komist. Sú skylda almannaútvarpsins sem það reiðir af hendi með fréttaflutningi varðar vissulega almennar samkeppnisreglur en almenna útvarpinu er hins vegar ekki kleift að rækja þessa skyldu sína með öðrum hætti en að ákveðin samkeppni sé fyrir hendi. Hins vegar getur maður svo gert ráð fyrir því að þessi fréttastofa setji sér ákveðnar reglur í samræmi t.d. við greinarnar í tilmælum frá Prag-samþykktinni sem ég rakti áðan.

Það er sem sé mikið svigrúm fyrir hendi samkvæmt Evrópuréttinum og þeim reglum sem þar eru að mótast núna. Menn eiga auðvitað eftir að sjá hvernig það verður í framtíðinni því að nú þessi árin reynir á Amsterdam-ákvæðin með nýrri hrinu málssókna frá markaðsstöðvunum sem eru gagnvart dómstólunum að reyna að finna út hvaða réttarreglur nákvæmlega gilda eða hvaða þýðingu Amsterdam-samþykktin hefur.

Það eru alveg klárlega gerðar kröfur um það að menn marki sér skýra stefnu í þessum efnum. Ég lýsti því í 2. umr. eins og fulltrúi menntamálaráðherra, erindreki hans sagði í menntamálanefndinni, lýsti fyrir okkur að það væri eins konar taktík af hálfu íslensku ráðuneytanna að reyna að hafa skilgreininguna á almannaútvarpinu sem allra víðasta í frumvarpinu. Þá væri þetta eins og var áður í kjarasamningum. Sá sem á sótti sagði milljón, sá sem varðist í samningunum sagði 100 þúsund og síðan áttu menn og hið eðlilega og lógíska var að koma sér saman um 550 eða einhverja álíka tölu með samningatækni sem hefur fullt gildi en er nú víðast hvar úrelt. Þetta er sem sagt hugmynd íslensku ráðherranna um hegðun gagnvart Evrópusambandinu í þessum almannaútvarpsmálum, að við stöndum í einhvers konar reiptogi við Evrópusambandið og Eftirlitsstofnun EFTA um hversu víður ramminn um almannaútvarp megi vera. Um þennan slag standi svipað á og gagnvart íslenska landsliðinu í knattspyrnu eða öðrum greinum að það sé um margt ekki viðurkvæmilegt fyrir Íslendinga og hvað þá stjórnarandstæðinga á þingi að finna að því.

Hins vegar var það leiðbeining Árna Páls Árnasonar og ráðlegging hans að fara ekki eftir slíkri stjórnlist. Í samstarfinu við Evrópusambandsríkin og á Evrópska efnahagssvæðinu væri miklu árangursríkara fyrir Íslendinga og önnur einstök ríki, ekki síst smáríkin, ekki síst ef það stendur utan sjálfs aðalsamstarfsins í Evrópusambandinu og tengist því í gegnum Evrópska efnahagssvæðið, að móta sér alvörustefnu sem stæðist öll rök sem Evrópusambandið og Evrópuráðið hafa sett fram, stefnu sem væri framsýn sem miðaðist við það sem við viljum sjálf gera í framtíðinni næstu 10, 20, 30 ár, stefnu sem við getum staðið á og haldið okkur við gagnvart því sem kann að gerast hjá Eftirlitsstofnun ESA, þ.e. í Evrópusambandinu í þessum efnum.

Rökstuðningur lögmanns Dagsbrúnar bendir í nákvæmlega sömu átt, að við eigum að móta okkar eigin stefnu sem miðist við okkar aðstæður jafnframt ákvæðum Evrópuréttarins og standa svo að henni. Þessu hefur ekki verið sinnt hér og það er alveg óskýrt hvað verður um þetta frumvarp, ef að lögum verður, í ólgusjó Evrópuréttarins. Búast má við málaferlum fram og aftur og sífelldum athugasemdum og fyrirspurnum frá eftirlitsstofnuninni. Enginn veit hvernig þetta í raun endar vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir virðast ekki hafa nennt að setjast niður og móta sér um það stefnu, ekki hirt um að fara í raunverulega vinnu við að móta Ríkisútvarpinu ramma til framtíðar sem almannaútvarpi. Ég skal ekkert segja um ástæðurnar fyrir því. Ástæður sumra eru augljósar. Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal hv. formaður menntamálanefndar, hafa staðið að frumvarpi um að selja Ríkisútvarpið. Ástæður annarra eru kannski duldari. Menn hafa sett fram kenningar um að innan Sjálfstæðisflokksins sé áhugi á því að nánast nota Ríkisútvarpið í baráttu á fjölmiðlamarkaði við aðrar útvarpsstöðvar sem séu í óheppilegri eigu. Ef það á að ganga er auðvitað best að hafa skilgreiningarnar um almannaútvarp sem óljósastar þannig að hægt sé að beita sér í samkeppnisrekstri, bæði samkvæmt 4. gr. sem beinlínis fjallar um þann rekstur og samkvæmt 3. gr., þ.e. í skjóli hlutverks síns sem almannaútvarps. Ég skal ekki leggja dóm á það að sinni. Reynslan verður að skera úr um það ef svo óheppilega vill til að þetta frumvarp verður að lögum. En ég bendi á þetta hér og veldur þá eigi sá sem varar.

Ég vil nú ræða stuttlega um álitamál í kringum rekstrarformið sjálft, eða eignarformið ætti kannski frekar að kalla það, sem hefur orðið okkur tilefni töluverðra deilna og töluverðra ræðuhalda á þinginu og annars staðar í samfélaginu. Við óskuðum eftir því í bréfi okkar til formanns hv. nefndar 24. apríl að fulltrúi menntamálaráðherra legði fram þann samanburð á sjálfseignarstofnun og hlutafélagi sem sérstaklega er minnst á í greinargerð með frumvarpinu um Ríkisútvarpið, þ.e. liður 3 í almennum athugasemdum. Við óskuðum líka eftir því að fá fulltrúa sjálfseignarstofnana í atvinnurekstri á fund hjá nefndinni, t.d. Verslunarskólans og Viðskiptaháskólans á Bifröst. Um seinni óskina er það að segja að ekki þótti vera mikill tími eða svigrúm til að kanna þetta. Þó var fenginn skólastjóri Verslunarskólans, Sölvi Sveinsson, á fund nefndarinnar. Enginn fékkst frá Bifröst á þeim knappa tíma sem talinn var koma til greina og maður glottir auðvitað yfir því núna öðrum þræði mánuði síðar.

Á fundi nefndarinnar skýrði Sölvi frá fyrirkomulagi sjálfseignarstofnunarinnar sem á Verslunarskólann. Hann sagði að rekstur skólans hefði gengið vel með þeim hætti og engin vandræði skapast sem sér væri kunnugt um og þótt enginn hafi komist frá Bifröst á þessum tíma þá veit ég ágætlega að þar er sömu sögu að segja og raunar víðast þar sem sjálfseignarstofnunarformið er nýtt til atvinnurekstrar þegar atvinnureksturinn hefur það ekki að meginmarkmiði að skila hagnaði til eigenda. Ég vil segja það að þótt þessu hafi verið að einhverju sinnt og ekki sé beinlínis við nefndarformanninn eða meiri hlutann að sakast um þetta þá hefði nefndin þurft að kanna þetta auðvitað miklu betur og væri kannski almennt kominn tími til þess og sennilega fyrir löngu að efna til sérstakrar rannsóknar á vegum þingsins eða framkvæmdarvaldsins um þetta mál, sjálfseignarstofnanir og hlutafélög, til að rannsaka bæði innlend fyrirtæki og stofnanir í atvinnurekstri sem sjálfseignarstofnanir og hvernig þessu háttar til erlendis.

Um samanburð á sjálfseignarstofnun og hlutafélagi sem getið var í greinargerðinni þá varð það úr að fulltrúi menntamálaráðherra afhenti nefndinni þennan samanburð. Ég geri ráð fyrir því og efast ekkert um annað en það hafi verið átt við þann texta í þessu orðalagi í greinargerðinni. Hann kom með hana í formi minnisblaðs sem er dagsett 5. desember 2005, núna fyrir jólin rétt í þann mund að frumvarpið er lagt fram. Ég man ekki hvort það er nokkrum dögum áður eða síðar. Jú, frumvarpið kom inn í þingið 6. desember með þeirri meginbreytingu þá frá því í fyrra að nú kom hlutafélag í stað sameignarfélags.

Í þessu minnisblaði er fjallað stuttlega um fjögur félagsform sem í minnisblaðinu segir að til greina komi við skipulagsbreytingar á rekstri Ríkisútvarpsins. Almennur samanburður á þessum formum á að vera þarna innifalinn. Þar að auki er lýst göllum laganna um sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri og efast um að hægt sé að nota þau lög við stofnun sjálfseignarstofnunar um Ríkisútvarpið. Þegar búið er að rekja gallana á lögunum, sem eru auðvitað aðallega þeir að lögin eru ónákvæm og segja ekki vel til um hvernig ætti að stofna slíkt fyrirtæki, sérstaklega miðað við hlutafélagalögin þá segir, með leyfi forseta:

„Af ofangreindu leiðir að einungis þau lög sem sett yrðu um sjálfseignarstofnunina mundu gilda um skipan og rekstur hennar. Þessi leið mundi því fela það í sér að skilgreina þyrfti með ítarlegum hætti hvernig sjálfseignarstofnunin skyldi starfa, hver yrðu réttindi og skyldur stjórnar, markmið hennar, o.s.frv., og mæla svo ítarlegar fyrir um þessi atriði í skipulagsskrá stofnunarinnar. Þar væri unnt að mæla fyrir um skipan stjórnar og heimildir hennar og annarra aðila til að taka ákvarðanir fyrir stofnunina. Þar sem þessum lagaákvæðum og ákvæðum skipulagsskrár mundi sleppa mundu ólögfestar reglur félagaréttarins eiga við um starfsemi sjálfseignarstofnunar.

Samkvæmt ólögfestum meginreglum félagaréttarins hefur enginn venjulega eftirlit með gerðum stjórnar. Hvorki stofnandi né annar hefur þar neitt að segja nema sérstök heimild sé til þess. Auk framangreinds ber að tilgreina stofnfé og hvaðan það sé runnið í skipulagsskrá stofnunarinnar. Þá er hefðbundið að skilgreina markmið stofnunarinnar og hvernig fé hennar skuli varið til að ná skilgreindum markmiðum. Venjulega eru mjög þröngar heimildir fyrir hendi til að breyta stofnskrá.“

Þetta eru öll rökin sem er að finna í þessu minnisblaði gegn því að Ríkisútvarpið sé rekið sem sjálfseignarstofnun. Þau felast aðallega í því að lagasetningin sé svo erfið, það sé svo snúið að skilgreina ítarlega hvernig sjálfseignarstofnunin ætti að starfa, hver yrðu réttindi og skyldur stjórnar, markmið hennar o.s.frv., hver hefði eftirlit með gerðum stjórnar, hvert stofnféð yrði og hvaðan það væri runnið. Það er eins og þeir félagar tveir sem þetta minnisblað útbjuggu, aðalhöfundar frumvarpsins um RÚV, erindrekar stjórnarflokkanna, Jón Sveinsson og Sigurbjörn Magnússon, hinir mætustu menn í sínum venjulegu störfum a.m.k., hafi ekki nennt að búa til þó ekki væri nema fyrstu drög að því hvernig frumvarp um sjálfseignarstofnunina Ríkisútvarpið gæti litið út, ekki nennt að setja fram þau álitaefni til þeirra sem þeir unnu fyrir, forustumanna beggja stjórnarflokkanna sem þá voru í leynimakki eins og við munum um þetta mál, að setja fyrir þá þá kosti sem þyrfti að velja á milli, það sem kæmi til greina að gera. Rökin eru sem sé einfaldlega þau að miklu auðveldara sé að búa til frumvarp um Ríkisútvarpið hlutafélag.

Þá spyr maður auðvitað hvað standi nú eftir af þessu hlutafélagi sem var svo auðvelt að gera samkvæmt hf.-lögunum. Það er þannig að stjórnina á að kjósa einu sinni á ári á þingi, að menntamálaráðherra er eini hluthafinn, að menntamálaráðherra gerir þjónustusamning við fyrirtækið samkvæmt lögum, að hlutafélagið má ekki eiga í öðrum hlutafélögum sem hafa sama markmið með sínu starfi, fjölmiðlunum og að hlutafélaginu er skipt. Það skal vera fjárhagslegur aðskilnaður í hlutafélaginu, annars vegar miðaður við almannaþjónustu samkvæmt sérstökum lagagreinum og hins vegar miðaður við samkeppnisrekstur samkvæmt öðrum sérstökum lagagreinum. Núna eiga að koma inn upplýsingalög um hlutafélagið og það fjölgar alltaf og fjölgar sérákvæðum um þetta einfalda hlutafélagsform eftir því sem málinu vindur fram, eftir því sem meiri hlutinn tekur þá að einhverju marki mark á gagnrýni bæði fagmanna og stjórnarandstæðinga hér — þetta eru bæði fagleg og pólitísk rök — tekur mark á faglegum og pólitískum rökum. En þá fjölgar alltaf sérákvæðunum, sem sýnir það best að á sama hátt og RÚV er ekki núna venjuleg ríkisstofnun getur Ríkisútvarpið sem slíkt, ef það á að fá að vera ríkisútvarp, ekki verið venjulegt fyrirtæki, ekki verið venjulegt hlutafélag í venjulegum samkeppnisrekstri með hið venjulega hagnaðarmarkmið hlutafélaga að leiðarljósi heldur þarf Ríkisútvarpið — hvað sem menn vilja gera úr því, hvað sem það á að heita — sérstakan lagaramma, þarf sérstök starfsskilyrði, þarf sérstakan rekstrargrundvöll. Það þarf að skilgreina með ítarlegum hætti hvernig það á að starfa — svo notaðir séu frasar úr minnisblaðinu — hver réttindi og skyldur stjórnar eigi að vera, hver markmið hennar eigi að vera, hvernig eigi að hafa eftirlit með gerðum stjórnarinnar, hvert féð eigi að vera og hvaðan það eigi að renna. Það þarf að skilgreina sérstaklega markmið stofnunarinnar og hvernig fé hennar skuli varið til þess að ná þessum markmiðum. Rökin í minnisblaðinu gegn því að hugleiða sjálfseignarstofnun eru því nánast orðin fáránleg. Þau standast ekki og ljós sögunnar hefur sýnt að í raun hefðu menn átt að byrja annars staðar á því að hugsa um rekstrarform Ríkisútvarpsins en þar að hlutafélagalögin leystu allan vanda. Það hljóta félagar mínir, hv. þingmenn, stjórnarliðarnir í menntamálanefnd, sérstaklega að hugleiða nú þegar þeir eru hlaupnir frá hinu venjulega hlutafélagi í öllum þeim atriðum sem ég lýsti áðan.

Það eina sem eftir stendur er að Ríkisútvarpið er samkvæmt frumvarpinu formlegt hlutafélag. Þegar maður spyr sig að því hvað þar sé á ferðinni fyrir utan kredduna þá er það tvennt, annars vegar sú hugsun og yfirlýsing hv. þm. Péturs Blöndals að þetta frumvarp sé fyrsta skrefið til þess að selja útvarpið og síðan það að búa til þennan stjórnunarlega bastarð til þess að ríkisstjórnarflokkarnir geti haldið flokkspólitískum tökum sínum á fyrirtækinu, að í dulbúningi hlutafélags en með nýju skipulagi, sem að einhverju leyti er eins konar skopmynd af skipulagi hlutafélagsins, þá takist ríkisstjórnarflokkunum áfram að halda sínum flokkspólitísku tökum á Ríkisútvarpinu og geti haldið áfram að færa Ríkisútvarpið skref fyrir skref nær því að vera ríkisstjórnarútvarp.

Síðar í minnisblaðinu koma lokaályktanir höfundanna og sjálfur rökstuðningurinn með hlutafélaginu gegn öðrum formum. Hann er í raun og veru svona: Fyrir utan það að þetta sé hentugast vegna þess að það sé minnst starf við að búa út frumvarpið í hlutafélagsformi þá segja þeir að upphaflega hafi verið miðað við að stofnað yrði sameignarfélag um rekstur RÚV, það hafi fallið eftir erindi frá Eftirlitsstofnun EFTA sem við könnumst við, en önnur félagaform en hlutafélagaformið henti ekki vel til þess að reka Ríkisútvarpið, það sé vegna þess að sjálfseignarstofnun þyrfti að skilgreina svo ítarlega og það yrði óheppilegt að teknu tilliti til stærðar reksturs RÚV, skyldna stofnunarinnar og hlutverks að öðru leyti, eins og þarna stendur. Þetta eru auðvitað engin rök, þ.e. þessi fullyrðing er engan vegin rökstudd og má benda einfaldlega á að sjálfseignarstofnun getur í raun og veru stofnað hlutafélag ef talin er sérstök ástæða til í rekstrarskyni. Síðan segja höfundarnir, með leyfi forseta:

„Ef þessi leið yrði farin“ — þ.e. að gera Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun — „þá þyrfti í raun að breyta núverandi frumvarpi umtalsvert þar sem með stofnun sjálfseignarstofnunar yrði horfið frá þeirri meginstefnu frumvarpsins að mæla ekki fyrir um innri skipun RÚV í lögum heldur að fela stjórn félagsins að ákveða það að teknu tilliti til þess sem best hentar hverju sinni.“

Það er talinn sérstakur ókostur að þurfa að mæla fyrir um innri skipan Ríkisútvarpsins í lögum. Það eru auðvitað fullkomin gervirök því ef menn vilja ekki mæla fyrir um þessa innri skipan Ríkisútvarpsins í lögum þá er auðvitað sjálfgert að fela í lögunum einhverju stjórnunarapparati að gera það. Engin ákvæði í lögunum um sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri koma í veg fyrir það fyrir utan að margir telja heppilegt að meira sé af slíkum ákvæðum í lögum um Ríkisútvarpið en nú er — og það get ég svo sannarlega tekið undir eins og háttað er um það skipulag í núverandi lögum með því flokkspólitíska lagi sem þar er gert ráð fyrir.

Nokkur önnur gervirök af þessu tagi eru talin upp í þessu minnisblaði. En hvergi í textanum, og það sýnir að stjórnarflokkarnir og erindrekar þeirra hafa í raun og veru aldrei staldrað við það mál, er fengist við sjálf rökin með Ríkisútvarpinu sem sjálfseignarstofnun, það færi sem með því móti gefst á að tryggja sjálfstæði Ríkisútvarpsins sem verða má, þá möguleika sem felast í rekstrinum sem hefur gengið vel hjá fyrirtækjum og stofnunum í almannaþjónustu og kynni að ganga betur en ríkisstofnunarfyrirkomulagið, að minnsta kosti eins og því hefur verið háttað núna, og síðan þann kost sem hægt er að gera úr hinum meinta galla sem í því á að felast að hin sérstöku lög um sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri séu óljós, þann kost að þau gefa færi á afar sveigjanlegu skipulagi Ríkisútvarpsins sem sjálfseignarstofnunar þar sem við gætum nýtt ýmsa kosti hlutafélagsformsins en losnað við gallana, eins og við fórum fram á að athugað yrði í bréfi okkar til formanns menntamálanefndar frá 24. apríl.

Eins og ég las áður eru í framhaldsnefndaráliti okkar einnig nokkrar setningar, fyrir utan sjálfseignarstofnanir, um þann kost að breyta ríkisstofnunum hvorki í háeff né neina aðra skammstöfun heldur halda fyrirtækinu sem ríkisstofnun eins og verið hefur. Þetta hefur verið, sýnist mér, stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og reyndar kannski þingmanna Frjálslynda flokksins líka. Þótt við samfylkingarmenn höfum talið sjálfseignarstofnunarkostinn heppilegri hef ég talið frá upphafi að flestum þeim breytingum sem menn eru sáttir um að þurfi að ná á Ríkisútvarpinu væri í sjálfu sér unnt að ná með einföldum breytingum á gildandi lögum. Betra skipulagi Ríkisútvarpsins, sjálfstæði þess, eflingu þess sem almannaútvarps og miðstöðvar innlendrar framleiðslu, að minnsta kosti dreifingar á henni og stuðlan á henni, sé hægt að ná með slíkum hætti. Ég vil halda því til haga vegna þess að auðvitað er eðlilegt að skoða líka það fyrsta skref áður en menn fara að vaða út í þá vitleysu sem menn eru núna komnir út í með þetta gervihlutafélag sem ríkisstjórnarmeirihlutinn ætlar sér að stofna úr Ríkisútvarpinu.

Þetta er fróðlegt plagg frá trúnaðarmönnum flokkanna í Ríkisútvarpsmálinu, þeim Jóni Sveinssyni og Sigurbirni Magnússyni, og sýnir ágætlega hvernig vinnubrögðum var háttað við þessa frumvarpssmíð, bæði hina fyrri og hina síðari. Fyrst kemur krafa Sjálfstæðisflokksins um hlutafélagsformið — reyndar koma allra fyrst ábendingarnar frá Eftirlitsstofnun ESA, sem neyða stjórnvöld til að hreyfa sig í málinu, og þegar það er farið að gerast kemur fyrst krafa Sjálfstæðisflokksins um hlutafélagsformið. Menn ná svo málamiðlun í þeim formsefnum í þessu sameignarfélagi. Bent er á að það gangi ekki. Evrópa bendir á það. Þá er látið undan og Framsóknarflokkurinn yfirgefur fyrri stefnu í málinu og samþykkir hlutafélagsformið. Stofnunin er síðan með einhverjum hætti sniðin upp úr því þó þannig að þess sé gætt að flokkspólitísk ítök haldist sem rækilegast en aldrei farið í þá grunnvinnu að skoða hvað raunverulega er að, hver markmið okkar eigi að vera, samfélagsins sjálfs og stjórnmálamanna sérstaklega, með ríkisbákninu, þau markmið sem stjórnmálamönnum er skylt að setja og síðan íhuga skipulag og formskosti, hvort við heldur veðjum á breytta ríkisstofnun, sjálfseignarstofnun, hlutafélag eða annað. Kredda og hrossakaup, segjum við í nefndarálitinu, og ég held að þetta minnisblað sem heitir því langa nafni, Minnisblað varðandi félagaform sem til greina komu við skipulagsbreytingar á rekstri Ríkisútvarpsins, sýni best að þessi umsögn er rétt um tildrög málsins: Kredda plús hrossakaup.

Ég ætla, forseti, — nú er farið að líða að lokum sýnist mér, þó er nokkuð eftir — næst að fjalla nokkuð um upplýsingalög sem nú eiga að gilda og um stjórnarhætti í fyrirtækinu og það verður að hafa það þó það skarist að nokkru leyti við það sem ég sagði áðan.

Meiri hluti menntamálanefndar hefur nú lagt til þá breytingartillögu markverðasta eftir mikinn þrýsting frá stjórnarandstöðunni, frá starfsmönnum Ríkisútvarpsins, blaðamönnum og öðrum áhugamönnum um fjölmiðla og lýðræði að upplýsingalög gildi um Ríkisútvarpið. Þetta er mjög mikilvægt. Með þessu getur allur almenningur, þar með taldir aðrir fjölmiðlar sem slíkir og sem fulltrúar almennings, sótt upplýsingar um starfsemi og rekstur Ríkisútvarpsins samkvæmt þessum lögum sem reynst hafa nokkuð vel. Hér verður að telja með þingmenn á Alþingi því það verður að líta svo á að þó upplýsingalög taki ekki til samskipta þingmanna og ráðherra þá sé ráðherrum skylt að svara fyrirspurnum þingmanna að minnsta kosti að því marki sem upplýsingalögin setja. Með því er ljóst að menntamálaráðherra, hver sem hann verður í framtíðinni, getur ekki skotið sér undan að svara fyrirspurnum um Ríkisútvarpið eins og aðrir ráðherrar hafa tíðkað um þau hlutafélög í ríkiseigu sem undir þá heyra. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingmenn hafi þetta í huga því þessi túlkun var hluti af kröfu okkar um að upplýsingalögin giltu. Ég fagna þessu að sjálfsögðu, eins og ég áður hef sagt, og tel að hér höfum við þingmenn stjórnarandstöðunnar náð árangri sem ekki hefði náðst nema með einarðri frammistöðu í 2. umr. um málið sem endaði með því að nefndin var kölluð saman eftir þá umræðu. Ég sé að hv. 8. þm. Reykv.n., Sigurður Kári Kristjánsson, kinkar kolli við þessi orð mín og ég fagna því líka að hann skuli gera það.

Hins vegar setur þessi lagfæring, eða við skulum kalla það lagfæringu, stjórnarliða í nokkuð einkennilegt og sérkennilegt ljós. Fyrri tilraunir þeirra til að sannfæra þingheim, almenning og sjálfa sig um að hin hjárænulegu ákvæði í frumvarpi hæstv. viðskiptaráðherra, um opinber hlutafélög, geti komið í staðinn fyrir upplýsingalögin í þessu efni — það er ánægjulegt að sjá að sá leirburður er fullkveðinn á þinginu. Það hefur vonandi sín áhrif í því máli sjálfu, að eftir þessar breytingar á Ríkisútvarpslögunum, sem væntanlegar eru, þá endurskoði menn ákvæði laganna um opinber hlutafélög eða breytingar frumvarpsins á hlutafélagalögunum, sem varða hin opinberu hlutafélög, með endurskoðun á þessu. Ég geri mér grein fyrir því, kannski betur en ýmsir aðrir, að ríkisstjórnin hefur algera sérstöðu meðal þeirra fyrirtækja sem hér væri um að ræða. En ég tel líka að menn eigi að fara betur í gegnum þessi mál eftir að þessum áfanga hefur verið náð og ættu þá að skoða sérstaklega tillögur í frumvarpi samfylkingarmanna, undir forustu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, um ákvæði um opinber hlutafélög.

Ég vil segja það í framhaldinu, um þessa tillögu um upplýsingalögin, að e.t.v. hefði sú ákvörðun getað orðið upphaf frekara samráðs um þetta mál, einkum ef hún hefði komið fram á fyrri stigum og ef því hefði líka fylgt að menn losuðu eitt augnablik um þá einstrengingslegu þráheldni sem hefur ríkt meðal stjórnarliðsins gagnvart nánast öllum öðrum þáttum málsins. Fyrir utan hlutafélagskredduna sjálfa skiptir þar mestu máli að hvorki sjálfstæðismenn né framsóknarmenn hafa nú eða fyrr verið til viðtals um breytingar á fyrirætlunum frumvarpsins hins fyrra og hins síðara um stjórnarhætti á Ríkisútvarpinu sameignarfélagi eða hlutafélagi. Þeir ætla í stuttu máli að halda sig við það að hafa ríkisstjórnarmeirihluta í hinu nýja útvarpsráði. Það ráð á vissulega ekki beinlínis að fjalla um dagskrá eða mannaráðningar en það á að taka meiri háttar ákvarðanir — forseti, það er orðalag úr frumvarpinu — um rekstur og starfsemi Ríkisútvarpsins. Það sem kannski skiptir mestu er að það á að ráða útvarpsstjóra og getur rekið hann fyrirvaralaust hvenær sem því þóknast. Ráðið er kosið árlega á Alþingi og er þannig enn þá nákomnara pólitísku flokkunum á þingi en nú er þar sem þeir hafa þó ákveðið kjörtímabil og eru ekki undir beinu boðvaldi flokkanna að minnsta kosti á meðan. Hér að baki er menntamálaráðherra með sérstakan þjónustusamning sem meiri hluti nefndarinnar ætlar nú að skammast til — ég nota það orðalag — að setja inn í lögin. Áður var það eina sem við vissum um þennan þjónustusamning upp úr bréfi frá Eftirlitsstofnun EFTA, í þessu fræga bréfi frá 20. eða 30. janúar, 30. held ég, þar sem sérstaklega var um hann spurt. Eftirlitsstofnun EFTA spurði ráðuneytin sérstaklega um þennan þjónustusamning og hvort hann yrði ekki alveg örugglega gerður opinber.

Það er ekki ljóst í frumvarpinu hvort það er stjórnin eða útvarpsstjórinn sem gera þennan samning, sennilega gera þau hann saman með einhverjum hætti, og það er heldur ekki ljóst hvað í honum gæti falist. Það er rætt sérstaklega um hlutverk Ríkisútvarpsins um almannaþjónustu og látið að því liggja, heyrðist mér, í framsöguræðu hv. formanns menntamálanefndar, að með þjónustusamningi yrðu nánar útfærðir og skilgreindir hinir einstöku töluliðir í 3. gr. Umfram það vitum við ekkert og það er auðvitað þannig að þessir aðilar eru með þjónustusamninginn sjálfráðir um það hvað í honum felst. Fyrirætlanirnar um þjónustusamninginn geta enn aukið á pólitískt vald stjórnarflokkanna á útvarpinu.

Hverjir semja? Jú, það semja annars vegar stjórn og útvarpsstjóri, stjórn sem kosin er af meiri hlutanum á Alþingi árlega og útvarpsstjóri sem sú stjórn ræður eða rekur að vild og hins vegar menntamálaráðherra sá sem situr í ríkisstjórninni sem hefur meiri hlutann á þinginu sem ræður útvarpsstjórann. Hér er ekki alveg um óskylda aðila að ræða og þess vegna er ákaflega óheppilegt að þjónustusamningurinn skuli ekki vera skilgreindur nánar svo vægt sé til orða tekið. Meiri hlutinn hefur ekki hlustað á neinar hugmyndir og tillögur um annað í stjórnarháttum. Það hefur ekki verið byrjað á byrjuninni og athugað eins og ég rakti áðan hvaða tilmæli Evrópuráðsins eða hvaða ráð almennar kenningar gefa um stjórn ríkisútvarps og það hefur heldur ekki verið hlustað á hugmyndir sem við höfum sett fram eða komið hafa fram annars staðar í samfélaginu um einstakar breytingar sem þó í stórum dráttum byggðu á því stjórnskipulagi sem í frumvarpinu felst. Það hefur ekkert fengist rætt eða athugað í nefndinni um eftirlitsráð eða akademíu sem gæti temprað völd stjórnar og útvarpsstjóra annars vegar og ráðherra hins vegar, t.d. með þeim hætti að eftirlitsráðinu eða akademíunni væri falið að fara í gegnum þjónustusamninginn eða samþykkja hann. Ekkert hefur verið rætt um ýmsar aðrar stjórnskipunarhugmyndir eða litið til annarra landa um þær eða til þeirra ráðagerða sem uppi eru, eins og ég talaði um m.a. í Bretlandi og í Svíþjóð. Í Svíþjóð virðist einmitt vera í ráði að draga úr göllum hlutafélagsforms sem þar er við lýði, að minnsta kosti að nafninu til.

Við höfum ekki fengið nein viðbrögð nema þögnina við þeim hugmyndum um breytingar sem menn hafa sett fram innan þess skipurits sem notað er í frumvarpinu, t.d. um þá breytingarhugmynd að afnema þennan sjálfkrafa ríkisstjórnarmeirihluta í nýja úrvarpsráðinu með því t.d. að bæta við tveimur fulltrúum starfsmanna og leggja þar með ef til vill grunn að nýrri stjórnarhefð í breskum dúr og norrænum þar sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna einsettu sér að vinna í þessu nýja útvarpsráði eða stjórn, eins og það heitir, ásamt fagmönnum að málefnum Ríkisútvarpsins, að reyna, án þess að lúta lögmálum meiri hluta og minni hluta með tilheyrandi atkvæðagreiðslum, að ná saman um markmið og leiðir í málefnum Ríkisútvarpsins með því að hinn raunverulegi meiri hluti sé óljós eða allra helst óþarfur í stjórninni þar sem fulltrúar starfsmanna tveir gætu stuðlað gegn hreinum ríkisstjórnarmeirihluta. Mér finnst þetta vera tillaga sem menn hefðu átt að skoða betur. Ég hefði talið það mjög mikilsverðan áfanga ef ríkisstjórnin og stjórnarliðar í þinginu hefðu fallist á þetta. Mér hefði fundist það geta verið upphaf að einhvers konar samkomulagi um þessi mál.

Við höfum líka lagt til og komið með hugmyndir um að útvarpsstjóri sé ráðinn í tiltekinn tíma til að tryggja honum sjálfstæði frá meiri hluta í stjórninni hverju sinni. Þetta er kannski ekki stórmerkileg tillaga en hún er þó í rétta átt. Á það er ekkert hlustað. Tillagan hefði bæði verið góð fyrir útvarpsstjórann sem hefði þar með öðlast ákveðið sjálfstæði í vissan tíma. Hún hefði líka verið góð fyrir stjórnina vegna þess að þá hefði skapast eðlilegt tækifæri til þess á vissum ára fresti að meta störf útvarpsstjórans og ákveða hvort hann ætti að ráða aftur eða fá annan sem hefði annan starfsstíl og önnur markmið.

Eina skýringin á því að þetta þótti ekki umræðuvert var að þetta tíðkist ekki í venjulegum hlutafélögum. Það er rétt. Hvað með það, getum maður spurt? Eins og ég rakti áðan er Ríkisútvarpið allt öðruvísi en venjuleg hlutafélög í þeirri mynd sem það er nú í frumvarpinu. Jafnvel lítilsháttar atriði sem gætu verið til einhverra bóta eins og að ákveða stjórnarmönnum lengra kjörtímabil en eitt ár í einu, þá gjarnan með þeim hætti að það stæðist ekki á við hin hefðbundnu órofnu kjörtímabil þings og ríkisstjórnar. Því hefur heldur ekki verið sinnt. Stjórnskipulagið virtist koma af himnum ofan, eins og leirtöflurnar sem Móses voru afhentar á tindi Sínaífjalls og engin leið að hreyfa neitt við þeim.

Gagnrýni okkar á stjórnarhætti Ríkisútvarpsins hf., samkvæmt frumvarpinu, stendur því miður algjörlega óhögguð frá fyrri umræðu um málið. Þetta kerfi er kauðalegt og virðist fyrst og fremst upphugsað til að viðhalda pólitískum ítökum á inngripum. Viðbrögð ráðherra og stjórnarliða við breytingarhugmyndum og óskir um rökstuðning og samræður í þessu efni benda til þess að hér sé kominn kjarninn í samningum stjórnarflokkanna um tilhögun Ríkisútvarpsins. Þetta sé í raun innihaldið í samkomulagi stjórnarflokkanna um Ríkisútvarpið. Þeim sé sama um hlutverk og skyldur. Það ráðist svona í einhverjum barningi við Evrópusambandið. Fjármögnunin sé í raun aukaatriði, það þurfi að vísu að losna við þessi afnotagjöld, og hægt verði að koma henni fyrir í bili með nefskatti, enda er það atriði sem næsti fjármálaráðherra fær upp í hendurnar. Því er frestað í frumvarpinu. Upplýsingalögin, það er svo sem í lagi til þess að gera, eins og formaður nefndarinnar sagði, að rétta fram sáttarhönd sem síðan sé ekki tekið í. En að halda með sem öruggustum hætti yfirráðum ríkisstjórnarmeirihlutans, flokkanna tveggja, á Ríkisútvarpinu, þar virðist hnífurinn standa í kúnni. Ríkisútvarpið verði ríkisstjórnarútvarp. Dagskrá, mannval, stefna á markaði, m.a. gagnvart öðrum ljósvakamiðlum, þetta á tryggilega að vera að lokum í flokkshöndum með þeim tilbúningi sem hlutafélagsformið færir því í bili.

Forseti. Nú kemur að því að fjalla nokkuð um safnefni Ríkisútvarpsins og eignir þess í söfnum sínum og um réttarstöðu þess. Fyrir þessu er ágæt grein gerð að hluta í nefndaráliti meiri hlutans og ég ætla ekki að rekja það. Þar er prýðilega sagt frá hvernig háttar til um það efni. Ég hef ekki miklar athugasemdir við höfundarréttarmál í kringum safnefnið. Ég ætla þó að fjalla um aðra fleti á málinu.

Frá upphafi var það eitt af álitamálunum í frumvarpinu hver væri staða safnefnis Ríkisútvarpsins og þess efnis sem Ríkisútvarpið ætti með öðrum. Þessi mál urðu útundan í hinu endasleppa starfi menntamálanefndar á milli 1. og 2. umr. í hinu hefðbundna starfi nefndarinnar. En nú milli 2. og 3. umr. gafst betri tími til að fara í saumana á þessu eins og m.a. sést á nefndaráliti meiri hlutans. Ég þakka sérstaklega Atla Gíslasyni, varaþingmanni og lögmanni, fyrir frumkvæði sitt að því starfi en hann sat á þingi þegar sú vinna stóð yfir. Þetta er einkum þrennt.

Í fyrsta lagi þau atriði sem varða höfundarrétt og gerð er grein fyrir í nefndaráliti meiri hlutans sem ég ætla ekki að gera neinar athugasemdir við þótt það megi ræða lengi. Ljóst er að meginregla höfundarréttar er sú að framsal er ekki heimilt nema með samþykki allra rétthafa og leggur þær skyldur á Ríkisútvarpið að leita þess samþykkis. Ég tel að það sé ekki einungis í þeim tilvikum sem nefnd eru í nefndaráliti meiri hlutans heldur í öllum tilvikum. Það verði að fara í þá vinnu, verði þetta að hlutafélagi, að leita samþykkis allra rétthafa þess efnis sem Ríkisútvarpið varðveitir með einhverjum hætti.

Í öðru lagi er sá flötur á þessu máli að í safni Ríkisútvarpsins eru ómetanleg verðmæti. Ýmislegt sem þar er geymt er í rauninni þjóðminjar í hljóði og mynd, og menn hafa hingað til litið svo á að hér sé á ferðinni þjóðareign, eða að minnsta kosti réttur þjóðarinnar og skylda hennar til forsjár yfir því efni nákvæmlega á sama hátt eða að minnsta kosti á svipaðan hátt og háttar til um muni og gripi sem geymdir eru á Þjóðminjasafni, á Árnastofnun, á Listasafni Íslands og á öðrum höfuðsöfnum þjóðarinnar.

Þegar breyta á ríkisstofnuninni Ríkisútvarpinu í hlutafélag, þá hljóta menn að spyrja: Hvað verður um þetta? Er Ríkisútvarpinu heimilt að selja þetta frá sér? Er eðlilegt að fela nýju hlutafélagi að varðveita þetta efni? Er ef til vill réttara að stofna sjálfstætt safn í beinni ríkiseigu um þennan 76 ára gamla arf Ríkisútvarpsins? Við slíkum spurningum komu ekki skýr svör í starfi nefndarinnar sem var töluvert í þessum málum. En niðurstaða okkar var sú að ekkert í frumvarpinu hindraði stjórnendur nýja hlutafélagsins í að selja hvaða eignir fyrirtækisins sem vera skyldi.

Það kom fram hjá Sigurbirni Magnússyni, áðurnefndum, öðrum meginhöfundi frumvarpsins, að hann liti svo á að ákvæði 1. gr., um að sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess væru óheimil, merkti að ekki væri heimilt að selja einstaka rekstrarþætti út úr félaginu. Páll Magnússon mætti t.d. ekki selja hljóðvarpsreksturinn út úr Ríkisútvarpinu. Sigurbjörn taldi að samkvæmt anda laganna mætti ekki, eins og það heitir á máli fyrirtækjaviðskipta, strípa félagið, selja undan því mestallar eignir þess, þótt hlutabréf þess héldust í sömu höndum. Sigurbjörn túlkaði þetta ákvæði hins vegar þannig að þrátt fyrir þetta væri heimilt að selja einstakar eignir. Þegar á hann er hlustað er klárt að það má selja einstakar eignir og síðan sé hitt háð anda laganna meira og minna og umdeilanlegt hvað þarna er um að vera.

Meiri hluti nefndarinnar ákvað að lokinni gegnumferð okkar um þetta, eins og fram hefur komið, að reyna að stoppa í þetta stóra gat í frágangi safnefnis, og í raun gildir það um allar eignir Ríkisútvarpsins, með sérstakri nýrri tillögu þar sem Ríkisútvarpinu hf. er gert óheimilt að selja frá sér verðmæti sem hafa menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina, eins og þar stendur, og eru varðveitt hjá félaginu. Þetta er að sjálfsögðu betra en alls ekki neitt eins og það var áður í frumvarpinu þótt þetta orðalag bjóði til margs konar túlkunar.

Merkilegast við þessar breytingartillögur er það að með því viðurkennir meiri hluti menntamálanefndar að málið var og er upp í loft. Í frumvarpinu, eins og það stendur nú fyrir þessa tillögu, er Ríkisútvarpinu ekki einu sinni gert skylt að varðveita þetta efni. Þar segir eingöngu í 3. gr., einum töluliðnum, að Ríkisútvarpinu sé heimilt að geyma nýtt efni sem nýja hlutafélagið framleiðir eða kaupir. Jafnvel eftir samþykkta breytingartillögu meiri hlutans mætti Páll Magnússon henda því á haugana eða gefa það einhverjum þar sem einungis er talað um að Páll Magnússon megi ekki sem útvarpsstjóri selja efnið frá Ríkisútvarpinu, það af því sem hefur menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina, sem er auðvitað líka loðið og teygjanlegt hugtak.

Menn kann að reka minni til þess að efni útvarpsstöðvanna er skilaskylt og það er rétt. Það kom fram í rannsókn nefndarinnar að loksins núna eru lögin um skilaskylduna frá 2002 að taka á sig mynd hvað varðar Ríkisútvarpið. En skilaskyldan gildir auðvitað ekki um gamla efnið. Það er alveg óljóst hvað um það verður í nýja hlutafélaginu. Þess skal svo getið að um nýtt efni er einungis heimildarákvæði í frumvarpinu um að það megi varðveita en það er ekki skylda þannig að stjórnendur Ríkisútvarpsins hf. gætu túlkað það svo að skilaskylda Ríkisútvarpsins gagnvart kvikmyndasafninu nægi og Ríkisútvarpið þurfi ekki að geyma nokkurn skapaðan hlut af því sem framleitt verður eða kemst í einhvers konar umsjón hlutafélagsins eftir að það er stofnað.

Við í nefndinni kynntum okkur nokkuð stöðu safna Ríkisútvarpsins, m.a. með að fá á okkar fund Elínu Kristinsdóttur, safnastjóra Ríkisútvarpsins. Sem betur fer komumst við að því að ýmis þörf vinna er í gangi hjá Elínu og félögum hennar sem felst ekki síst í að bjarga frá glötun gömlum upptökum með brigðulli tækni þeirra tíma. En það kom líka fram hjá Elínu að þegar kemur að fjárveitingum þá mæti söfnin og safnavinnan sífelldum afgangi. Þetta kom mér ekki á óvart vegna þess að ég þekki þetta af kynnum mínum af Ríkisútvarpinu þar sem ég hef m.a. setið í útvarpsráði, að tilhneigingin er alltaf sú að láta söfnin mæta afgangi. Það er auðvitað skömm að þessu og það vissu og vita þeir menn sem að þessu hafa staðið en það getur hins vegar verið erfitt við þá að sakast vegna þess að stjórnendur hafa í áraraðir og áratugi verið að reyna að láta enda ná saman við að framleiða dagskrána fyrst og fremst og þess vegna er freistingin auðvitað sú að spara í öðrum þáttum sem ekki sjást daginn eftir eða veturinn eftir í dagskrá.

Þegar ég var í útvarpsráði höfðu menn vissulega áhyggjur af þessum efnum og við ræddum það m.a. hvort hægt væri að fá sérstakar fjárveitingar frá Alþingi, aðskildar frá öðrum fjárhagsafskiptum ríkissjóðs og Ríkisútvarpsins, en af því varð aldrei, nema talið, hvað sem olli því. Þar var auðvitað ríkisstjórnarmeirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við lýði eins og enn er. Ég man eftir að ég lagði meira að segja til um þetta, eða varpaði fram þeirri hugmynd hvort menn ættu ekki að kanna hvort einstök stórfyrirtæki væru tilbúin að leggja fram fé til þess að varðveita safnefnið eða a.m.k. bjarga því frá glötun og þá ef til vill gegn því að þeirra væri getið með einhverjum hætti við hvers konar endurflutning eða nýtingu efnisins. Í þetta var vel tekið en gerðist nú ekki mikið meira í því þannig að það er ekkert nýtt að söfnin standi í þessum skrefum hjá ríkisstofnuninni Ríkisútvarpinu.

Eina af spurningunum um framtíð safnanna og safnefnisins núna má einfaldlega orða svona: Úr því að ríkisstofnuninni hefur ekki tekist betur en við vitum að varðveita þetta merkilega efni og koma safninu fyrir með skikkanlegum hætti, hver sérstök von er þá til þess að stjórnendur hins nýja hlutafélags líti á það sem verkefni sitt að gera það? Það er, forseti, einfaldlega grunnkrafa ef Alþingi ætlar sér að breyta fyrirkomulagi RÚV í hlutafélagsátt, og í hvaða átt sem vera skal raunar, að þá sé öllum spurningum um þessi mál svarað og gengið þannig frá því að þetta efni sé í tryggri þjóðareigu og í öruggum höndum gagnvart möl og ryði sem grandað geta öllum jarðneskum hlutum og gagnvart því að allir hafi rétt til að nálgast þetta efni. Ég verð að segja að ef af þessu hlutafélagi verður teldi ég eðlilegast að rjúfa tengsl safnsins við félagið, halda því sem ríkisstofnun, eins og öðrum merkilegum söfnum, annað hvort sjálfstæðri ríkisstofnun eða sem hluta annars safns þó að safnefnið mætti svo geyma í Efstaleitinu til þæginda og hagræðis. En lágmark væri fyrir okkur að tryggja sérstakar fjárveitingar til safns Ríkisútvarpsins og hafa um það skýr sérákvæði í lögum um hlutafélagið eða hvað annað sem menn nú vildu gera úr Ríkisútvarpinu.

Svo er hins vegar ekki í fyrirsjáanlegum breytingartillögum sem meiri hlutinn og stjórnarliðið ætlar að gera heldur stendur einungis þessi nýja tillaga meiri hlutans um að ríkisstofnun sé óheimilt að selja frá sér hina merkustu hluti í safnefninu. Ég verð að segja að þótt ég meti vissulega þá hugsun sem liggur að baki þessari breytingartillögu þá stendur hún fyrst og fremst sem minnismerki um þær ráðstafanir sem hefðu þurft að liggja fyrir á þessum tíma og okkur er auðvitað skylt að gera við þessar breytingar sem nú eru fyrirhugaðar.

Það er falleg hugsun í því í nefndaráliti meiri hlutans að hvetja til þess að aðgangur sé tryggður að þessu safnefni í höndum hins nýja hlutafélags. Hins vegar eru engin ákvæði í frumvarpinu sem tryggja slíkan aðgang almennings og fræðimanna að gömlu efni úr söfnum Ríkisútvarpsins. Það veit enginn þegar þetta hlutafélag hefur verið stofnað hvaða ákvarðanir stjórnendur þess taka í þessu efni. Það veit enginn hvað verður um ýmsa þá þjónustu við almenning sem kostar peninga og hlutafélaginu er ekki skylt að lögum að inna af hendi og maður getur spurt sig hvort það sé líklegt að stjórnendur hlutafélagsins fremur en ríkisstofnunarinnar líti á slíka þjónustu sem forgangsverkefni, þannig að ekki sé dýpra tekið í árinni. Það má spyrja hvort það sé ekki þvert á móti líklegt að sumir stjórnendur nýja hlutafélagsins mundu hugsa þannig að það væri ekki snjallt að opna um of fyrir aðgang að þessu gamla efni þar sem með því gæti glatast samkeppnisforskot Ríkisútvarpsins í þessu máli.

Það er auðvitað þriðja atriðið í tengslum við safnefnið sem þarf að velta fyrir sér, því að með breytingartillögu meiri hluta menntamálanefndar við 2. umr. var þannig gengið frá að líta má á safnefnið sem lið í samkeppnisrekstri Ríkisútvarpsins eða þeim samkeppnisrekstri sem Ríkisútvarpinu er heimilt og nánast ætlað að sinna. Meiri hluti menntamálanefndar lagði nefnilega til við 2. umr. og fékk samþykkt að safnefni hins nýja fyrirtækis og meðferð þess væri flutt úr 3. gr., þar sem er eins og menn muna talað um hlutverk og skyldur hins nýja fyrirtækis sem almannaútvarps, og sett inn í 4. gr. þar sem fjallað er um samkeppnisrekstur. Hvatinn að þessu voru spurningar frá Eftirlitsstofnun EFTA sem rak hornin í að samkvæmt frumvarpinu var það flokkað sem hluti almannaútvarpsrekstrar að RÚV seldi eigið efni og eftirlitsstofnunin benti réttilega á að slík sala væri hluti af almennum samkeppnismarkaði. Ég verð að viðurkenna að ég hef nokkra samúð með þeim sem um þetta véluðu í frumvarpinu því að þetta hefur nú hingað til verið frekar smálegt og við talið það svona nokkuð sjálfsagt. Þarna er um að ræða þætti eins og jóladagatalið og Stikluþætti Ómars Ragnarssonar sem vissulega hafa gefið Ríkisútvarpinu og höfundum sínum ákveðnar tekjur en við höfum ekki hingað til litið á sem stórmál en er strangt til tekið eðlilegt. Ráð meiri hlutans og menntamálaráðherrans voru þá að færa heimildarákvæðið til að selja Stiklur og jóladagatalaspjöld úr 3. gr. inn í samkeppnispartinn, þ.e. 4. gr. En í þessum flutningum varð hins vegar samferða ákvæði um safnefni hins nýja félags sem áður var 14. töluliður 3. gr., og þar segir að eitt af hlutverkum Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps sé, með leyfi forseta:

„Að sjá um að frumflutt dagskrárefni félagsins verði varðveitt til frambúðar. Er félaginu heimilt að hafa til útláns, sölu og dreifingar valið dagskrárefni sem flutt hefur verið, enda sé gengið frá samningum við aðra rétthafa efnis um að slíkt sé heimilt.“

Það er því komið inn í samkeppnisreksturinn að Ríkisútvarpið skuli sjá um að frumflutt dagskrárefni félagsins verði varðveitt til frambúðar. Þetta er fingurbrjótur sýnist mér en hann hefur ekki verið lagaður þó að við höfum bent á það á sínum tíma og þetta þýðir að hlutafélaginu er ætlað eða a.m.k. heimilt að formi til að nýta allt sitt efni, það sem það sjálft hefur framleitt, í samkeppnisrekstri til útláns, sölu og dreifingar.

Í því máli er enginn aðskilnaður eftir því hvort efnið sjálft hefur verið framleitt eða keypt sem almannaútvarpsefni eða samkeppnisrekstrarefni. Þessari breytingartillögu meiri hluta menntamálanefndar við 2. umr. sem þegar hefur verið samþykkt, var ætlað að bæta úr frumvarpssmíðarklúðri gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA, því að hún virðist þegar stangast á við samkeppnissjónarmiðin. En samkvæmt þessari málsgrein frumvarpsins eins og það er nú er nýja hlutafélaginu heimilt að nota til samkeppnisrekstrar á sviði útlána, sölu og dreifingar, efni sem er framleitt eða keypt sem almannaútvarpsefni með fé sem telst ríkisstyrkur samkvæmt Evrópusambandsreglum, þ.e. með skattfénu frá hinum fræga nefskatti. Þetta er alveg sérstakt nýtt klúður sem meiri hluti menntamálanefndar hefur búið sér til og hefur auðvitað ekki verið gengið úr skugga um hvernig þetta stenst reglur Evrópusambandsins.

Eins og ég rakti áðan vekur þetta nýja ákvæði um svokallað frumflutt dagskrárefni félagsins, sem er væntanlega það efni sem verður til hjá Ríkisútvarpinu hf. eftir að sú formbreyting er um garð gengin, sérstakar spurningar um hið eldra safnefni í ljósi samkeppnisreglnanna. Þeim spurningum hefur ekki verið svarað í störfum nefndarinnar. Í fyrsta lagi spurningunni um hvort ákvæðið tekur með lögjöfnun einnig til eldra safnefnis, sem er mjög sennilegt, og hvort nýja hlutafélagið getur selt gamalt efni frá útvarpsfyrirtækinu í samkeppni við aðra slíka sölu og flokkað hagnað af slíkri sölu sem tekjur af samkeppnisrekstri. Þetta þarf að vera klárt.

Hitt er svo nokkuð stærra mál hvort nýja hlutafélaginu er heimilt að nota gamalt efni frá ríkisfyrirtækinu, þ.e. eldra efni Ríkisútvarpsins, annars vegar þá í þeim hluta starfsemi sinnar sem telst vera almannaútvarp og hins vegar í þeim hluta starfseminnar sem telst vera samkeppnisrekstur, t.d. í einhvers konar Sirkus-stöð sem ég bjó til hér áðan. Mér sýnist augljóst að í síðara tilvikinu mundu keppinautar mótmæla harðlega og telja á sér brotið þar sem Ríkisútvarpið hf. væri að nota gegn þeim gamalt efni sem á sínum tíma var fjármagnað með ríkisstyrk, nota slíkt efni gegn þeim í beinni samkeppni. Ég geri líka ráð fyrir að keppinautar mundu í fyrra tilvikinu krefjast þess að hafa sama aðgang að hinu eldra efni ríkisfyrirtækisins og nýja hlutafélagið. Þar sem það hafi verið framleitt og varðveitt á vegum ríkisstofnunarinnar Ríkisútvarpsins þá eigi markaðsstöð að geta fengið það til flutnings á sömu kjörum og Ríkisútvarpið hf. Þetta þarf líka að vera klárt í lögum, þetta þarf að vera klárt gagnvart samkeppnisreglum á Evrópska efnahagssvæðinu og gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA, sem fylgist með þeim reglum, gagnvart stjórnendum og starfsmönnum hins nýja hlutafélags og gagnvart keppinautum í samkeppnisrekstri og öllum öðrum þeim sem hreyfa sig á ljósvakavettvangi. En það er ekki klárt. Þrátt fyrir hina ítarlegu lýsingu í framhaldsnefndaráliti meiri hlutans á höfundarrétti standa málefni safnefnisins að öðru leyti en því, út af og hafa ekki verið kláruð. Þetta er verulegur galli á frumvarpinu og kynni að leiða til ýmissa eftirmála og það sýnir með öðru hvernig háttar til um þessa smíð á frumvarpinu þrátt fyrir fjórar atlögur meiri hlutans á þingi til að breyta sínu eigin verki.

Forseti. Nú er nokkuð langur tími liðinn síðan þessi ræða hófst en ég ætlaði mér að fjalla sérstaklega um komu fulltrúa Ríkisendurskoðunar og Samkeppniseftirlits á fund nefndarinnar. En um hana er í raun ekki mikið að segja. Óskum okkar um að þeir kæmu á fund við hefðbundna umfjöllun nefndarinnar fyrir 2. umr. var ekki sinnt. Því var hins vegar sinnt að kalla þá til fyrir 3. umr. Þeir gáfu fullnægjandi svör sem formaður nefndarinnar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, rakti hér að nokkru áðan.

Það er ljóst að Ríkisendurskoðun hefur ákveðið hlutverk og verður fróðlegt og gaman fyrir áhugamenn um þetta mál að sjá hvernig Ríkisendurskoðun hyggst leysa úr því vegna þess að það koma aftur fyrir hinar eilífu spurningar um almannaútvarp og samkeppnisrekstur. Það er líka ljóst að Samkeppniseftirlitið hyggst fylgjast með Ríkisútvarpinu, samkvæmt þeim lögum sem það vinnur eftir. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri þess, talaði á fundi okkar sérstaklega um að um RÚV kynnu að gilda ákvæði 11. gr. samkeppnislaganna um markaðsráðandi stöðu, 14. gr. um fjárhagslegan aðskilnað og að samkvæmt samkeppnislögunum gæti Samkeppniseftirlitið gert meiri kröfur en ráðgert er að gera í Ríkisútvarpslögunum, sérstaklega samkvæmt 16. gr. samkeppnislaga um skaðleg áhrif opinberra fyrirtækja í samkeppni. Ríkisendurskoðun annars vegar og Samkeppniseftirlitið hins vegar kynnu að þurfa að eiga við þá galla sem ég og við stjórnarandstæðingar teljum vera á lögunum varðandi skilin milli almenns útvarpsrekstrar og samkeppnisrekstrar. Ég vona að að því verði staðið af viti en fullri einurð. En það er frekar óheppilegt að þingið skuli taka þá áhættu að búa frumvarpið þannig út að jafnvel innlendar eftirlitsstofnanir, sem við höfum komið upp á síðustu árum, kunni að byrja á því næstu árin að krukka í galla og smíðisbrot á lögunum.

Ég ætlaði líka að tala um eiginfjárstöðu og eignir RÚV og um hina undarlegu stöðu virðisaukaskattsmála í fyrirtækinu. En ég veit að síðari ræðumenn, þar á meðal hv. þm. Einar Már Sigurðarson, félagi minn í menntamálanefnd, ætlar að fjalla um það. Ég ætla þess vegna ekki að þreyta þingmenn með því en um virðisaukaskattinn verð ég hins vegar að segja nokkur orð.

Þannig er að Ríkisútvarpið vill gjarnan vera þátttakandi í virðisaukaskattskerfinu. Það er eðlilegt og hagræði að því fyrir fyrirtæki með jafnmikinn rekstur og Ríkisútvarpið er. Nú verða afnotagjöld ekki lengur hluti af tekjum Ríkisútvarpsins og enginn virðisaukaskattur fylgir nefskattsinnheimtunni. Þetta þurfti að athuga sérstaklega og það kom í ljós að til að haldast inni í virðisaukaskattskerfinu þarf fyrirtækið að hafa umtalsverðan innskatt umfram útskatt. Að vísu stendur að það skuli vera svo að jafnaði. Það þýðir að af kerfislegum ástæðum skapast sérstakur þrýstingur á stjórnendur fyrirtækisins til að halda sig innan virðisaukaskattskerfisins. Til þess að tryggja umtalsverðan innskatt þá er gott fyrir Ríkisútvarpið að selja sem allra mestar auglýsingar og hafa sem allra mesta kostun í gangi en kaupa hins vegar sem allra minnst efni af því að það kynni að auka útskattinn. Þátttaka Ríkisútvarpsins í virðisaukaskattskerfinu hefur því bein áhrif á dagskrárstefnu og fjármögnunarstefnu Ríkisútvarpsins, þ.e. öfug áhrif við það sem a.m.k. við samfylkingarmenn og að ég hygg fleiri teljum réttast. Í staðinn fyrir að hvati sé til að draga úr auglýsingum og kostun verður þetta fyrirkomulag til þess að menn vilja auka auglýsingar og kostun. Í staðinn fyrir að auka efniskaup að utan, íslenskt efni einkum, verður hvatinn sem virðisaukaskattskerfið býr til eða þátttaka ríkissjóðs þar sá að reyna að minnka þessi kaup.

Ég geri mér grein fyrir því, hef starfað í fjármálaráðuneytinu, veit hvernig þar er hugsað og hvernig háttar til um fjármál þjóðarinnar að flas er ekki til fagnaðar í þeim efnum. Ég tel þó að yfir þetta mál hefði þurft að leggjast betur en til þess var enginn vilji. Í fjármálaráðuneytinu og af hálfu ríkisskattstjóra standa embættismenn eðlilega vörð um virðisaukaskattskerfið, eins og þeim ber að gera, og neita öllum undanþágum eða sérskipulagi. Það hefði verið menntamálaráðherrans að reyna að finna lausn á þessu máli og athuga hvort sérstaða Ríkisútvarpsins væri ekki slík að hún ætti líka við um þátttökuna í virðisaukaskattskerfinu þannig að aukaatriði í skipulagi Ríkisútvarpsins og rekstri þess hafi ekki bein áhrif á markmiðin í rekstrinum, á hegðunina gagnvart því sem ég nefndi áðan, annars vegar auglýsingum og kostun og hins vegar aðkaupum efnis.

Um réttindi starfsmanna ætla ég að fela síðari ræðumönnum að fjalla. Ég vil aðeins segja að það er nánast sorglegt, þrátt fyrir þá umfjöllun sem fékkst í nefndarstörfum nú, heimsóknum frá samtökum starfsmanna og fulltrúum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, aukalegum umsögnum frá þessum aðilum og sérstökum tillögum frá BSRB og BHM um hvernig ákvæðið um réttindi starfsmanna gæti litið út, að ekkert var með það gert. Öllum óskum um breytingar á þessu var einfaldlega hafnað. Menn létu slag standa með hvernig færi, annars vegar með starfsanda í Ríkisútvarpinu við breytingar sem fram undan eru ef þessi lög verða samþykkt, sem geta orðið sársaukafullar og dregið á eftir sér dilk lengra fram í tímann en menn hyggja nú, og hins vegar gagnvart málum sem menn kynnu að fara í við ríkið vegna þess arna. Það hefur oft verið fylgifiskur breytinga á ríkisstofnunum í hlutafélög. Ég harma þau málalok og bið þingmenn í menntamálanefnd og aðra að kanna hug sinn sérstaklega gagnvart þeim þætti málsins. Það er mikill óþarfi að skilja við réttindi starfsmanna í uppnámi og óánægju. Það fegrar ekki málstað þeirra sem standa fyrir hlutafélagsvæðingunni að haga sér með þessum hætti.

Í lokin vil ég segja, forseti, ákaflega stuttlega vegna þess að ég hef sagt það áður, að frumvarpið hefur að verulegu leyti batnað við meðferð málsins í nefndinni milli 2. og 3. umr., þ.e. að sjálfsögðu með breytingartillögu sem ég geri ráð fyrir að samþykkt verði ef frumvarpið heldur sína leið í gegnum þingið, með breytingartillögu meiri hlutans sem hann hirti frá minni hlutanum, um að upplýsingalög gildi um Ríkisútvarpið. Það er afar mikilsvert. Ég ætla ekki að draga fjöður yfir það og tel að það sé afar mikilsvert mál. Hins vegar er það ekki nema einn af gagnrýnispunktum okkar, sem eru fjölmargir, einn af hinum stóru gagnrýnispunktum okkar.

Við í stjórnarandstöðunni í menntamálanefnd höfum ákveðið að halda við frávísunartillögu okkar sem kemur fram í framhaldsnefndarálitinu sem áður var lesið. Í henni felst sú þríhliða gagnrýni sem markverðust er fyrir utan alls kyns aðra, m.a. réttindi starfsmanna og fjármögnunina.

Í fyrsta lagi hefur með frumvarpinu ekki verið tekin nein afstaða til þess hvort Ríkisútvarpið á heldur að vera almannaútvarp eða blanda af almannaútvarpi í markaðsstöðu í framhaldinu. Í raun hefur þetta frumvarp ekki tekið afstöðu til þess hvernig Ríkisútvarpið á að vera í framtíðinni. Það skilur það að sumu leyti eftir í sömu óvissunni og sama ruglinu og viðgengist hefur síðustu 20 ár, frá því að einkaleyfi þess var afnumið og Ríkisútvarpið varð jafningi, vissulega fremst meðal jafningja, annarra stöðva á fjölmiðlavettvangi. Að geta ekki skorið úr þessu og geta ekki átt um það frjóa umræðu við stjórnarandstöðuna og alla hagsmunaaðila gerir að verkum að hætt er við, svo það sé vægt orðað eins og verið hefur í þessari ræðu, árekstrum við reglur Evrópusambandsins sem við höfum undirgengist. Hætt er við árekstrum áfram við keppinauta á fjölmiðlavettvangi á samkeppnissviði innan lands og hætt er við því, ef þessari stefnu heldur áfram, að almenningur hætti smám saman að skilja til hvers Ríkisútvarpið er og tryggð hans, sem hefur verið dýrmætasta eign Ríkisútvarpsins, við útvarpið rofni.

Í öðru lagi hefur gagnrýni okkar falist í að hlutafélagsformið henti ekki RÚV, sé óheppilegt. Á það hefur Þorsteinn Pálsson bent, kannski öðrum fremur af áberandi þátttakendum í samfélagsumræðunni á vikunum áður en þinginu var frestað. Þótt það sé skárra þegar um það gilda upplýsingalög þá fylgir forminu alls kyns klúður og vitleysa sem við höfum bent á áður. Þar fyrir utan er, fyrir kreddumenn, hlutafélagið sem hér er að verða til gervihlutafélag, hlutafélag að nafninu til en ekki í reynd vegna þeirrar sérstöðu Ríkisútvarpsins sem þó er gert ráð fyrir í frumvarpinu. Hér er að megninu til, samkvæmt Evrópureglum, ekki um að ræða fyrirtæki sem hefur hagnað af meginmarkmiðinu með samkeppnisrekstri á almennum markaði.

Í þriðja lagi, og með því lýk ég ræðu minni, felst gagnrýni okkar í því, og nánast grátlegt að þurfa að tyggja það upp enn og aftur, að með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að flokkspólitískum ítökum ríkisstjórnarflokka í Ríkisútvarpinu linni. Skipulagið er ekki þannig að það tryggi flokkspólitísk áhrif, sem betur fer, en í því er ekkert sem kemur í veg fyrir það. Hinn árlega kosni ríkisstjórnarmeirihluti í hinu nýja útvarpsráði ræður og rekur útvarpsstjóra eftir sínum eigin hentugleikum. Ekki er gert ráð fyrir neins konar temprun á völdum útvarpsstjóra og stjórnar eða menntamálaráðherra í þessu efni. Skipulagið er órætt í frumvarpinu þannig að um það sér ríkisstjórnarmeirihlutinn í stjórninni, útvarpsstjóri hennar og menntamálaráðherra sem yfir öllu ríkir, með þeim afleiðingum að hér veldur einfaldlega hver á heldur. Því miður treysti ég, eftir öll fréttastjóramál undanfarinna ára og áratuga, ekki ríkisstjórninni frekar en öðrum ríkisstjórnum í framtíðinni til að þróa áfram á Ríkisútvarpinu vinnubrögð sem losa það við hin flokkspólitísku ítök. En þau eru að mínu viti uppspretta vandræða sem eitra starfsemi Ríkisútvarpsins.

Við höfum lagt til að málinu verði vísað frá. Við flytjum tillögu um að málinu verði vísað frá að lokum þessarar umræðu. Ég held að við í stjórnarandstöðunni séum sammála um að Ríkisútvarpið eigi að halda áfram að vera til í því formi og með því skipulagi sem tryggir að það sé almannaútvarp, öflugt útvarp og sjálfstætt. Þetta frumvarp gerir ekki ráð fyrir að tryggja neitt af þessu þrennu. Þess vegna eru það mín ráð til annarra hv. þingmanna, undir lok framsöguræðu minnar fyrir nefndaráliti minni hlutans, að við fleygjum frumvarpinu í ruslafötuna og tökum til við ný vinnubrögð í þessum efnum.