132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

ólaunuð leyfi starfsmanna ríkisins.

681. mál
[13:37]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Með bréfi dagsettu 24. júlí 1998 var fjármálaráðuneytinu falin framkvæmd þessarar þingsályktunar sem var samþykkt 28. maí 1998. Forsætisráðuneytið óskaði með bréfi dagsettu 30. mars sl. eftir upplýsingum um framvindu málsins hjá fjármálaráðuneytinu og svar ráðuneytisins var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Vegna fyrri liðs fyrirspurnarinnar er því til að svara að reglur af þessu tagi hafa enn ekki verið settar. Ástæða þess er sú að bréf forsætisráðuneytisins, dagsett 24. júlí 1998, þar sem fjármálaráðuneytinu var falin framkvæmd þingsályktunar þeirrar sem fyrirspurnin beinist að var bókað sem afgreitt og gengið frá því sem slíku í skjalasafni ráðuneytisins á fyrri hluta ársins 2000. Því miður hefur ekki tekist að rekja hvernig þessi mistök áttu sér stað en þær litlu vísbendingar sem fyrir hendi eru benda til að mannaskipti innan ráðuneytisins gætu hugsanlega hafa spilað þar inn í án þess að hægt sé að fullyrða frekar um það.

Um leið og þessi mistök eru hörmuð mun af hálfu fjármálaráðuneytisins verða gengið í það að setja slíkar reglur. Sú vinna mun óhjákvæmilega taka nokkurn tíma þar sem nokkur álitaefni vakna strax, eins og t.d. hvaða stofnanir skuli flokka sem alþjóðastofnun, hvenær menn teljast kosnir til trúnaðarstarfa og hvað er fellt undir trúnaðarstörf. Eins er það ekki auðvelt að taka afstöðu til þess hvenær og að hvaða leyti leyfistíminn skuli metinn til réttindaávinnings, svo nokkur atriði séu nefnd.

Vegna seinni liðs fyrirspurnarinnar er því til að svara að af sömu ástæðu og fyrr greinir hefur ekki verið kannað hvaða reglur eru í gildi annars staðar á Norðurlöndunum um ólaunuð leyfi frá störfum, en fjármálaráðuneytið mun leita eftir upplýsingum frá nágrannaþjóðum okkar um það hvaða reglur þeir noti í slíkum tilvikum.“

Ég get því miður ekki sagt miklu meira um þetta mál, virðulegur forseti, en forsætisráðuneytið mun að sjálfsögðu fylgja því eftir en harmar jafnframt þær tafir og þau mistök sem orðið hafa. Ég tel að mikilvægt sé að um þetta séu reglur. Samkvæmt minni reynslu hefur það ávallt verið þannig að hvatt hefur verið til þess að Íslendingar taki við störfum hjá alþjóðastofnunum og ég tel nauðsynlegt að svo sé og að embættismenn okkar hafi gott svigrúm til þess vegna þess að af því er mikill sómi. Þeir aðilar sem hafa tekið þátt í slíkum störfum hafa samkvæmt minni reynslu reynst vel í þeim störfum og orðið okkur á margan hátt til gagns. Að því er mig varðar sem ráðherra hef ég ávallt hvatt til þess að Íslendingar tækju við slíkum störfum og að reynt sé að greiða fyrir því eftir því sem nokkur kostur er.

Í öðrum tilvikum er það þannig að við eigum möguleika á því að setja menn til slíkra starfa þó að það séu oft mikil undantekningartilvik, hvort sem það er hjá EFTA eða ESA eða stofnunum sem við eigum aðild að. Þá eru það ekki viðkomandi embættismenn sem ákveða það, heldur þeir ráðherrar sem hafa með málið að gera. Það gildir því nokkuð annað um það. En ég endurtek að ég harma þessi mistök og gengið verður eftir því að ganga í þetta sem fyrst.