132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

samræmd lokapróf í grunnskóla.

621. mál
[14:13]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það ánægjulega við þessa umræðu er að við viljum öll að þegar börnin okkar koma út úr grunnskóla ráði þau yfir ákveðinni færni, þekkingu og kunnáttu. Það er síðan spurning hvernig við getum metið það til að þróa skólastarfið áfram en líka til að hjálpa þeim áfram upp í gegnum skólakerfið, til að leiðbeina þeim áfram o.s.frv.

Mér heyrist á öllu að menn séu reiðubúnir að halda í ákveðna tegund af samræmdum prófum, þ.e. ef list- og verkgreinar verða teknar með og sá þáttur metinn. Ég undirstrika að ég er reiðubúin til að skoða þann þátt sérstaklega. Við verðum að hafa í huga að við erum með þessa stefnu varðandi einstaklingsmiðað nám og þá verðum við líka að sinna henni. Það má vel vera að það sé hægt að gera með því m.a. að taka tillit til list- og verkgreina, þekkingar og kunnáttu nemenda sem er sjálfsagt að skoða.

Ég bendi einnig hv. þingmönnum á að þau sem sitja í nefndinni sem er að endurskoða grunnskólalöggjöfina eru, auk fulltrúa minna — en þar er formaður nefndarinnar Guðrún Ebba Ólafsdóttir sem er náttúrulega margreynd í skólastarfi fyrir utan að vera líka reynd á sveitarstjórnarsviðinu — fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fulltrúi skólastjóra, fulltrúar frá Kennarasambandi Íslands og það er að sjálfsögðu fulltrúi frá foreldrum, þ.e. Heimili og skóla.

Sjónarmið sem hér hafa verið reifuð, líka sjónarmið nemenda, kennara og annarra sem láta sig málið varða, verða rædd í þessari nefnd sem mun komast að ákveðinni niðurstöðu og við munum síðan fá tækifæri til að ræða m.a. á hinu háa Alþingi.

Ég get líka tekið undir það og fagna því sérstaklega að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ræðir hér um námskrána. Það er mín skoðun að námskráin eigi að vera ákveðinn rammi og að við eigum síðan að veita skólanum sem mestan sveigjanleika. Þá er ég ekki síst með framhaldsskólana í huga. Þetta eru atriði sem við erum að skoða í samvinnu og sátt við m.a. Kennarasamband Íslands í hinu svonefnda 10 skrefa samkomulagi.