132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

skoðanakannanir.

769. mál
[14:57]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Skoðanakannanir eru eins misjafnar og þær eru margar. Sumar eru vísindalegar og nákvæmar, aðrar eru illa gerðar og ná ekki þeim árangri sem að er stefnt. En þær ráða ekki gengi eða gæfuleysi stjórnmálaflokka. Það sem mér finnst hins vegar vera brennandi spurning hvað varðar skoðanakannanir og pólitík er hvort við eigum ekki að skoða það að fara sömu leið og gert er í sumum Evrópulöndum, eins og t.d. á Ítalíu og nokkrum öðrum löndum að ég held, að banna birtingu á skoðanakönnunum síðustu dagana fyrir kosningar hvort sem það er heil vika eða 3–4 dagar. Ég held að það mundi skapa heilbrigðara andrúmsloft dagana fyrir kosningar af því að skoðanakannanir stýra mjög umræðunni og stýra því að lokum t.d. hvernig einstökum flokkum gengur, sérstaklega litlu flokkunum sem mælast úti. Ef þeir mælast úti í öllum könnunum er líklegra að á bresti flótti. Ég held að andrúmsloftið yrði heilbrigðara ef menn skoðuðu það að banna birtingu kannana síðustu dagana fyrir kosningar.