132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

hrefnuveiði.

772. mál
[15:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra lét þau orð falla úr ræðustóli Alþingis að stunda þyrfti hvalveiðar til þess að byggja upp þorskstofninn. Nefndi hann þá sérstaklega að það þyrfti að veiða hrefnuna þar sem hún æti meira en fyrri kannanir hefðu sýnt.

Þessi vitleysisumræða, sem hæstv. sjávarútvegsráðherra stóð hér fyrir, rataði í fjölmiðla en enginn fjölmiðlamaður spurði hæstv. ráðherra hve margar hrefnur þyrfti að veiða til þess að þorskstofninn næði fyrri stærð. Ég er á því að það verði að skoða þessi ummæli hæstv. ráðherra, að það þurfi að veiða örfá dýr til þess að byggja upp þorskstofninn, í ljósi þess að menn eru ráðþrota. Menn standa einfaldlega ráðþrota gagnvart því hvernig fiskveiðistefnan hefur beðið skipbrot. Þessar barnalegu vangaveltur, að það sé hægt að kenna hrefnunni um hvernig komið er, lýsa þeirri örvæntingu sem hæstv. ráðherra finnur til þegar hann horfir upp á afleiðingar íslenska kvótakerfisins.

Ef litið er yfir aflatölur Íslendinga nú og það ár sem landhelgin var færð út í 200 mílur, og mér finnst það við hæfi vegna þess að þessa dagana fara fram hátíðahöld í því tilefni, er niðurstaðan sú að við höfum ekki gengið til góðs. Árið 1978 var afli Íslendinga um 320 þús. tonn og er þá ótalinn afli útlendinga. Ef við lítum á hver afli Íslendinga er núna þá er hann rétt liðlega 200 þús. tonn. Eftir 20 ára stjórn vísindamanna, sem hafa trúað á þessa reikningslegu uppbyggingu á þorskstofninum, hefur ekkert gengið. Við höfum mínusárangur, 100 þús. tonna mínusárangur. Það er alvarlegt.

Ég er á því að hæstv. sjávarútvegsráðherra ætti að líta til annarra þátta, fæðuframboðs og sjálfsráns í hafinu, það er m.a. þegar stór þorskur étur minni þorsk. Ef við lítum til þeirrar staðreyndar að það geta verið 200 milljónir nýliða í hafinu, það er þá þriggja ára fiskur sem er að koma inn í veiðina, — ef hann étur einn fisk yfir árið þá fækkar hann yngri þorskum um sama fjölda, 200 milljónir. Ef þetta er hálfskílóa fiskur sem hann étur þá hverfa þarna ofan í þorskinn, það sem hann étur undan sjálfum sér, 100 þús. tonn árlega. Ég er á því að hæstv. sjávarútvegsráðherra ætti að líta til þessara þátta í staðinn fyrir að horfa til þess að örfáar hrefnur skipti sköpum hvað varðar svokallaða uppbyggingu þorskstofnsins, frú forseti.