132. löggjafarþing — 118. fundur,  31. maí 2006.

afnám verðtryggingar lána.

755. mál
[18:11]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja að ég held að það sé umhugsunarefni fyrir hæstv. forseta hvort hún hefði ekki átt að gera athugasemd hér við ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar þegar hann talar um að hann sé ekki viss um að ráðherrann hafi lesið svar sitt áður. Ég fullyrði að svona hefði ekki verið komið fram við karlmann sem ráðherra. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem komið er fram með þessum hætti gagnvart kvenráðherrum. Ég gæti nefnt nokkur dæmi bara frá þessum vetri sem segja mér að það er komið fram með öðrum hætti gagnvart konum sem eru ráðherrar og það er stundum kallað karlremba.

Hvað varðar það svar sem ég gaf hér þá er það þannig að þetta mál er til umfjöllunar í nefnd sem ég hef skipað vegna þess að þetta er mikilvægt mál. Þetta er stórt mál. Við verðum að vita hvað við gerum og hvað við erum að gera ef við förum út í að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur í sambandi við verðtryggingu hér á landi. Við erum með mjög lítið hagkerfi, einstakt á heimsvísu. Það er örsmátt og þess vegna erum við viðkvæm fyrir öllum sveiflum. Við sem komin erum yfir miðjan aldur, ég leyfi mér að segja það, munum líka eftir þeim tíma þegar sparifé brann upp í verðbólgu. Við getum ekki kallað slíkt yfir okkur aftur.

Þær sveiflur sem verið hafa á síðustu vikum segja okkur að við erum ekki komin í gegnum það að hér geti ekki komið upp verðbólga aftur, því miður. Auðvitað eru það mikil vonbrigði að verðbólgan er allt of há einmitt nú eins og málin standa í dag.

Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það að einmitt þessi verðtrygging geti valdið óstöðugleika í efnahagskerfinu en ég tel þó að svo sé ekki vegna þess að aðalvandamálið hjá okkur er það að við getum því miður (Forseti hringir.) ekki treyst því að við höldum stöðugleika í efnahagskerfinu til framtíðar og þess vegna tel ég a.m.k. miklar líkur á (Forseti hringir.) að verðbólgan haldi áfram að kræla á sér.