132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

verðbréfaviðskipti.

655. mál
[14:55]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, með síðari breytingum.

Nefndarálitið er á þskj. 1314 og þar er getið um gesti sem komu á fund nefndarinnar sem og umsagnir sem henni bárust.

Með frumvarpinu er gerð tillaga að breytingum á tilteknum þáttum laga um verðbréfaviðskipti er lúta að útboðs- og skráningarlýsingum. M.a. er hugtakið „fagfjárfestir“ skilgreint nánar en gert er í gildandi lögum.

Með hliðsjón af umsögn ríkisskattstjóra eru lagðar til tvær breytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að við b-lið 1. gr. frumvarpsins bætist ný málsgrein sem kveði á um að fjárhæðir í 7. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna taki mið af breytingum á gengi evru eins og gildir um fjárhæðir í IV. kafla laganna en í báðum tilvikum er um að ræða innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2003/71/EB. Er það gert til að fjárhæðir í íslenskum krónum í lögunum séu í samræmi við fjárhæðir tilskipunarinnar í evrum. Í öðru lagi er lagt til að í stað orðsins „fyrirtæki“ í 2. málsl. f-liðar a-liðar 1. gr. komi „félög“. Er það til samræmis við enskan texta sem liggur fyrir.

Í umsögn Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja eru m.a. gerðar athugasemdir við þýðingu á tveimur hugtökum. Af þeirri ástæðu telur nefndin rétt að taka fram að með hugtakinu „innborgun“ í d-lið 3. gr. frumvarpsins er átt við enska orðið „deposit“ úr tilskipuninni og að með orðunum „markaðssett og/eða seld“ í a-lið 4. gr. frumvarpsins er vísað til enska hugtaksins „placing“ í tilskipuninni. Að öðru leyti vísa ég til nefndarálits á þskj. 1314.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi við afgreiðslu málsins og er samþykkur áliti þessu.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Hjálmar Árnason, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Ásta Möller og Ögmundur Jónasson.