132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

brottfall laga um Flugskóla Íslands hf.

480. mál
[17:33]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé að hluta um misskilning að ræða hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Í athugasemdum við frumvarp samgönguráðherra eru talin upp helstu rök fyrir því að leggja beri þessi lög um Flugskóla Íslands af.

Þau helstu eru: Lögin fjalla að stórum hluta um aðkomu ríkisins sem einn af stofnendum Flugskóla Íslands og eigenda að skólanum. Þetta eru auðvitað úrelt ákvæði þar sem skólinn er eingöngu í eigu einkaaðila og fyrirtækja í flugrekstri. Engin þörf er á sérstakri íslenskri löggjöf af þessu taginu um önnur atriði umfram það sem tiltekið er í loftferðalögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Við verðum að gera okkur grein fyrir að öll starfsemi skólans miðar að því að uppfylla kröfur sem settar eru erlendis samkvæmt kröfum JAR-FCL frá JAA og reglugerð um flugskóla, nr. 692/1999, sem byggir á ákvörðun loftferðalaganna. Þetta eru alþjóðlegar kröfur sem eru grundvöllur þess að aðrar þjóðir viðurkenni íslenskt flugmannsnám og þar með íslenska flugmenn. Ég leyfi mér að fullyrða að séríslenskar kröfur gætu komið okkur og íslenskri flugmannsstétt í mikil vandræði.

Á sama hátt er eftirlit með að starfsemi skólans uppfylli hinar alþjóðlegu kröfur sennilega það strangasta sem íslenskur skóli þarf að búa við. Því er lýst ítarlega í athugasemdum við frumvarpið. Þegar hv. þm. Jón Bjarnason talar um að aðhald í rekstri skólans geti skort ef lögin verða felld úr gildi, þá held ég að um misskilning sé að ræða.

Að lokum vil ég nefna til að bregðast enn frekar við áhyggjum hv. þm. Jóns Bjarnasonar að í lok athugasemda við frumvarpið er tiltekið að samgönguráðuneytið muni gera þjónustusamning við Flugskóla Íslands hf. Mikilvægt er að í þeim samningi verði kveðið á um þær almennu leikreglur sem um þetta mál þurfi að gilda, m.a. að ákvæði stjórnsýslulaga verði þar höfð til hliðsjónar.