132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[20:54]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að fagna þeirri merkilegu réttarbót sem hér er á ferðinni og þegar þetta frumvarp verður orðið að lögum hefur verið komið á, að mestu, formlegu jafnrétti á milli sam- og gagnkynhneigðra og ég tel ástæðu til að fagna því sérstaklega. Eitt skref er þó enn þá óstigið sem er að heimila samkynhneigðum kirkjulega hjónavígslu eins og gagnkynhneigðum og ég treysti því að þingið muni samþykkja frumvarp frá Guðrúnu Ögmundsdóttur og fleirum sem liggur fyrir í þá veru.

Ég vil líka segja það, virðulegur forseti, að það er mér mikil ánægja að eiga þátt í því að samþykkja þetta frumvarp þegar það verður að lögum vegna þess að árið 1992 flutti ég hér í þingsalnum, og það var raunar mitt fyrsta þingmál, þingsályktun um að greina það misrétti, lögformlega, félagslega og menningarlega misrétti sem væri á milli sam- og gagnkynhneigðra og grípa til aðgerða í framhaldi af því. Það voru ekki margir í þingsalnum þegar talað var fyrir því máli árið 1992, ég held að það hafi verið þrír þingmenn og málið flutt eftir miðnætti undir þinglok og ég átti ekki von á því þá að það tækist að ná fram því jafnrétti í einu vetfangi. En nú er þetta að verða að veruleika. Það hafa ýmsir áfangar náðst á undanförnum árum en hið formlega jafnrétti er að mestu leyti komið í höfn með þessari lagasetningu og ég lýsi mikilli ánægju með að þetta skuli gerast og að fá að taka þátt í afgreiðslu þessa máls.