132. löggjafarþing — 123. fundur,  3. júní 2006.

almennar stjórnmálaumræður.

[13:32]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Við lifum á sérkennilegum tímum í íslenskum stjórnmálum þessa dagana. Við lifum á tímum þegar tækifærin hafa kannski aldrei verið meiri en akkúrat núna fyrir atorkusamt fólk, fyrir þjóð sem er menntuð og rík af hugmyndum. En þjóðin fær ekki notið þessara hugmynda, þeirrar hugmyndaauðgi sem í henni býr vegna þess að ríkisstjórnin sem hér situr sér ekki út úr augum vegna eigin vandamála, vegna þess að ríkisstjórnin, hið blágræna valdabandalag Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks nær ekki að skapa þær aðstæður sem þarf, nær ekki að skapa þann stöðugleika sem er forsenda þess að nýjar hugmyndir fái skotið rótum í íslensku samfélagi. Þessi ríkisstjórn nær ekki og vill ekki skapa þann jöfnuð í samfélaginu sem þarf til þess að við getum talað um raunveruleg lífsgæði, lífsgæði þar sem allir njóta þeirra tækifæra og þess besta sem í þeim býr.

Ríkisstjórnin hefur birst okkur á undanförnum dögum, allt frá því að sveitarstjórnarkosningarnar voru haldnar og reyndar fyrir þann tíma, þrotin að kröftum, þurrausin af hugmyndum. Hugmyndalegur grunnur hennar var lagður af jafnaðarmönnum með EES-samningnum og nú er þessi hugmyndalegi grunnur upp urinn og ríkisstjórnin veit ekkert hvað hún á til bragðs að taka. Hún veit ekkert hvað hún á til bragðs að taka í efnahagsmálum, í utanríkismálum, velferðarmálum, atvinnumálum né menntamálum. Hún getur ekki stjórnað sjálfri sér, hvað þá samfélaginu. Hugmyndirnar eru farnar, verkstjórinn er farinn. Verkstjórinn er farinn upp í Seðlabanka og nú búumst við við því á næstu dögum að þriðji verkstjórinn á jafnmörgum árum muni taka við stjórn í núverandi ríkisstjórn. Sá verkstjóri ber auðvitað mesta ábyrgð á því hvernig komið er í samfélaginu, hvernig komið er í efnahagsmálum, þ.e. formaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur setið langar setur í fjármálaráðuneytinu og stjórnað efnahagsmálunum þaðan. Nú á hann að taka við stjórnartaumunum.

Það er auðvitað ekki björgulegt og það er þess vegna sem aðilar vinnumarkaðarins róa nú lífróður til að bjarga því sem bjargað verður áður en sú breyting verður gerð. Það mun kannski verða næsta forsætisráðherra til happs að aðilar vinnumarkaðarins verða búnir fyrir haustið að bjarga því sem bjargað verður rétt eins og þeir gerðu í aðdraganda kosninganna 2003, veturinn 2001–2002 þegar þeir björguðu líka því sem bjargað varð í efnahagsmálum.

Við sitjum hérna eftir með blágrænt hræðslubandalag við völd sem herðir stöðugt tökin á stofnunum samfélagsins. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa bundist samtökum um að skipta með sér völdum í samfélaginu, helmingaskipti í ríkisstjórn, í sveitarstjórnum og í fjölmiðlum. Þeir skipta með sér bönkunum, það gerðu þeir í gegnum einkavæðingarferlið, þar skiptu þeir með sér bönkunum og þeir raða sínu fólki inn í helstu stofnanir samfélagsins. Þeir herða tökin á samfélaginu hvar sem þeir koma því við og þetta er ekkert annað en hræðslubandalag sem er þrotið að kröftum og bandalag um valdið eitt.

Það er alveg sama hvaða skilaboð fólk sendir í kosningum, það skiptir engu máli, það þarf alltaf þetta sama hræðslubandalag alls staðar. Stjórnleysið og ráðleysið í ríkisstjórninni er algjört og það er dapurlegt í rauninni að horfa upp á ráðherrana Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde, leiðtoga ríkisstjórnarinnar, í þeim marvaða sem þeir troða núna þessa dagana. En þó að raunalegt sé að horfa upp á þá er miklu alvarlegra fyrir þjóðina að sitja uppi með þetta. Ég held að tímabært sé að lina þjáningar þessara ágætu manna sem hér sitja.

Förum aðeins yfir sviðið. Efnahagsmálin, hvernig er staðan þar? Krónan í frjálsu falli og raunar skoppar hún eins og korktappi í ólgusjó alþjóðlegra fjármagnshreyfinga og samt þora þessir menn, sérstaklega ekki Sjálfstæðisflokkurinn, einu sinni að bjóða auganu að Evrópu. Verðbólgan er að nálgast tveggja stafa tölu, vextir eru hvergi hærri á vesturhveli en á Íslandi.

Kjaramálin, hvernig standa þau? Það er væntanlega komið að því að segja þurfi upp í nóvember launaliðum kjarasamninga nema aðilum vinnumarkaðarins takist fyrir þann tíma að bjarga því sem bjargað verður. Ójöfnuður hefur aldrei aukist eins mikið og í tíð þessa blágræna bandalags. Verðbólgan, sem er eins og ég sagði áðan komin í tveggja stafa tölu eða u.þ.b. á ársgrundvelli, heggur auðvitað líka í þá sem hlífa skyldi, þá sem hafa lent í þyngri skattbyrðum vegna þess að skattleysismörkin hafa ekki haldið í við verðþróunina, þá sem verða fyrir skerðingum á lífeyri, sem hafa orðið fyrir skerðingum á vaxtabótum og á barnabótum. Verðbólgan heggur í þessa hópa líka og því er mikilvægt að tekið sé á þessum málum af hálfu aðila vinnumarkaðarins meðan þeir hafa enn tök á því.

Hvernig er staðan í varnarmálunum? Þar er algjör upplausn og það er beðið eftir því að Bandaríkjamenn komi og segi þessari ríkisstjórn hvað eigi að gera í þeim málum. Þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn líka ráðið för.

Í stóriðjumálunum hefur ríkisstjórnin engin tök. Hún hefur ekki komið sér upp neinum stjórntækjum til að takast á við auðlindakapphlaupið sem nú er hafið á milli álfyrirtækjanna og hún hefur ekki komið sér upp neinum stjórntækjum til að tímasetja stórframkvæmdir þannig að þær geri ekki eins og áður, að setja efnahagslífið á hliðina.

Ríkisstjórnin setur líka hverja stofnunina á fætur annarri í upplausn. Ríkisútvarpið, hver er framtíð Ríkisútvarpsins, hver veit það? Menntamálaráðherra er búin að vera að velkjast með Ríkisútvarpið hér í tvö ár í algjörri óvissu. Þeir sem þar starfa vita ekki hver er framtíð Ríkisútvarpsins, hver hún er eða hvernig hún er.

Framhaldsskólinn, hvernig er komið fyrir honum? Er hugmyndin sú að stytta framhaldsskólann eins og var talað um fyrir jól eða er kannski hugmyndin sú að stytta grunnskólann eins og var hugmynd menntamálaráðherra eftir jól?

Byggðastofnun, hver er framtíð Byggðastofnunar? Fer hún inn í þetta nýja bix viðskipta- og iðnaðarráðherra eða verður hún áfram starfandi?

Íbúðalánasjóður, hver er staða Íbúðalánasjóðs? Hver er framtíð Íbúðalánasjóðs? Verður Íbúðalánasjóður starfandi áfram eða verður hann lagður niður? Það veit hvorki almenningur í landinu né það fólk sem þar starfar.

Iðntæknistofnun, hver er framtíð Iðntæknistofnunar? Hver veit það? Fer hún inn í Nýsköpunarmiðstöð iðnaðar- og viðskiptaráðherra eða verður hún starfandi áfram?

Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins, hver er framtíð hennar? Á hún að starfa áfram eða verður hún lögð niður? Landspítalinn – háskólasjúkrahús, hver er staðan þar í þeim málum þar sem fólk liggur á göngum, þar sem fólk fæst ekki til starfa vegna lágra launa, þar sem vandamálin hrannast upp án þess að á þeim sé tekið?

Það er alveg sama hvar við berum niður, virðulegur forseti, hvort það er í efnahagsmálunum, kjaramálunum, varnarmálunum, húsnæðismálunum, menntamálunum, það er hvergi sýn til framtíðar hjá ríkisstjórninni. Hún treður marvaðann til þess að reyna að halda sér saman um völdin. Ef ríkisstjórnarflokkarnir fyndu til ábyrgðar sinnar, tækju hlutverk sitt alvarlega mundi ríkisstjórnin segja af sér og hún ætti að segja af sér nú þegar. Hún stjórnar ekki sjálfri sér og hún mun ekki stjórna samfélaginu.

Við þessar aðstæður, virðulegur forseti, er það skylda jafnaðarmanna að benda á nýjar leiðir sem færar eru og rækja erindi sitt í íslenskum stjórnmálum. Það munum við í Samfylkingunni gera. Erindi okkar í stjórnmálum er að sjá til þess að við upphaf 21. aldar nýti Íslendingar tækifærin til að skapa öllum velsæld og skilja engan eftir. Samfylkingin er stjórnmálaflokkur jafnaðarsinna á Íslandi og fylgir í orði og verki sígildum hugsjónum jafnaðarstefnunnar.

Við teljum vaxandi ójöfnuð á liðnum áratug undir stjórn þessa blágræna bandalags, hnignun velferðarríkisins, stefnuleysi í menntamálum og fábreytni atvinnulífsins vera váboða og kröfu um jafnaðarstjórn. Við teljum það nauðsynlega forsendu árangursríkra stjórnmála að horfast í augu við breyttan heim og sjá að ný verkefni bíða kraftmikillar ríkisstjórnar sem þorir, kann og getur.

Virðulegur forseti. Við getum byggt upp fjölbreyttara atvinnulíf og styrkt undirstöðu lífsgæða í landinu með nýrri hagstjórn jafnaðarmanna. Samfylkingin leggur áherslu á að nýta markaðinn til að skapa nýjar lausnir og stuðla að hagkvæmni en Samfylkingin hafnar ofurvaldi fjármuna og upphafningu græðginnar. Samkeppnishæfni þjóða á 21. öld ræðst af styrk samfélaganna. Jafnaðarstefna í verki er trygging fyrir sterkara samfélagi.