133. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2006.

varnarmál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:32]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Hæstv. forseti Hinn 26. september síðastliðinn kynntu stjórnvöld niðurstöðu samningaviðræðna milli Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál. Ég hef óskað eftir því að fá þetta tækifæri til að gera Alþingi sérstaka grein fyrir niðurstöðunni og helstu atriðum samkomulagsins.

Meginmarkmið samningaviðræðnanna voru að tryggja varnir landsins með viðunandi hætti eftir að fastri viðveru Bandaríkjahers á Íslandi lauk og tryggja snurðulausa yfirtöku Íslands á rekstri alþjóðaflugvallarins í Keflavík. Ríkisstjórnin telur að þessi markmið hafi náðst.

Að auki þurfti að gera samning við Bandaríkjamenn um skil þeirra til Íslands á landi og mannvirkjum. Það hefur tekist og með svipuðum hætti og á við skilasamninga við Bandaríkjamenn vegna herstöðva annars staðar, svo sem í Þýskalandi.

Aðdragandi málsins er eins og kunnugt er að hinn 15. mars síðastliðinn tilkynnti Bandaríkjastjórn ríkisstjórn Íslands að vegna núverandi stöðu öryggis- og varnarmála og brýnnar þarfar fyrir hefðbundinn herafla Bandaríkjanna annars staðar í heiminum mundi fastri viðveru bandarísks herliðs á Íslandi ljúka í lok september 2006. Bandaríkjastjórn bauð jafnframt til viðræðna um hvað gæti komið í staðinn fyrir fasta viðveru Bandaríkjahers á Íslandi, þegar henni lyki, til að tryggja áfram varnir landsins og undirstrika skuldbindingar Bandaríkjanna í varnarsamningnum. Frá þessu, sem og viðbrögðum og stefnu ríkisstjórnarinnar, greindi ég Alþingi hinn 16. mars síðastliðinn.

Niðurstaðan sem nú liggur fyrir felst í fjórum meginatriðum:

1. Samkomulagi Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál.

2. Samningi Íslands og Bandaríkjanna um skil á landi og mannvirkjum.

3. Samkomulagi um afhendingu búnaðar og tækja vegna yfirtöku Íslands á rekstri alþjóðaflugvallarins í Keflavík.

4. Samningi um leigu á búnaði og tækjum fyrir alþjóðaflugvöllinn í Keflavík.

Þá gaf ríkisstjórnin, sama dag og niðurstaða viðræðnanna við Bandaríkin var kynnt, út yfirlýsingu um ný verkefni íslenskra stjórnvalda við brottför varnarliðsins.

Í inngangi að samkomulaginu um varnarmál staðfesta báðir aðilar að skuldbindingar sínar í varnarsamningnum frá 1951 standi. Samkomulagið sjálft er í átta liðum. Í fyrsta lið kemur fram að varnaráætlun hafi verið gerð fyrir Ísland. Varnaráætlunin er unnin eins og aðrar varnaráætlanir, þ.e. hún byggir á tilteknum forsendum og fjallar um viðbrögð við vá á ýmsum stigum og hvernig yrði við brugðist. Varnaráætlunin verður endurskoðuð reglulega og forsendur hennar, eins og á við aðrar slíkar áætlanir, í stöðugri endurskoðun. Ein af lykilforsendunum í varnaráætluninni er augljós, nefnilega sú að hér á landi verður ekki lengur föst viðvera Bandaríkjahers. Því þurfti sérstaka nýja varnaráætlun fyrir Ísland. Í stað fastrar viðveru Bandaríkjahers hér á landi er, eins og kemur fram í samkomulaginu, byggt á svonefndum hreyfanlegum herstyrk. Jafnframt kemur fram að hernaðargeta Bandaríkjanna standi að baki áætluninni eins og nauðsyn krefur. Hér er um trúverðugar varnir að ræða.

Í annarri grein samkomulagsins segir að Bandaríkin og Ísland hafi gert ráðstafanir til þess að tryggja hröð og skilvirk samskipti milli stjórnvalda á hættutímum. Það var talið nauðsynlegt eftir að fastri viðveru Bandaríkjahers á Íslandi lyki og bandarísk herstjórn væri ekki lengur í landinu að staðfesta sérstaklega hvaða samskiptaleiðir yrðu notaðar milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda í neyðartilfellum, þar á meðal við bandarísk hermálayfirvöld.

Í þriðja lagi er í samkomulaginu gert ráð fyrir árlegum bandarískum æfingum með hugsanlegri þátttöku annarra NATO-ríkja. Æfingar Bandaríkjahers á Íslandi eru til marks um skuldbindingu þeirra í varnarsamningnum og er ein mikilvæg leið til að gera þá skuldbindingu sýnilega og auka trúverðugleika hennar. Af Íslands hálfu er sérstök áhersla lögð á nauðsyn loftvarnaæfinga, en ýmiss konar aðrar æfingar koma einnig til greina. Undirbúningur fyrir fyrstu æfinguna á næsta ári hefst væntanlega fljótlega. Óformlega hefur verið talað um að hún gæti orðið í júní.

Í fjórðu grein samkomulagsins um varnarmál er fjallað um ratsjárstöðvakerfið á Íslandi. Stjórnvöld telja mikilvægt er að hér verði eins og í nágrannalöndum okkar starfræktar ratsjárstöðvar.

Bandaríkin munu kosta rekstur ratsjárstöðvanna til 15. ágúst 2007. Á þeim tíma fara, eins og segir í fjórðu grein samkomulagsins, fram viðræður milli Íslands og Bandaríkjanna og við NATO um fjármögnun og framtíðarfyrirkomulag ratsjárkerfisins og hvernig það gæti komið sérstaklega að gagni fyrir bandalagið.

Ratsjárkerfið er byggt á kostnað NATO en Bandaríkjamenn hafa staðið undir rekstrinum. Íslensk stjórnvöld vilja að ratsjárkerfið starfi áfram með þeim hætti að Ísland og Bandaríkin skipti með sér kostnaðinum þannig að við mundum greiða stóran hluta hans. Einnig kemur til greina eins og áður segir að NATO taki þátt í kostnaðinum, en um það á eftir að ræða við bandalagið. Kostnaður við að starfrækja ratsjárkerfið er verulegur. Hversu mikill fer að nokkru eftir kröfum og forsendum, en hann gæti numið um einum milljarði króna á ári og víst að hann mundi nema hundruðum milljóna króna á ári að lágmarki.

Auk þess að efla öryggi lands og þjóðar hefur starfræksla ratsjárstöðvanna í för með sér mikið hagræði fyrir flugumferðarstjórn, ekki síst vegna hinnar miklu flugumferðar sem fer um íslenska flugumferðarstjórnarsvæðið á leið milli Evrópu og Norður-Ameríku.

Í fimmta lagi er með samkomulaginu komið á reglubundnu samráði milli Íslands og Bandaríkjanna um öryggismál. Gert er ráð fyrir fyrsta samráðsfundi á ráðherrastigi síðar í haust. Mun sá fundur væntanlega fara fram í Reykjavík.

Í sjöttu grein er fjallað um tengsl íslenskra stjórnvalda við hernaðarlega áætlanagerð. Stefnt er að því að hafa íslenskan fulltrúa hjá herstjórn NATO í Brunsum í Hollandi sem jafnframt yrði tengiliður við Evrópuherstjórn Bandaríkjanna í Stuttgart í Þýskalandi. Þetta er nauðsynlegt til að fylla skarð sem myndast þegar varnarliðið og yfirstjórn þess hverfur úr landi og til þess þar með að tryggja íslenskum stjórnvöldum berist örugglega og greiðlega nauðsynlegar upplýsingar. Þetta er einnig nauðsynlegt vegna þess að varnaráætlunin fyrir Ísland og forsendur hennar verða ávallt til endurskoðunar eins og venja er með slíkar áætlanir. Hér yrði loks um að ræða upplýsingaöflun sem gæti skipt miklu máli vegna hryðjuverkavarna.

Í sjöundu grein kemur fram að ætlunin er að auka samstarf milli bandarísku strandgæslunnar og Landhelgisgæslunnar með æfingum, þjálfun og starfsmannaskiptum.

Með sama hætti er ætlunin að auka samskipti og samstarf Íslands og Bandaríkjanna á sviði hryðjuverkavarna, eins og segir í áttundu og síðustu grein samkomulagsins um varnarmál.

Með skilasamningnum var varnarsvæðunum sem Bandaríkjaher hefur haft til afnota vegna varna landsins skilað til íslenska ríkisins 30. september ásamt öllum mannvirkjum á þeim í bandarískri eigu. Undantekning er að áfram verður til staðar varnarsvæði, í skilningi varnarsamningsins frá 1951, við Grindavík en á því eru fjarskiptamöstur Bandaríkjahers og tilheyrandi búnaður.

Í skilasamningnum kemur fram að Bandaríkin skila varnarsvæðum í því ástandi sem þau eru en íslenska ríkið fær öll bandarísk mannvirki án endurgjalds. Þar er um veruleg verðmæti að ræða, sem nema milljörðum, þótt ljóst sé að mörg mannvirkjanna verði rifin.

Hrakvirði, svokallað, mannvirkja í eigu Bandaríkjanna og NATO á Íslandi er talið vera um 150 milljónir dollara, eða um 11 milljarðar króna. Kostnaður við að byggja þau frá grunni nú yrði auðvitað margfalt meiri.

Hluti mannvirkjanna er nauðsynlegur vegna reksturs alþjóðaflugvallarins en Ísland tekur nú yfir allan þann rekstur. Þá er frá því gengið í sérstökum samningi að Ísland fær ýmsan flugvallarbúnað án endurgjalds og leigir gegn mjög lágu gjaldi ýmsan annan búnað og tæki sem eru nauðsynleg til að reka alþjóðaflugvöllinn. Leigan er aðeins um ein milljón króna á mánuði. Samtals mundi sá búnaður og tæki sem Ísland fær afhent eða tekur á leigu kosta allt að 3,5 milljarða króna nýr. Hrakvirðið er talið vera um 1,5 milljarður króna. Tekið skal fram að sumt af búnaði og tækjum þarf að endurnýja á næstu árum.

Inntakið í skilasamningnum er að gegn því að fá öll bandarísk mannvirki án endurgjalds, og búnað og tæki vegna flugvallarins án endurgjalds eða gegn mjög lágri leigu, greiðir Ísland fyrir niðurrif mannvirkja og hreinsun eftir því sem talin er ástæða til. Skilasamningurinn er í þessum aðalatriðum, eins og fyrr sagði, með sama hætti og samningar Bandaríkjamanna vegna lokunar herstöðva annars staðar, svo sem í Þýskalandi.

Hvað varðar mannvirki í eigu Atlantshafsbandalagsins, sem hafa verið í umsjá Bandaríkjahers, munu íslensk og bandarísk stjórnvöld vinna að því sameiginlega á vettvangi NATO að afhenda þau Íslandi til ráðstöfunar.

NATO hefur lagt umtalsverða fjármuni í ýmis mannvirki á varnarsvæðunum, þar á meðal flugturn, flugbrautir, akstursbrautir flugvéla, flugskýli, olíugeyma í Helguvík, ratsjárstöðvar á fjórum stöðum á landinu o.fl. Ekki þarf að greiða fyrir mannvirki sem NATO afhendir til opinberra nota, en rekstrarkostnaður og viðhald fellur auðvitað á viðkomandi ríki.

Þegar ekki er lengur talin þörf fyrir NATO-mannvirki er það tilkynnt yfirherstjórn Atlantshafsbandalagsins og höfuðstöðvum NATO í Brussel. Bandaríkin hafa tilkynnt að þau hafi ekki lengur þörf fyrir mannvirkin en sem notendaríki bera þau frá þeim tíma ábyrgð á viðhaldi NATO-mannvirkjanna á Íslandi í allt að 12 mánuði. Eftir það tekur Ísland við mannvirkjunum og kemur þá til greina að selja einhver þeirra í samvinnu við NATO, telji bandalagið einhver verðmæti liggja í þeim. Einnig er hugsanlegt að NATO afskrifi mannvirki hér á landi úr eignaskrá sinni, en þá geta íslensk stjórnvöld ráðstafað þeim að eigin vild.

Hvað varðar umhverfismál og hreinsun á varnarsvæðunum þá er umfang mengunar þar í aðalatriðum þekkt. Varnarliðið var í gegnum tíðina hvorki betra né verra en aðrir aðilar hér á landi að þessu leyti. Heilsu manna stafar engin hætta af mengun á varnarsvæðunum. Aðferðir og tækni til að hreinsa hana er þekkt. Byggja má á reynslu af hreinsun sem þegar hefur farið fram á varnarsvæðunum til að áætla kostnað.

Grunnvatn á varnarsvæðum er víða mengað af olíu, rokgjörnum lífrænum leysiefnum og nítrati. Hreinsun á þessum efnum úr grunnvatni er vart framkvæmanleg þar fremur en annars staðar. Neysluvatn er ekki lengur tekið af þessu svæði. Vatnsból Reykjanesbæjar voru færð fyrir einum og hálfum áratug á annað grunnvatnssvæði í Grindavík. Ekki er hætta á að þau vatnsból mengist vegna mengunar grunnvatns á varnarsvæðum.

Það er forgangsverkefni að hylja nokkra urðunarstaði og hauga á varnarsvæðunum á næstu árum með vatnsheldu lagi til að hindra frekari grunnvatnsmengun af þeirra völdum og vakta síðan grunnvatnið með sýnatöku. Til viðbótar þarf að gera ráðstafanir þar sem er olíumengaður jarðvegur og fjarlægja þarf PCB-mengaðan jarðveg á nokkrum stöðum.

Í skilasamningi Íslands og Bandaríkjanna er í III. grein ákvæði þess efnis að komi í ljós ófyrirséð alvarleg mengun á næstu fjórum árum muni Ísland og Bandaríkin hafa samráð og samstarf um viðbrögð. Líkurnar á að slíkt komi upp eru taldar afar litlar og enn minni þegar búið verður að loka fyrrnefndum haugum og urðunarstöðum sem stefnt er á að gera á umræddu tímabili.

Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að hreinsun á umhverfinu á Keflavíkurflugvelli og eru til nákvæm gögn um það. Á reynslu af þessum verkefnum má byggja raunhæfa kostnaðaráætlun og er talið að hreinsunarkostnaður gæti numið allt að tveimur milljörðum króna. Þar af gætu allt að 1.100 milljónir farið í að hylja og loka fyrrnefndum haugum og urðunarstöðum sem eins og fyrr sagði er forgangsatriði á næstu árum.

Mannvirkjum á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli má skipta gróflega í um 900 íbúðir, um 1.160 einstaklingsherbergi og um 200 önnur mannvirki. Síðastliðin 10 ár hefur mannvirkjum fækkað töluvert. Gamlar og óhagkvæmar byggingar hafa verið skipulega rifnar í kjölfar fækkunar í varnarliðinu undanfarin ár. Ef til dæmis helmingur bygginganna yrði rifinn, sem sérfræðingar telja líklegt að þurfi, þá mundi það kosta allt að 3 milljörðum króna á einhverju árabili.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september síðastliðnum um ný verkefni íslenskra stjórnvalda við brottför varnarliðsins segir að stofnað verði hlutafélag í eigu ríkisins um framtíðarþróun og umbreytingu fyrrverandi varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli. Verkefni félagsins verður að koma þessu svæði og mannvirkjum á því með skipulegum hætti í arðbær borgaraleg not án þess að það valdi röskun í samfélaginu á Suðurnesjum. Félagið mun bera ábyrgð á og annast rekstur og umsýslu nánar tiltekinna eigna á svæðinu, útleigu, sölu, hreinsun og eftir atvikum niðurrif mannvirkja, þar til verkefninu telst lokið. Félagið mun lúta forræði forsætisráðherra og mun ríkisstjórnin skipa tvo menn í stjórn þess en leitað verður til sveitarfélaga á Suðurnesjum um að skipa einn mann.

Þá segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að til að efla almennt öryggi verði við endurskoðun laga um almannavarnir hugað að því að koma á fót miðstöð þar sem tengdir verði saman allir aðilar sem koma að öryggismálum innan lands, hvort heldur vegna náttúruhamfara eða vegna hættu af mannavöldum. Til að tryggja sem best samhæfingu innan miðstöðvarinnar munu forsætisráðherra, utanríkisráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra, samgönguráðherra, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og umhverfisráðherra sitja í yfirstjórn hennar. Dagleg stjórn miðstöðvarinnar verður á vegum dóms- og kirkjumálaráðherra og mun hann leggja fram frumvarp til nýrra almannavarnalaga.

Einnig segir í yfirlýsingunni að samhliða því sem unnið er að nýskipan lögreglumála, verði samstarf lögreglu, landhelgisgæslu, slökkviliða og björgunarsveita aukið enn frekar, þannig að tryggja megi þátttöku varaliðs hvarvetna þar sem þess kann að verða þörf í landinu. Jafnframt kemur fram að tryggt verður að íslensk yfirvöld hafi lögheimildir til náins samstarfs við stjórnvöld og alþjóðastofnanir þar sem skipst er á trúnaðarupplýsingum.

Enn fremur er tilkynnt í yfirlýsingunni að unnið verði að því að koma á öflugu öruggu fjarskiptakerfi, Tetra kerfi, sem nær til landsins alls og bent á að þegar hafi verið gerðar ráðstafanir til að efla þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar auk þess sem ný flugvél og nýtt varðskip verða keypt.

Lýst er yfir að ríkisstjórnin muni vinna að því að koma á laggirnar samstarfsvettvangi fulltrúa stjórnmálaflokkanna þar sem fjallað verði um öryggi Íslands á breiðum grundvelli, m.a. í samstarfi við sambærilega aðila í nálægum löndum.

Þá segir að við brotthvarf varnarliðsins sé eðlilegt að yfirstjórn málaflokka og stjórnsýsla á Keflavíkurflugvelli breytist til samræmis við það sem almennt tíðkist í landinu og að ríkisstjórnin muni vinna að því. Fyrst um sinn verður stjórnsýslan á fyrrverandi varnarsvæði þó óbreytt frá því sem verið hefur. Jafnframt verður skilgreint sérstakt svæði á flugvellinum, undir yfirstjórn utanríkisráðherra, sem verður til afnota vegna æfinga á vegum Bandaríkjanna og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins eða annarra hernaðarþarfa.

Loks kemur fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að gerðar verði ráðstafanir til að lesið verði úr öllum merkjum frá Ratsjárstofnun sem þýðingu hafa varðandi eftirlit með flugvélum í lofthelgi Íslands. Varnarliðið hætti þessu í sumar en í síðustu viku komst þetta eftirlit á aftur á vegum Ratsjárstofnunar. Það þýðir að vitað verður um flugvélar sem hugsanlega koma að landinu án þess að tilkynna sig eða hætta að sinna tilkynningarskyldu sem felst í því meðal annars að senda frá sér viðeigandi merki.

Ég hef nú, virðulegi forseti, lokið við að gera grein fyrir þeim skjölum sem fyrir liggja í þessu máli og þeirri niðurstöðu sem fékkst í viðræðum Bandaríkjanna og Íslands. Ég vona að á þessum grundvelli muni löndin á næstunni og á komandi tímum geta átt náið og gott samstarf eins og verið hefur allar götur frá 1951 í þessum málaflokki.