133. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2006.

réttur nefndar til aðgangs að opinberum gögnum um öryggismál.

27. mál
[18:17]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp er flutt af forseta Alþingis og formönnum allra þingflokka. Það er nánast tæknilegs eðlis og til þess sett fram að samþykkt Alþingis frá því í byrjun júní nái fram að ganga. Eins og hér hefur komið fram snýst þetta mál um leyniþjónustustarf, njósnir og hleranir sem hér voru stundaðar á kaldastríðstímanum. Við höfum mótað þá pólitísku stefnu að það eigi að upplýsa um alla þætti þessa grafalvarlega atferlis.

En ástæða þess að ég ætla ekki að fjölyrða um málið nú er fyrst og fremst sú að á mánudag fer fram utandagskrárumræða sem lýtur að þessum málum. Ég legg áherslu á að í frumvarpinu, eins og kom fram í máli hæstv. forseta Alþingis, muni formenn þingflokkanna og forseti þingsins fylgjast með starfi þeirrar nefndar sem vísað er til í lögunum og er það ítrekað í lagatextanum og í greinargerð frumvarpsins sem með því fylgir.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um málið núna. En við styðjum að það nái skjótt fram að ganga og verði þegar í stað að lögum.