133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[10:37]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007 sem er 1. mál þessa þings. Ég mun á eftir rekja helstu áherslumál ríkisstjórnarinnar og forsendur frumvarpsins en fyrst mun ég víkja almennt að stöðu ríkisfjármála.

Undanfarin ár hefur ríkt óvenju mikil gróska og vöxtur í íslensku efnahagslífi svo að eftir hefur verið tekið. Sífellt fleiri fulltrúar erlendra stjórnvalda og stofnana hafa komið til Íslands að kynna sér hvernig við höfum náð þessum árangri. Mikill þróttur íslenskra fyrirtækja í útlöndum vekur heimsathygli og íslensk efnahagsmál og fjármálamarkaður eru í auknum mæli umfjöllunarefni erlendra matsfyrirtækja og fjölmiðla. Eins og búast mátti við var umfjöllunin í upphafi misjöfn en hefur batnað og orðið jákvæðari eftir því sem þessir aðilar hafa kynnt sér efnið betur og fordómar eru að hverfa. Margvíslegir þættir hafa orðið til þess að lífskjör hafa batnað með undraverðum hætti hér á landi sem hefur komið fram í stórauknum kaupmætti ráðstöfunartekna heimilanna og minna atvinnuleysi en áður. Enginn einn getur þakkað sér þennan óvenjugóða árangur en eitt er þó víst að til að ná slíkum árangri þarf stjórnvöld sem stefna að ákveðnum markmiðum og hvika ekki frá þeim þótt tímabundið blási á móti.

Til þess að Ísland sé samkeppnishæft er nauðsynlegt að hér sé gott heilbrigðis- og menntakerfi, stutt sé við rannsóknir og að ríkisreksturinn sé hagkvæmur og skilvirkur. Til að viðhalda og efla þann árangur sem náðst hefur er því nauðsynlegt að huga sífellt að aukinni framleiðni í ríkisrekstrinum og að afmarka skýrt þau verkefni sem samkomulag er um að ríkið sinni.

Undirstaða öflugs velferðar- og menntakerfis er atvinnulífið þar sem verðmætasköpunin fer fram. Sú efnahagsstefna sem hér hefur verið rekin hefur lagt þann grunn sem nauðsynlegur er. Lækkun skatta á fyrirtæki, opnun hagkerfisins og einkavæðing ríkisfyrirtækja hefur leitt af sér öfluga atvinnustarfsemi og undirstöður efnahagslífsins hafa verið tryggðar til að halda uppi til framtíðar þeirri velferð og kaupmætti sem nú er. Hlutverk ríkisvaldsins er að skapa almenna umgjörð og leikreglur fyrir atvinnulífið sem verði á við það sem best þekkist annars staðar.

Staða ríkisfjármála hér á landi er mjög traust. Það sést best á því að ríkissjóður hefur verið rekinn með umtalsverðum afgangi á undanförnum árum, skuldir hafa verið greiddar niður og staða ríkissjóðs við Seðlabankann er sterk. Þótt staðan sé traust er auðvelt að glutra henni niður ef óvarlega er farið. Auðvelt er að yfirbjóða og skuldsetja ríkissjóð aftur eða nota innstæðu hans í Seðlabankanum til eyðslu. Gjalda verður varhuga við slíkum hugmyndum um mjög aukin útgjöld þar sem þær munu á endanum leiða til lakari lífskjara og að ríkissjóður fari aftur að nota skattféð í að greiða vexti og afborganir til útlanda í stað þess að efla menntun og velferð Íslendinga.

Mun ég nú snúa mér að helstu efnisatriðum frumvarps til fjárlaga 2007. Áætlað er að tekjuafgangur ríkissjóðs verði 15,5 milljarðar kr. á næsta ári, en það er tæplega 23 milljörðum kr. betri afkoma en gert var ráð fyrir í langtímaáætlun síðasta fjárlagafrumvarps. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður greiði niður skuldir er nemur tæplega 80 milljörðum kr. árin 2005 til 2007. Ríkisstjórnin endurskoðaði nýlega langtímastefnumörkun í ríkisfjármálum og eru meginmarkmiðin óbreytt frá fyrri áætlunum um aðhald og lækkun skulda. Með langtímastefnumörkun hefur stjórn ríkisfjármála orðið markvissari, forgangsröðun verkefna innan rammans betri en áður og dregið hefur úr vexti ríkisútgjalda. Í samræmi við áætlunina hefur aðhald með útgjöldum verið mikið árin 2005 og 2006 og framkvæmdum hefur verið frestað. Áformað er að auka útgjöldin á næsta ári til mótvægis við samdrátt í þjóðarútgjöldum þegar stóriðjuframkvæmdum lýkur. Í stefnumörkuninni er miðað við að raunvöxtur samneyslu verði að jafnaði ekki umfram 2% árlega og raunvöxtur tekjutilfærslna ekki umfram 2,5% árlega. Aukning tekjutilfærslna verður tímabundið nokkuð yfir þessum markmiðum á næsta ári vegna hækkunar á elli- og örorkulífeyri og hækkunar barnabóta. Þá er ekki gert ráð fyrir eins miklum vexti framkvæmda ríkissjóðs á næsta ári og ráðgert var í langtímaáætlun sem fylgdi fjárlagafrumvarpi síðasta árs og mun ég koma nánar að því á eftir.

Mikið hefur verið rætt um hvort aðhald í ríkisfjármálum hafi verið eða sé nægilegt og hvort Seðlabankinn sé látinn einn um að halda aftur af innlendri eftirspurn með vaxtaákvörðunum sínum. Ef litið er á tekjuafgang ríkissjóðs á þjóðhagsgrunni, en það er sá grunnur sem miðað er við í umræðu um efnahagsleg áhrif, þá var afgangurinn 5,6% af landsframleiðslu árið 2005 og verður 4% af landsframleiðslu á þessu ári. Í þessum tölum eru ekki áhrif af sölu eigna eða aðrir óreglulegir liðir, samt er samanlagður tekjuafgangur þessara tveggja ára rúmlega 100 milljarðar kr. Mjög fá ríki OECD geta státað af slíkum afgangi á ríkissjóði. Samkvæmt áætlunum fjármálaráðuneytisins um framleiðsluspennu í hagkerfinu hefur aðhald ríkisfjármála verið verulegt. Samanburður við sveiflujöfnun í öðrum ríkjum OECD sýnir að fjármálastjórn hér á landi hefur verið markvisst beitt til sveiflujöfnunar og að Ísland er í hópi þeirra ríkja sem hafa beitt hvað mest sveiflujafnandi fjármálastjórn undanfarin áratug.

Ég velti fyrir mér hve mikið aðhald sé nægilegt í ríkisfjármálum. Er raunhæft að reka ríkissjóð ár eftir ár með tuga milljarða króna afgangi? Er raunhæft að draga úr uppbyggingu í mennta- og heilbrigðismálum á meðan hagkerfið vex og eftirspurn eftir þessum gæðum er vaxandi? Hefði ekki átt að auka framlög til velferðarmála og hefði átt að standa á móti hækkun launa starfsmanna ríkisins til samræmis við aðra hópa? Getum við gengið lengra í því að lækka stofnkostnað þegar fjárfestingar ríkisins eru komnar niður fyrir 1% af landsframleiðslu? Ég tel að í ljósi þess mikla afgangs og aðhalds sem ríkissjóður hefur sýnt á undanförnum árum hafi vart verið mögulegt að ganga lengra. Ég tel að leitun sé að ríkjum þar sem ríkissjóður hefur stutt eins vel við stefnu Seðlabankans og gert hefur verið hér á landi. Það sýna allir mælikvarðar.

Tímasetning skattalækkana hefur verið gagnrýnd. Lækkun tekjuskattshlutfalls einstaklinga á undanförnum árum er liður í að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins og er öðrum þræði aðgerð til að auka vinnuframboð á innlendum vinnumarkaði. Tölur um innlent vinnuframboð sýna að þar hefur orðið mikil aukning auk þess sem innflutningur vinnuafls hefur verið mikill. Þannig hefur dregið úr þrýstingi á vinnumarkaði vegna aðgerðanna og þær því stuðlað að jafnvægi. Síðasta og stærsta skref skattalækkana verður frá næstu áramótum og er tímasett með tilliti til stöðunnar í efnahagsmálum. Það hefur verið áhugavert að vera bæði gagnrýndur fyrir að lækka skatta og fá á sama tíma gagnrýni fyrir að hækka þá vegna sveiflujafnandi áhrifa skattkerfisins. Sveiflujöfnunin kemur vel fram í því að áætlað er að skatttekjur ríkissjóðs á næsta ári lækki um 4,4 milljarða kr. frá þessu ári.

Það sem einkum hefur gert hagstjórnina erfiða er að óvæntar breytingar urðu á fjármálamarkaði þegar aðgangur almennings að langtímalánum á hagstæðum kjörum jókst verulega við að bankarnir fóru í samkeppni við Íbúðalánasjóð. Sú breyting var ekki fyrirséð eins og stóriðjuframkvæmdirnar en ríkissjóður brást þá við með meiri tekjuafgangi en áætlað var í fyrri stefnumörkun.

Þá hefur vegið á móti góðum árangri ríkisins að sveitarfélögin tóku framan af ekki þátt í efnahagsstjórninni. Það varð því ánægjuleg breyting í sumar er sveitarfélögin tóku með ríkissjóði þátt í að stöðva tímabundið framkvæmdir á þessu ári. Ég á von á áframhaldandi góðu samstarfi við sveitarfélögin og vona að sú breyting sem varð í sumar verði til að ríki og sveitarfélög samræmi stefnu sína í framtíðinni.

Áætlað er að á næsta ári dragi úr hagvexti og landsframleiðsla vaxi um 1% frá þessu ári, þrátt fyrir að þjóðarútgjöld dragist saman um 6,4%. Skýringin á því að landsframleiðsla dregst ekki saman er að útflutningur vex einkum vegna aukinnar álframleiðslu og gert er ráð fyrir að innflutningur dragist verulega saman. Fjármálastefna ríkissjóðs markast mjög af þessum aðstæðum.

Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 373,4 milljarðar kr. á næsta ári og lækka um tæplega 1,7 milljarða frá áætlun þessa árs. Að raunvirði lækka tekjurnar um tæplega 5% á milli ára einkum vegna þess að gert er ráð fyrir minni hagvexti og að einkaneysla dragist saman á árinu. Lækkun tekna má einnig rekja til lækkunar á tekjuskattshlutfall einstaklinga um 1 prósentustig og hækkunar á persónuafslætti. Samtals hækka skattleysismörk um tæplega 14% vegna þessara aðgerða og fara úr 78 þúsundum á mánuði og verða 90 þús. kr. á mánuði. Skertar tekjur ríkissjóðs vegna þessara aðgerða eru áætlaðar um 13 milljarðar kr. Þannig er gert ráð fyrir í frumvarpinu að skila áfram til heimilanna hluta af styrkri stöðu ríkisfjármála auk þess að barnabætur hækka verulega. Skatttekjur ríkissjóðs lækka úr 31% af landsframleiðslu á þessu ári í rúm 29% á því næsta.

Heildargjöld ríkissjóðs á næsta ári verða 357,8 milljarðar kr. samkvæmt frumvarpinu. Hækka gjöldin um 31,8 milljarða frá áætlun þessa árs eða um 5% að raungildi. Er það heldur minni raunhækkun á milli ára en gert var ráð fyrir í langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar sem fylgdi fjárlagafrumvarpi 2006. Hækkun útgjalda má einkum rekja til stóraukinna framlaga til velferðarmála, en framlag til lífeyristrygginga eykst um ríflega 7 milljarða kr. frá fjárlögum. Koma þar fram áhrif samkomulags við Landssamband eldri borgara og er gert ráð fyrir að sambærilegar breytingar verði á kjörum öryrkja. Þá eru framlög til vegamála aukin um rúmlega 4,5 milljarða frá fjárlögum 2006.

Útgjöld vegna barnabóta aukast um 1,7 milljarða á næsta ári en þar er um að ræða 20% hækkun á ótekjutengdum bótum og sömu hækkun á tekjuviðmiðunum auk þess sem dregið er úr tengingu bótanna við tekjur. Enn fremur verða barnabætur nú greiddar til 18 ára aldurs í stað 16 ára sem áður var. Útgjöld aukast einnig vegna yfirtöku á verkefnum varnarliðsins, m.a. til eflingar á þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og eru þær áætlanir enn í nánari skoðun. Þá eru framlög til rannsókna- og menntamála aukin í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar.

Loks má nefna að útgjöld til þróunaraðstoðar vaxa verulega eða um fjórðung frá fjárlögum þessa árs. Ríkisstjórnin hefur markað þá stefnu að auka útgjöld til þróunarmála og hefur á umliðnum árum stóraukið framlög til þeirra mála. Vissulega höfum við ekki gert nóg en það eru takmörk fyrir því hve mikinn vöxt hægt er ráða við án þess að starfið verði ómarkvisst. Tíma tekur að undirbúa og semja um þróunarverkefni og þjálfa fólk til að vinna við verkefnin sem oft eru erfið. Það er mikilvægt að auka framlög til þróunaraðstoðar en það er enn mikilvægara að það fé komi að góðum notum og fari til verkefna sem skila árangri. Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir í langtímaáætlun sinni að fé til þróunaraðstoðar aukist áfram verulega ár hvert.

Til að mæta breyttum áherslum og kostnaði sem hlýst af brotthvarfi varnarliðsins er gripið til ýmissa aðgerða á gjaldahlið frumvarpsins með lækkun útgjalda til reksturs og frestun áformaðra framkvæmda. Þær aðgerðir skila sér í að útgjöldin verða tæplega 11 milljörðum lægri en þau hefðu annars orðið. Þar af eru 4,6 milljarðar í rekstrarútgjöldum því dregið er úr fyrri áformum um raunvöxt útgjalda og ekki verða bætt frávik í hækkun almenns verðlags á þessu ári umfram forsendur fjárlaga. Er það gert vegna þess að stór hluti á hækkun vísitölu neysluverðs undanfarin ár er vegna húsnæðisliðar vísitölunnar sem ekki á við um rekstrargjöld opinberra stofnana sem oftast eru í húsnæði í eigu ríkisins. Einnig er gert ráð fyrir að lyfjaútgjöld verði lækkuð um 500 millj. kr. á næsta ári með áframhaldandi endurskoðun á verðlagningu lyfja og aukna áherslu á notkun lyfjalista og notkun ódýrari samheitalyfja. Loks verður fjárfesting ríkissjóðs á næsta ári 5,5 milljörðum kr. lægri en gert var ráð fyrir í langtímaáætlun fjárlagafrumvarps síðasta árs. Þar af eru 3,5 milljarðar kr. minni hækkun vegaframkvæmda sem skiptist þannig að 2,1 milljarður eru af símafé og 1,4 milljarðar vegna minni hækkunar vegáætlunar en áður var ráðgert. Sum þeirra verka sem horft er til eru það stutt á veg komin að ekki er útlit fyrir að framkvæmdir við þau geti hafist á næsta ári þótt fjárveitingar væru fyrir hendi. Ekki er útilokað að byrjað verði á einhverjum af þeim verkefnum sem hér er lagt til að verði frestað ef aðstæður skapast, t.d. vegna þess að undirbúningur verði kominn lengra á veg og önnur verk frestast af óviðráðanlegum orsökum eða ef hluti fjármögnunar verksins verður þegar tryggður. Þau verkefni í vegamálum sem um ræðir eru 1.400 millj. kr. í Sundabraut, 600 millj. kr. við Reykjanesbraut og Arnarnesveg, 400 millj. kr. vegna Álftanesvegar, 300 millj. kr. við Gjábakkaveg, 300 millj. kr. í Norðausturveg, 200 millj. kr. við gatnamót Nesbrautar og Suðurlandsvegar, 200 millj. kr. í Arnkötludal og loks 100 millj. kr. vegna brúar á Hítará. Til þessara verka koma sambærilegar fjárveitingar á árinu 2008. Eins og áður sagði aukast framlög til vegamála um rúmlega 4,5 milljarða kr. frá fjárlögum þessa árs þrátt fyrir framangreinda frestun og verða rúmir 10 milljarðar kr. samkvæmt frumvarpinu sem er nánast það sama og það sem mest hefur verið.

Aðrar framkvæmdir sem verður frestað eru 500 millj. kr. stofnkostnaður og viðhald Fasteigna ríkissjóðs, 400 millj. kr. lækkun á öðrum stofnkostnaði ríkissjóðs sem dreifist mjög víða og 100 millj. kr. frestun hafnarframkvæmda. Loks færist 1.000 millj. kr. stofnkostnaður yfir á þetta ár en þar er um að ræða 500 millj. kr. við nýtt varðskip en áætlað er að smíði þess hefjist á þessu ári og flýtt er 500 millj. kr. stofnkostnaðarframlagi í fjarskiptasjóð um eitt ár þar sem áformað er að bjóða út verkefni á vegum sjóðsins á þessu ári.

Ástæða þess að framkvæmdir á næsta ári eru ekki auknar í samræmi við fyrri langtímaáætlun er sú að neysla og þjóðarútgjöld á þessu ári eru meiri en áður var spáð og ekki dregur jafnhratt úr þjóðarútgjöldum og áætlað var. Þá hafa og komið til ný útgjaldatilefni sem ekki voru fyrirséð í langtímaáætlun einkum vegna brotthvarfs varnarliðsins.

Íslenskt efnahagslíf hefur vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum. Þannig eykst landsframleiðsla um 23% að magni til frá árinu 2003 til 2007 og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann eykst um 22% á sama tíma. Vöxt og grósku má sjá hvarvetna í þjóðlífinu sem meðal annars kemur fram í nýjum hverfum með fjölda íbúðabygginga, stórar verslunarmiðstöðvar rísa og samgöngur hafa stóraukist bæði á vegum með stærri einkabílaflota og auknum vöruflutningum og mikill vöxtur er í flugsamgöngum.

Til þess að efnahagslífið nái að vaxa er nauðsynlegt að byggja upp samgöngukerfið nokkurn veginn í takt við það ef koma á í veg fyrir óþarfaálag og kostnað vegna þess að mannvirki anna ekki umferðinni. Því er ekki mögulegt að fresta framkvæmdum nema í skamman tíma og takmörk eru fyrir því hve langt er hægt að ganga í niðurskurði framkvæmda ár hvert. Samgöngukerfið er nokkurs konar æðakerfi efnahagslífsins og bættar samgöngur stækka atvinnusvæði og geta eflt byggð og hagvöxt. Því er nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að vera opin fyrir nýjum leiðum í byggingu, fjármögnun og rekstri samgöngukerfa því þar fara saman bæði einkahagsmunir og almannahagsmunir. Ég fagna nýjum hugmyndum og tillögum um rekstur samgöngumannvirkja t.d. á Norðurlandi og á Suðurlandi þar sem sýnt hefur verið fram á ábatann af bættum samgöngum og fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög hafa lýst sig tilbúin til að ráðast í ný verkefni með nýrri nálgun. Á vettvangi samgönguráðuneytisins er unnið að tillögum er snúa að einkaframkvæmd í samgöngukerfinu í samvinnu við forsætis- og fjármálaráðuneytið. Kanna þarf hvort ný tækni geti leitt til gjaldtöku í meira samræmi við raunverulega notkun á mannvirkjum í stað núverandi gjaldtöku í bensín- og olíugjaldi. Ný tækni gefur hugsanlega ný sóknarfæri í að fá fleiri að gerð og rekstri vegakerfisins en nú er og að samgöngur vaxi í takt við þörf og aukið umfang í efnahagslífinu. Lagt verður í vinnu við að kanna og meta möguleika á þessari nálgun við uppbyggingu og rekstur þjóðvegakerfisins.

Til að vera samkeppnisfær sem þjóð þurfum við góða innviði, gott vegakerfi, gott heilbrigðiskerfi, en ekki síst gott menntakerfi. Því er afar mikilvægt að ríkisreksturinn sé hagkvæmur og skili því sem ætlast er til af honum. Það er okkar stjórnmálamanna að skilgreina hvað ríkið á að gera eða hvaða þjónustu ríkið veitir aðgang að, hvort sem hún er framleidd af ríkinu eða einkaaðilum. Ríkisreksturinn þarf því að vera í sífelldri endurskoðun og að leiðarljósi verður að hafa hvernig þjónustan nýtist notendum, þ.e. heimilum og fyrirtækjum í landinu.

Stefna núverandi stjórnarflokka hefur verið að færa þau verkefni til einkaaðila sem talið er eðlilegt að leyst séu á markaði í samkeppni. Má þar nefna sölu ríkisbankanna og Landssímans hf. Einnig hafa verkefni sem hingað til hafa verið leyst af ríkinu færst í vaxandi mæli til einkaaðila í samkeppni eða í samvinnu við ríkisrekstur. Þannig hafa myndast nýir valkostir og viðmið. Stjórnsýsla ríkisins er hér ekki undanskilin og þarf að endurskoða hlutverk og verkaskiptingu ráðuneyta miðað við þær breytingar sem orðið hafa í samfélaginu og breyttar þarfir. Þar sem slíkt reynist hagkvæmt þarf að huga að þróun stofnanakerfisins og stækka og/eða sameina einingar sem sinna sambærilegum hlutverkum innan ríkisins sem gæti leitt til betri þjónustu á lægra verði en áður. Slíka hagræðingu þarf að skoða þvert á svið eða ráðuneyti. Þannig verður ríkisreksturinn að taka þátt í að auka hagvöxt og framleiðni með einkamarkaðnum. Ný upplýsingatækni hefur gefið kost á að leysa ýmis verkefni um netið og aukið framleiðni í ríkisrekstri. Sem dæmi má nefna skattframtöl, rafræn innkaup og ýmsa skráningu. Ríkisstjórnin hefur veitt verulegt fé til upplýsingasamfélagsins með það að markmiði að auka rafræna stjórnsýslu. Framtíðin er að fólk og fyrirtæki geti afgreitt flest samskipti sín við ríkið um netið.

Hugsanlegt er að í auknum mæli verði veittur aðgangur að þjónustu sem notendur fá gegn notendaávísunum í stað þess að ríkið veiti og framleiði þjónustuna. Mikilvægt er að þjónusta sé metin út frá viðhorfi notandans ekki síður en út frá sjónarhorni þess sem hana veitir. Með því er ég alls ekki að segja að ríkisrekstur sé almennt óhagkvæmur heldur að nauðsynlegt sé að hann fái aðhald frá notendum og helst einnig frá rekstri á markaði til að miða sig við. Það sem ég sagði áður um nýjar leiðir til fjármögnunar og rekstur samgöngumannvirkja á einnig vel við hér og sýnir að ný tækni gefur nýja möguleika sem við verðum að skoða. Ríkisreksturinn hefur smám saman verið að breytast og nú eru að störfum tvær nefndir sem vinna að endurskoðun stjórnkerfisins. Annars vegar er nefnd á vegum forsætisráðherra sem hefur það hlutverk að endurskoða skipulag Stjórnarráðsins og hins vegar er að störfum nefnd á vegum míns ráðuneytis sem er að endurskoða stofnanakerfi ríkisins.

Frú forseti. Öflugur hagvöxtur hefur einkennt þjóðarbúskapinn undanfarin ár og er það að stórum hluta árangur efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur falist í að draga úr ítökum ríkisins í efnahagslífinu með einkavæðingu, opnara og sveigjanlegra hagkerfi og lækkun skatta á fyrirtæki og einstaklinga í landinu.

Staða ríkisfjármála er óvenju sterk vegna þess að ríkissjóður hefur verið rekinn með umtalsverðum tekjuafgangi á undanförnum árum. Tekjuafgangurinn og söluhagnaður Landssímans hefur verið notaður til að lækka skuldir eða verið bundinn hjá Seðlabankanum til ráðstöfunar síðar. Þannig hefur ríkissjóður markvisst lagt sitt af mörkum til að vinna á móti hagsveiflunni og stutt vel við peningastefnu Seðlabankans. Er leitun á öðrum eins árangri meðal annarra ríkja OECD.

Sterk staða ríkissjóðs sést einna best í því að hreinar skuldir hafa lækkað hröðum skrefum og eru langt undir meðaltali ríkja OECD. Staðan er einnig sterk vegna þeirrar framsýni aðila vinnumarkaðar á sínum tíma að stofna til söfnunarlífeyrissjóða sem munu standa undir lífeyri fyrrum starfsmanna í framtíðinni. Ríkisstjórnin ákvað að lækka tryggingagjald um 0,45% við gerð kjarasamninga á almennum markaði árið 2004 og kemur sú lækkun til framkvæmda í upphafi næsta árs, enda hafi iðgjöld atvinnurekenda í lífeyrissjóði hækkað úr 6% í 8% og verði samtals 12% að meðtöldu framlagi launþega. Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi lífeyrissjóðunum til með einum eða öðrum hætti einn milljarð kr. á næsta ári til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóðanna. Styrkir það lífeyrissjóðina enn frekar.

Staða ríkissjóðs er sterk vegna þess að ríkissjóður hefur safnað eignum hjá Seðlabanka Íslands og námu þær rúmum 100 milljörðum kr. í lok ágúst sl. Þá verður ríkissjóður búinn að greiða yfir 120 milljarða með vöxtum inn á lífeyrisskuldbindingar lífeyrissjóða starfsmanna ríkisins í lok næsta árs.

Sterk staða ríkissjóðs kemur fram í því að ríkissjóður getur lækkað skatta á heimilin í landinu á næsta ári og stóraukið framlög til barnabóta og velferðarmála án þess að raska jafnvægi í ríkisfjármálum til skemmri eða lengri tíma. Að frátalinni ráðstöfun á söluandvirði Landssímans sést að enn er rými til að létta byrðum af heimilunum með enn frekari aðgerðum í skattamálum án þess að stefna ríkisfjármálum í hættu.

Langtímaspár þjóðhagsáætlunar sýna að verulega dregur úr þjóðarútgjöldum á næsta ári. Verðbólga og viðskiptahalli lækka hratt og hagkerfið verður á næstu árum komið í jafnvægi við 3% hagvöxt og 2% verðbólgu og viðskiptahalla er nemur um 2% af landsframleiðslu.

Sterk staða ríkisfjármála er spegilmynd af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur birst í vaxandi kaupmætti, litlu atvinnuleysi, lækkun skatta á fyrirtæki og einstaklinga samhliða því að framlög til mennta- og velferðarmála hafa verið aukin.

Ég legg til, frú forseti, að frumvarpi þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar. Óska ég eftir góðu samstarfi við nefndina, nú sem hingað til og að takast megi að afgreiða frumvarpið í samræmi við starfsáætlun þingsins eins og undanfarin ár.