133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:44]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var að vonum að ég fengi engin svör við þessu, ég mátti svo sem vita það. Samfylkingin kom nefnilega ekki með neinar tillögur um efnahagsmál fyrir ári síðan. Það var ýmislegt gagnrýnt hér um stöðu efnahagsmála, m.a. kom fram gagnrýni á hið mikla misvægi sem lægi í vaxtamun Íslands við útlönd og þeirri hættu sem lægi í því að við fengjum þess vegna of mikið „input“ af peningum. Samfylkingin tók ekki þátt í þeirri gagnrýni á nokkurn hátt.

Það hefur legið fyrir mjög lengi að skattbyrði Íslendinga hefur stórlega verið að lækka sem hlutfall af landsframleiðslu alveg nákvæmlega sama hvernig við reiknum það. Hún hefur verið að lækka hjá okkur vegna þess að okkur hefur tekist þokkalega til um rekstur ríkisins, þokkalega segi ég, alls ekki til fyrirmyndar, við gætum gert betur. Það liggur líka fyrir að tilvitnun í mælitæki sem einhverjir félagsfræðingar finna upp, þeir eru alltaf að reyna það, samanber þessi Gini, sem ég held að hafi verið Ítali, og fer að mæla það hver séu hæstu og lægstu laun og finnur það út að jafnvægið sé við 0,5 þegar allir hafi sömu launin. Bíddu, hvernig er þá þjóðfélagið þegar allir hafa sömu launin? Þá er þjóðfélagið algjörlega frosið fast. Er það nú til bóta? Þetta er bara hrein vitleysa að vera að bera þetta saman.

Ef menn sem hafa hæstu tekjur á Ísland flyttu sig nú til útlanda, hvað mundi þá gerast samkvæmt Gini-stuðlinum? Jú, þá mundi jöfnuður aukast. Ef hátekjufólk sem borgar skatta erlendis, Íslendingar, mundu nú flytja sig heim, hvað mundi gerast þá? Jöfnuður aukast eða minnka? Ójöfnuðurinn mundi aukast. Þetta er náttúrlega bara allt hrein vitleysa.

Lífskjaramæling Sameinuðu þjóðanna þar sem allir þættir eru teknir inn í liggur hér fyrir. Það liggur fyrir að Noregur og Ísland eru talin standa best að vígi af öllum Evrópuþjóðunum. Vilja menn ekki viðurkenna þessa staðreyndir eða kemur þetta sér svo illa fyrir stjórnarandstöðuna að það má ekki segja það?