133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:57]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram eins og mig grunaði. Að við værum út af fyrir sig sammála um mikilvægi fjárreiðulaganna. Bara af því tilefni vil ég minna á að því miður hefur það æðioft gerst að eftir fjárreiðulögunum hefur ekki verið farið m.a. varðandi það að ríkisstjórn tilkynni ætíð fjárlaganefnd þegar hún er að ákveða nýjar fjárveitingar eða breytingar á fjárlögum. Þetta hefur því miður ekki gerst og þetta er bæði meiri hluta og minni hluta í nefndinni fullkunnugt um.

En hv. þingmaður kom víðar við í ræðu sinni og tilgreindi t.d. þær miklu tilfærslur sem gerðar eru tillögur um í frumvarpinu og benti auðvitað á að þar væri verið að stíga ákveðin skref. Ég tók þetta fyrir í ræðu minni í morgun og taldi að þarna væri gengið í rétta átt varðandi jöfnunaraðgerðir. Hins vegar liggur það fyrir, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, að þetta var gert vegna samninga við aðila sem beittu þrýstingi til að ná þessu fram. Það var ekki í fyrsta skipti sem t.d. aðilar vinnumarkaðarins koma að þessu borði til að reyna að kveða niður verðbólgudrauginn sem allra, allra fyrst.

Það var hins vegar athyglisvert þegar hv. þingmaður fór að nefna, eins og fleiri hv. þingmenn úr stjórnarliðinu hafa gert, að verið væri að hækka barnabætur, að verið væri að hækka vaxtabætur o.s.frv. Þetta er rétt svo langt sem það nær, þ.e. miðað við þær fjárhæðir sem eru í fjárlögum í ár og jafnvel í fyrra þá er verið að hækka fram á næsta ár.

En þegar tímabilið er haft örlítið stærra og farið að horfa örlítið aftur í tímann þá er þessi aðferð ríkisstjórnarinnar alkunn, þ.e. að byrja á að taka og bæta svo hluta til baka og tala um að menn séu nú að bæta í. Ég hélt nú sannast sagna að menn væru hættir þessum leik. Hann er nokkuð kunnuglegur í sögu þessarar ríkisstjórnar, að byrja á því að taka töluvert mikið og bæta síðan hluta af því til baka, koma síðan og berja sér á brjóst og segja: Sjáið hvað við erum góðir.