133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:12]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kallaði frumvarp til fjárlaga skáldsögu. Hvað veldur því að hann notar slík orð? Hvað er rangt í þessu frumvarpi? Það er að vísu ákveðin áhætta í frumvarpi þegar menn eru að spá fram í tímann. Það liggja fyrir lærðar ritgerðir um það hvernig spálíkön, þjóðhagslíkönin, geta verið röng.

Ég er margsinnis búinn að taka það fram að ég vildi óska þess að þjóðfélagið næði fyrr jafnvægi en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Það hefði kannski þau áhrif að tekjurnar yrðu eitthvað lægri. Ég hef líka tekið það fram, virðulegi forseti, að það er að mínum dómi heilbrigt og gott. Ríkið þarf ekkert á þessum miklu peningum að halda. Ríkið er með alla vasa fulla af peningum. Ég held ég fari rétt með að innstæður ríkisins hjá Seðlabankanum eru í dag yfir 100 milljarðar. Ég hef engar sérstakar áhyggjur þó það dragi úr tekjum ríkisins. Ég vildi óska þess að það gerði það vegna þess að skuldasöfnunin, sem einstaklingar og fyrirtæki standa fyrir gagnvart útlöndum, er okkar helsta vandamál. Ég hef margsinnis tekið það fram, ekki í ár heldur líka í fyrra, hittiðfyrra og árið þar áður. Á Íslandi hefur verið mikil skuldaaukning á undanförnum árum. En eignaaukningin hefur hins vegar verið enn meiri eins og allar skýrslur sýna, margfalt.

Samt sem áður, virðulegi forseti, er ekki heilbrigt að vera með svona mikið ójafnvægi í viðskiptum við útlönd. Það er mjög óheilbrigt og mjög gott ef við komumst út úr því.

Íslenska velferðarkerfið er eitt það fullkomnasta í heimi. Íslenskir þegnar borga hlutfallslega minna til heilbrigðismála en þegnar í Evrópu. Þegnar í Evrópu borga til heilbrigðismála ... (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Eru það ekki tvær mínútur?

(Forseti (ÞBack): Jú, en þær eru bara liðnar.)

Nei, það er útilokað.

(Forseti (ÞBack): Hv. þingmaður verður að taka því.)

Ég tek því.