133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:23]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá höfum við fengið það fram að hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki áhyggjur af verðbólgunni né af greiðslubyrði heimilanna í landinu af fjárskuldbindingum sínum. Ég held að það sé rétt að færa það til bókar.

Hvað varðar skattheimtuna þá er það einfaldlega þannig að hæstv. fjármálaráðherra hefur eigin hendi fellt þá tillögu sem við í Samfylkingunni höfum talað fyrir ár eftir ár, um að lækka matarskatt. Hann hafnaði því einfaldlega sem innleggi í efnahagsstjórnina, þegar þenslan var sem mest á síðasta ári, að fara þá leið. En það er auðvitað fagnaðarefni að loksins skuli hafa tekist að píska stjórnina til þess. Við skulum vona að við fáum tillögurnar um lækkun matarskattsins fljótlega.

En ástæðan fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra getur sagt að skattarnir séu að lækka í ár, þ.e. hlutfallslega þótt þeir aukist verulega í krónum, er auðvitað sú að skattar fóru hér í 32,6% af landsframleiðslu og landsframleiðslan hefur aldrei verið meiri. En allan síðasta áratug fóru þeir aldrei yfir 30%. Það að þeir lækki í ár þýðir að þeir fara í 31% í ár. Þeir verða samt verulega stærri hluti af kökunni, sem þó er stærri, en var allan síðasta áratug. Það sem við í Samfylkingunni höfum áhyggjur af eru skattar eins og matarskatturinn. Skattar eins og stimpilskattar ríkisstjórnarinnar, sem eru sennilega farnir að skila þeim fast að því jafnmiklu og tekjuskattslækkunin sem fyrirhuguð er, að halda niðri persónuafslættinum og að auka í sífellu bæði tekjutengingar í kerfinu og hlut venjulegs fólks í rekstri opinberrar þjónustu (Forseti hringir.) í sjúkrakerfinu, í lyfjakostnaðinum og í skólakerfinu.