133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:21]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gerir mjög lítið úr þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin stendur núna í til að bæta sérstaklega stöðu þeirra sem hvað verst standa í samfélaginu. Hækkun barnabóta um 25% á milli áranna 2006 og 2007 er gríðarlega mikil hækkun sem einskorðast við lágtekju- og millitekjufólk. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að lækkun á tekjuskattinum kemur tekjuháum til góða. Hún kemur líka tekjulágum til góða vegna þess að hún hækkar persónuafsláttinn sem mun hækka um 12 þús. kr. verði þetta frumvarp samþykkt, úr 78 þúsundum upp í 90 þúsund. Hér er um að ræða miklar jöfnunaraðgerðir.

Við erum trúlega ekki búin á þeirri vegferð en ég fullyrði að ef það verður þannig að það kosningabandalag, sem ég get ekki séð að sé neitt kosningabandalag hér innan þingsins því að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar tala út og suður, ef viðkomandi komast í ríkisstjórn eftir næstu kosningar, þá eru miklar efasemdir í mínum huga um hvað gerist í málefnum sjávarútvegsins og málefnum Kárahnjúkavirkjunar. Frjálslyndir vildu fara í þá för að fresta fyllingu Hálslóns, sem hefði kostað tugi milljóna króna, sú eina framkvæmd, en hv. þm. Sigurjón Þórðarson hefði væntanlega bara fundið einhverjar aðferðir til þess að minnka ríkisútgjöldin um það. Og loks veltir maður því fyrir sér hvaða leiðir sú ríkisstjórn mundi vilja fara gagnvart þeim frjálsa markaði, hinum glæsilegu útrásarfyrirtækjum, bönkunum, sem nú skilar miklum fjármunum inn í ríkissjóð. Þetta eru verk ríkisstjórnarinnar, sem hafa aukið skatttekjur ríkissjóðs gríðarlega, og við getum einmitt varið þessum fjármunum til þess að gera sem best við okkar minnstu bræður og systur, þá sem höllustum fæti standa í samfélaginu. Það eru okkar markmið.