133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

5. fsp.

[15:43]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Frá árinu 2003 hefur verið boðið upp á sérstaka kennslu fyrir geðsjúka og heilaskaðaða og í vetur stunduðu rúmlega 80 manns nám við þetta samstarfsverkefni Fjölmenntar og Geðhjálpar. Áætlað er að kostnaður nemi um 24 milljónum á ári en ár eftir ár hefur ríkt nokkur óvissa um fjármögnun verkefnisins. Árið 2004 var samþykkt á fundi ríkisstjórnar að tryggja fé til rekstursins og hæstv. menntamálaráðherra falið að fylgja þeirri ákvörðun eftir.

Nú liggur það fyrir að ekki hefur verið staðið við þá samkomulagsgerð af hálfu hæstv. menntamálaráðherra. Ekkert samkomulag var gert og forusta Geðhjálpar hefur sakað hæstv. ráðherra um að ganga á bak orða sinna. Kennurum hefur verið sagt upp og menntunarmál geðsjúkra eru í uppnámi. Það blasir ekki annað við en að þessi hópur geðsjúkra og heilaskaðaðra verði sviptur sínum eina og besta möguleika til menntunar við hæfi. Stjórn Geðhjálpar hefur til að mynda ályktað af þessu tilefni og beint til ríkisstjórnar Íslands að tafarlaust verði tryggt fé til rekstursins á yfirstandandi skólaári og teknar upp viðræður á milli Fjölmenntar og ríkisstjórnar um framtíðarskipan menntunarmála fyrir geðsjúka og heilaskaðaða. Að óbreyttu verður námið skert verulega um áramót þegar uppsagnir taka gildi. Um er að ræða einstaklinga sem eru oft hvorki læsir né skrifandi, allt upp í einstaklinga sem hafa veikst harkalega og illa andlega og eru rétt við það að ljúka háskólagráðu og í gegnum Fjölmennt hafa þeir fengið nýtt tækifæri til að ljúka námi sínu og nýtt tækifæri í lífinu.

Engum blandast hugur um mikilvægi verkefnisins. Það stendur á því að hæstv. menntamálaráðherra gangi í málið, reki af sér slyðruorðið, reki af sér það orð að hún sé að ganga á bak þess sem hún hefur áður sagt.

Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Stendur til að ljúka við gerð samkomulagsins og tryggja Fjölmennt nægjanlegt fjármagn til að halda náminu úti næsta vetur?