133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn.

[13:40]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er vel við hæfi að taka upp málefni um geðheilbrigðisþjónustu á alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum 10. október. Það hefur verið mikil vakning í þjóðfélaginu varðandi geðheilbrigðismál og geðheilbrigðisþjónustu og það kemur ekki til af góðu, hæstv. forseti, þar sem úrræðaleysi er mikið og hefur verið mikið, bæði hjá fullorðnum hvað varðar búsetu og menntun — og má þar m.a. nefna málefni Fjölmenntar sem nú á í miklum rekstrarerfiðleikum og hefur þurft að draga saman seglin í vetur — og einnig hvað varðar stuðning við börn, en það vantar og hefur sárlega vantað stuðning í skóla og nánasta nærumhverfi barnanna og hvað varðar vistunarúrræði. Við höfum verið með allt of stofnanavædda geðheilbrigðisþjónustu. Krafan í dag er að nútímavæða geðheilbrigðisþjónustuna, færa hana í átt til þess sem gert er á Norðurlöndunum og víðast hvar í Evrópu.

Til þess að varpa örlítið skýrari ljósi á stöðu barna þá segja skýrslur að 2–5% barna eigi við alvarlegar hegðunar- og geðraskanir að stríða og séu í brýnni þörf fyrir sérhæfða og öfluga þjónustu, bæði í skóla- og heilbrigðiskerfinu. Með öðrum orðum má reikna með að 85–214 börn sem fæddust árið 2005, sé tekið mið af upplýsingum frá Hagstofu Íslands um lifandi fædd börn það ár, þurfi á þessari þjónustu að halda. Það þýðir að yfir 2 þúsund börn á aldrinum 1–6 ára búa við geðraskanir í dag.

Hæstv. forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra hafa á síðustu dögum birt áætlanir um bætta þjónustu í hvoru tveggja (Forseti hringir.) þessara ráðuneyta. Ég ætla að vona að það gangi allt eftir en meira þarf til.