133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn.

[13:46]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að taka upp þessa umræðu í tilefni af alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum. Ég er mjög sáttur við þær áherslur sem fram hafa komið á undanförnum árum og byggjast á stefnumótandi frumkvæði og starfi sem segja má að sé sprottið úr grasrótinni hjá því fólki sem sjálft á við geðheilbrigðisvanda að stríða. Nokkur samtök hafa látið mjög að sér kveða í umræðu og starfi og má þar nefna klúbbinn Geysi sem er hlekkur í stórri keðju sem nær víða um heim.

Þótt við fögnum þeirri nýju hugsun sem byggist á samvinnuhugsjón og sjálfshjálparstarfi er ekki þar með sagt að við megum vanrækja stofnanirnar eða sjúkrahúsin. Ég minni á að þar hafa á undanförnum árum myndast langar biðraðir sem hafa verið til umræðu við afgreiðslu fjárlaga á undanförnum árum. Við skulum ekki gleyma vanda þessara stofnana þótt við fögnum nýjum úrræðum á þessu sviði.