133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:49]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Málið snýst ekki bara um að bera okkur saman við önnur lönd. Að mínu mati er það einkum notað til þess að árétta það að þetta er spurning um að fara að fjárreiðulögum, fylgja þeim. Það hefur ekki verið gert eins og kom fram í máli mínu. Þegar litið er til annarra ríkja þá er það að sjálfsögðu þegar vinnubrögðin við fjárlagagerðina eru gagnrýnd. Mesta gagnrýnin lýtur að vinnubrögðunum vegna þess að þar er lausungin. Það er eins og upphæðum sé slumpað á fjárlagaliðina þar sem stórt hlutfall, 68% þeirra er með 4% eða meira frávik.

Virðulegi forseti. Talandi um þetta vaxtabótafrumvarp þá hefur það legið fyrir frá því í vor, eins og ég kom inn á í ræðu minni, að þetta þyrfti að gera. Ég er undrandi yfir því að þetta skuli ekki hafa komið inn í fjáraukalögin. Nægur hefur tíminn verið til að leiðrétta þessa þætti.

Eins og hæstv. ráðherra sagði þá væri lítið mál að breyta þessu á milli umræðna um fjáraukalögin og setja þetta inn. Frú forseti. Það er umræða sem við eigum eftir að taka. Það er alveg ljóst, miðað við að menn ætla að setja 500 millj. kr. inn í kerfið að ætlunin er ekki að bæta til fulls þær harkalegu skerðingar sem fólk varð fyrir, bæta því það áfall sem það varð fyrir í vor þegar sumir misstu allar sínar vaxtabætur, nærri því mánaðarlaun eftir skatt vegna þessara breytinga. Það er ekki verið að bæta það til fulls. Það er umræða sem við eigum alveg eftir að taka, frú forseti.