133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[16:50]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði ekkert um fleipur. Það var ekki eitt af þeim orðum sem ég notaði. Hvort sem hv. þingmaður vitnar til Ríkisendurskoðunar eða að þetta sé það sem hann er sjálfur að finna upplýsingar um, þá er það dálítið merkilegt að það skuli ein stofnun koma svona út. Engin hinna skuli þá vera með halla af þessum orsökum, þ.e. að ráðherra hafi sagt þeim að þær ættu að halda áfram með einhver verkefni sem ekki eru fjárveitingar fyrir. Það er dálítið merkilegt ef það er svoleiðis.

Er það þá Ríkisendurskoðun sem komin er með fjárveitingavaldið? Eru það tillögur Ríkisendurskoðunar sem fjárlaganefnd ætlar að fara að afgreiða? Hvaðan fær þá Ríkisendurskoðun þær upplýsingar sem hv. þingmaður vitnar til ef hann segir þær ekki komnar frá honum sjálfum? Er það þá ríkisendurskoðandi sem metur það hvort forstöðumennirnir séu að segja honum satt og rétt frá um hvað ráðherrarnir leggja fyrir hann? Þetta er auðvitað allt saman hið athyglisverðasta mál hvernig í þessu liggur.

En hvað varðar virðisaukaskattinn, ég var eiginlega í hálfnuðu svari þegar tími minn var búinn. Ég ætla að minna hv. þingmann á ýmislegt af því sem flokkssystkin hans hafa sagt hérna og kannski hann sjálfur varðandi þenslu og skattalækkanir og minna hann á það sem ASÍ hefur verið að nefna núna síðustu klukkustundirnar, að þeir telji að þetta sé jafnvel of snemmt að vera með lækkun virðisaukaskattsins 1. mars vegna þess að þenslan verði ekki liðin hjá á þeim tíma.

Jafnvel þótt hún væri liðin hjá 1. janúar þá held ég að 1. janúar væri ekki góður tími til að gera svona breytingar. Við vitum öll hvers konar dagsetning það er og hvað á undan er gengið. Þar af leiðandi væri upphaf fyrsta virðisaukaskattstímabils eftir 1. janúar betra en 1. janúar sjálfur.