133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

neyslustaðall.

102. mál
[13:36]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Á þskj. 102 spyr hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir um neyslustaðal. Í fyrsta lagi er spurt hvort þess megi vænta að frumvarp um gerð neyslustaðals verði lagt fram á yfirstandandi þingi. Nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði til að kanna kosti þess og galla að gefa út neysluviðmið fyrir Ísland skilaði á síðustu dögum skýrslu og tillögum í því sambandi. Niðurstaða nefndarinnar er sú að það sé vel framkvæmanlegt að gera slík neysluviðmið á Íslandi.

Jafnframt er að finna í tillögum nefndarinnar með hvaða hætti sé unnt að útfæra slíkt viðmið án óhóflegs stjórnsýslukostnaðar við viðhald og uppfærslur á því. Einnig er ljóst af tillögum nefndarinnar að engar lagabreytingar eða ný löggjöf þarf að koma til í þessu sambandi. Af þeirri ástæðu stendur ekki til að leggja fram frumvarp um þetta efni.

Í öðru lagi er spurt hvort fyrirhugað sé að neyslustaðall nái til allra opinberra aðila sem byggja bætur, lán, styrki eða aðrar greiðslur á neysluviðmiðun. Nefndin bendir á að fjölmargir aðilar nota ýmis neysluviðmið í starfsemi sinni jafnt hjá hinu opinbera sem og einkaaðilum, t.d. í viðskiptabönkum. Opinbert neysluviðmið telur nefndin að geti komið að gagni fyrir þá fjölmörgu aðila sem vinna slík viðmið en hún telur að ekki eigi að fyrirskipa að eitt neysluviðmið skuli gilda í landinu öllu. Á það má hins vegar benda að ef slíkt viðmið er til og er uppfært reglulega mun það spara vinnu hjá ýmsum aðilum ef þeir kjósa að nota slíkt viðmið í starfsemi sinni.

Í þriðja lagi er spurt hver sé þá kostnaðurinn við gerð neyslustaðals og hvað ætla megi að það kosti að viðhalda honum. Í skýrslu nefndarinnar er bent á tvær leiðir sem eru færar í þessu máli. Kostnaður við aðra leiðina sem nefndin bendir á er alls um 36,7 millj. kr. á ári en hins vegar bendir nefndin á að önnur leið, sem hún telur álíka trausta, kosti aðeins um 6,3 millj. kr. árlega. Fréttatilkynning hefur verið gefin út í dag og skýrslan kemur á heimasíðu ráðuneytisins síðar í dag.