133. löggjafarþing — 10. fundur,  11. okt. 2006.

bann við botnvörpuveiðum.

196. mál
[15:00]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tel að við höfum vanrækt að rannsaka áhrif veiðarfæra á lífríki hafsins, á botninn og fiskstofnana sjálfa. Ég mæli ekki bót að þeim sjónarmiðum að banna eigi botnvörpu algerlega en ég er ekki viss um að við höfum verið á réttu spori með að leyfa veiðar með þessu stórvirka tæki eins mikið og reyndin er.

Ég er heldur ekki viss um að það sé rétt að leyfa notkun á flottrolli í þeim mæli sem verið hefur. Ég hef sjálfur séð slæm áhrif af notkun flottrolls á fiskinn sem veiddur er. Það fer mjög illa með hann og ég hef ekki mikla sannfæringu fyrir því að rétt hafi verið að leyfa flottroll við veiðar á loðnu eða kolmunna í þeim mæli sem reyndin hefur verið. Ég held að almennt þurfum við að skoða betur áhrif veiðarfæra á lífríki, botnlíf og setja frekari skorður við eftir aðstæðum.