133. löggjafarþing — 11. fundur,  12. okt. 2006.

ný framtíðarskipan lífeyrismála.

3. mál
[14:59]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Sú tillaga sem er flutt hér sameiginlega af allri stjórnarandstöðunni sýnir vel þá áherslu og samstöðu sem ríkir í allri stjórnarandstöðunni um að setja málefni lífeyrisþega í forgang í íslensku samfélagi. Það er svo, virðulegi forseti, að þessi hópur virðist hafa verið afgangshópur í tíð þessarar ríkisstjórnar og hefur sætt miklum skerðingum hvernig sem á það er litið, hvort sem það er varðandi skattbyrðina eða lífeyrisgreiðslur. Á þessu viljum við að verði breyting.

Kannski er það lýsandi fyrir áhuga stjórnarflokkanna á þessu máli að fáir sitja hér, raunar enginn, í þessum sal núna til þess að hlýða á þessa umræðu nema hæstv. heilbrigðisráðherra sem við kölluðum til umræðunnar og ég sé ekki að nokkur einasti stjórnarliði sé á mælendaskrá. (Gripið fram í: Sæunn.) Hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir tók aðeins til máls áðan og hún hefur einlægan áhuga á þessu máli eins og flestir vita. Hún var að kalla eftir umræðu en ég spyr: Hvar eru stjórnarliðar til að taka þátt í þessari umræðu?

Það er svo að lífeyrisþegar hafa sætt 15–17 þús. kr. skerðingu á mánuði í tíð þessarar ríkisstjórnar ef miðað er við það að lífeyrir héldi raungildi sínu eins og hann var 1995. Lífeyrisgreiðslur lífeyrisþega væru um 170 þús. kr. hærri á ári ef þær hefðu haldið raungildi sínu. Skattarnir eru alveg kapítuli út af fyrir sig. Ef ég tek sem dæmi lífeyrisþega með 130 þúsund á mánuði, sem á við um stóran hluta lífeyrisþega, þá hefur skattbyrði þessa einstaklings, þessa lífeyrisþega með 130 þús. kr. á mánuði árið 2006 og jafngildi þeirra 1995, miðað við þróun launavísitölu, hátt í fjórfaldast í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Á sama tíma hefur skattbyrði þeirra sem hafa stærstan hluta síns framfærslueyris af fjármagnstekjum minnkað. Maður spyr t.d.: Hvað er það, virðulegi forseti, sem réttlætir það að þeir ríkustu í þjóðfélaginu, auðmennirnir, greiði 10% skatt af stærstum hluta sinna tekna meðan ellilífeyrisþegar, lífeyrisþegar, aldraðir og öryrkjar þurfa að borga af sínum lífeyri úr lífeyrissjóðum 37% rúmlega? Þessu viljum við breyta, virðulegi forseti, þ.e. að lífeyrir lífeyrisþega beri fjármagntekjuskatt en ekki tekjuskatt eins og nú er.

Kaupmáttur lífeyrisþega — af því að stjórnarliðar tala iðulega um kaupmátt — kaupmáttur lífeyrisþega hefur aukist helmingi minna en annarra á árunum 1995–2005 eða um 25% þegar kaupmáttur lágmarkslauna hefur aukist um 56%. Svo ræðum við lífeyrismálin hér. Það er alveg ljóst að í þeim tillögum sem við setjum hér fram er að verulegu leyti komið til móts við það sem lífeyrisþegar sjálfir hafa lagt áherslu á. Grundvallaratriði í þessari tillögu er að komið verði á afkomutryggingu, en undanfari þess er að gerð verði neysluúttekt eða neyslugrunnur á framfærsluþörf lífeyrisþega og á þeim grunni viljum við byggja afkomutryggingu sem tekur mið af raunverulegri framfærsluþörf lífeyrisþega. Fyrst í stað, meðan verið er að útbúa þennan lífeyrisgrunn, viljum við að sú nýja tekjutrygging sem á að koma á og var gerð í yfirlýsingu Samtaka aldraðra við ríkisstjórnina, verði hækkuð. Við viljum að hún verði hærri en um var samið í þeirri yfirlýsingu, eða um 6.500 kr.

Við viljum einnig að frítekjur vegna atvinnutekna lífeyrisþega verði 75 þús. kr. á mánuði og það strax 1. janúar núna eða um komandi áramót. Ég spyr, af því að hæstv. ráðherra er hér: Hvers vegna í ósköpunum var ekki hægt að semja um frítekjumark sem tæki fyrr gildi en um var samið í þessari yfirlýsingu? Það er bæði ávinningur fyrir lífeyrisþega sjálfa og fyrir þjóðfélagið og samfélagið allt að lífeyrisþegar geti unnið sér inn einhverjar tekjur samfara lífeyrisgreiðslunum án þess að þær skerðist. Skerðingarnar eru alveg gífurlegar núna. Fram hefur komið t.d. hjá lífeyrisþegum að skattar og skerðingar þýddu um 67–85% skerðingu að því er varðar atvinnutekjurnar.

Nú kostar það ekki mikið að fara með frítekjumarkið upp í 17 þús. kr. eins og ríkisstjórnin ætlar að gera 2009 og 25 þús. kr. árið 2010, 300–400 millj. kr. Ég spyr hæstv. ráðherra: Kemur til greina af hálfu ríkisstjórnarinnar að flýta því að frítekjumarkið taki gildi, að það þurfi ekki að bíða í tvö, þrjú ár eða jafnvel fjögur ár eftir að frítekjumarkið taki gildi þegar þessi ríkisstjórn er löngu farin frá? Ég spyr um hvort það komi til greina vegna þess að það skiptir verulegu máli fyrir lífeyrisþega að tekið verði upp frítekjumark eins og við leggjum til, sem eru 900 þús. kr. á ári eða 75 þús. kr. á mánuði.

Við leggjum einnig til að ráðstöfunarfé, vasapeningar, við dvöl á stofnun hækki um 50% og það frá 1. júlí 2006. Ég skil bara ekki, virðulegi forseti, hvers vegna allir fengu hækkun á sínum lífeyri um mitt þetta ár en þeir sem hafa ráðstöfunarfé eða svokallaða vasapeninga fá ekkert fyrr en um næstkomandi áramót. Við leggjum til að þetta ráðstöfunarfé hækki um 50% og það taki gildi afturvirkt frá 1. júlí 2006. Ég spyr hæstv. ráðherra: Af hverju var verið að skilja þá eftir sem minnst hafa, sem eingöngu hafa ríflega 22 þús. kr. í vasapeninga?

Við viljum einnig að afnumin verði að fullu tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka og að öryrkjar haldi aldurstengdri örorkuuppbót þegar þeir fara á ellilífeyri.

Gerður hefur verið af hálfu Landssambands eldri borgara samanburður á okkar tillögum og tillögum ríkisstjórnarinnar. Þar kemur fram að ef viðkomandi hefur 60 þúsund í atvinnutekjur þá þýðir það að tillögur okkar gefa honum um 32–33 þús. kr. hærri framfærslueyri á mánuði en tillögur ríkisstjórnarinnar. Það munar um minna. Þetta eru staðreyndir sem liggja á borðinu. Þar sem atvinnutekjurnar skerða strax þá fær sá sem hefur 60 þús. kr. í atvinnutekjur þetta miklu meira út úr okkar tillögum.

Ég vil líka segja það, virðulegi forseti, að það er staðreynd að hér á landi rennur miklu minna til velferðarútgjalda en á hinum Norðurlöndunum. Við eigum að setja málefni lífeyrisþega í forgang. Það er ætlun stjórnarandstöðuflokkanna þegar þeir komast til valda og það endurspeglast vel í þeirri tillögu sem við ræðum hér í dag.