133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

álit Samkeppniseftirlitsins um búvörulögin.

[15:15]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það er athyglisvert að hlýða á, sérstaklega málflutning sjálfstæðismanna þar sem annar þingmaðurinn talar upp í sveit og hinn til borgarbúa.

Ég held að það hvernig Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa brugðist við í þessu máli lýsi í raun viðhorfum ríkisstjórnarinnar til samkeppnismála. Þegar í ljós kemur það álit samkeppnisyfirvalda að brotið hafi verið á ákveðnu fyrirtæki þá segir viðkomandi ráðherra að forstjóri Samkeppniseftirlitsins sé í pólitík. Allir muna eftir athugun Samkeppnisstofnunar á olíusamráðssvikunum sem endaði með því að sú stofnun var lögð niður. Þetta lýsir viðhorfum til samkeppnismála sem þarf að breyta.

Ég er á því að það blasi við bændum, en við í Frjálslynda flokknum berum hag þeirra sérstaklega fyrir brjósti, að þetta ráðslag sem ríkisstjórnin hefur uppi núna, þ.e. að búa til eitt fyrirtæki og koma í veg fyrir að eðlileg samkeppnislög gildi um þennan atvinnurekstur, er ekki til hagsbóta fyrir bændur. Bændur þurfa á almennum velvilja í samfélaginu að halda. Þeir þurfa á því að halda að skattborgarar vilji greiða til þeirra ríkisstyrki og halda uppi innflutningsvernd. Þess vegna þurfum við að koma á almennum friði um þessa atvinnugrein en stökkva ekki upp á nef okkur, eins og hæstv. landbúnaðarráðherra gerir þegar sannarlega hefur verið brotið á ákveðnu fyrirtæki af markaðsráðandi starfsemi.

Ég ætla að lokum að benda á alvarlegri álit sem hafa komið fram frá samkeppnisyfirvöldum sem varða hag íslensku þjóðarinnar. Þá á ég við þau álit sem varða sjávarútveginn. En í áliti nr. 2 frá árinu 2000 var bent á að sjávarútvegsráðherra ætti að gera gangskör að því að ekki væri brotið á sjávarútvegsfyrirtækjum sem standa höllum fæti gagnvart þeim sem hafa markaðsráðandi stöðu og hafa yfir kvóta að ráða.